Ragnhildur Helgadóttir :
    Frú forseti. Aðeins örfá orð. Hæstv. utanrrh. féll í þá freistni í ræðu sinni áðan að snúa út úr mikilvægu atriði í ræðu minni. A.m.k. mátti skilja orð hæstv. ráðherra svo. Hæstv. ráðherra jafnaði þeirri hugmynd minni, að við ættum að láta á það reyna hvernig okkar sérhagsmunum reiddi af í samningaviðræðum um aðild, til þess að viðkomandi væri reiðubúinn til þess að taka þátt í því að láta Íslendinga afsala sér 200 mílna fiskveiðilögsögu og yfirráðum yfir henni. Hæstv. ráðherra útlistaði þetta nánar með því að segja að full aðild þýddi það að þá undirgengjust menn í einu og öllu öll skilyrði Rómarsamningsins og þar með væri þetta orðin staðreynd að því er fiskveiðilögsöguna varðar.
    Ég vil leyfa mér að vara við því að hæstv. utanrrh. ríkis, sem á jafnmikið undir viðskiptaaðila sína að sækja og við, láti sér slíkt um munn fara. Það sannaðist reyndar í lok ræðu hæstv. ráðherra að hann telur að sá dagur kunni að koma, og við vitum ekki nema það verði fyrr en seinna, að við þurfum að standa frammi fyrir hugsanlegri umsókn um aðild. Hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að við eigum að taka það til athugunar ef og þegar það yrði ljóst að samningar um Evrópskt efnahagssvæði rynnu út í sandinn. Hæstv. ráðherra getur því hugsað sér slíkar viðræður. Mig undrar þess vegna að hæstv. ráðherra skuli lýsa því yfir sem sínum skilningi að slíkt verði ekki gert nema með þessu afsali lögsögunnar sem við börðumst svo hart fyrir. Ég held þvert á móti að hæstv. ráðherra ætti einmitt að líta á það sem árangur af því starfi sem unnið hefur verið í þessu EFTA - EB - samningaferli að með því hefur náðst víðtækari skilningur en ella á sérstöðu Íslands. Það er sá jarðvegur sem við þurfum að nota. Það er búið að vinna mikilsvert undirbúningsstarf, ef af aðild okkar yrði, ef menn hyrfu að því ráði að sækja um aðild og stefna að því, þá er búið að vinna ómetanlegt undirbúningsstarf með samanburði allra þeirra þátta sem fram koma í bláa ritinu þykka hér á borðum okkar og á mörgum öðrum sviðum þessa samningaferils.
    Ekkert af því er vanmetið þó bent sé á það að vel getur verið að hagsmunir okkar séu fólgnir í því að bíða ekki of lengi og sjá hvað setur. Hvers vegna í ósköpunum skyldi það vera hættulegra fyrir okkur en ýmsar aðrar þjóðir sem svo stendur á um? Ég er þeirrar skoðunar að einmitt vegna smæðar okkar sé það okkur hættulegra en öðrum að bíða of lengi með slíkt. Og ég tók það rækilega fram að það yrði gert í ljósi íslenskra sérhagsmuna vegna þess að ég teldi að það væri mikill skilningur á málum okkar og mikil líkindi til þess að gengið yrði að því að semja við okkur á grundvelli sem leyfilegur er, innan Rómarsáttmálans meira að segja, á þann veg að efnahagslíf okkar geti byggt á því að það séum við sjálf sem ráðstöfum okkar mikilvægustu og stærstu auðlind og það séum við sem innan alls þessa hóps séum sérfræðingarnir í því efni, þannig að um leið sé fullnægt því stefnumiði Evrópubandalagsins að nýta sem allra best

auðlindirnar. Það sé gert með því að þeir sem hafa kunnáttuna og þekkinguna á þeim geri það. Það eru í þessu tilfelli Íslendingar, þeir kunna best með íslenska fiskveiðilögsögu að fara og hana að nýta.
    Ég vildi ekki láta hjá líða, frú forseti, að andmæla því að hæstv. utanrrh. talaði svo gálauslega um þetta efni því að mér er rammasta alvara. Ég geri ráð fyrir því að mér sé ekkert síður annt um íslenska hagsmuni en honum. Ég skil það að hæstv. ráðherra hafi vissa þörf fyrir að skella sér á skeið eftir þá deyfðarrollu sem ræða hans hér fyrr í dag var og fannst mér nú Bleik heldur brugðið, satt að segja, í þeirri ræðu enda var augljóst að hæstv. ráðherra var kominn út í horn í sambandi við kröfuna um fríverslun EFTA með fisk gagnvart Evrópubandalaginu, sem hann svo oft áður hafði talað um sem stórhagsmunamál. Auðvitað gat það verið að hæstv. ráðherra liði ekki sem best og þess vegna hafi hann talið að einhvern veginn yrði að útskýra það að þessi staða væri eiginlega bara miklu betri. Þegar þessari aðalkröfu hefði verið hafnað þá væri það að hans mati einmitt til að styrkja samningsstöðu okkar. Vel má það vera að hæstv. ráðherra hafi skipt um skoðun
að því leyti til en engu að síður tel ég nú að einhvern veginn hafi hlutföllin í hans málflutningi ekki verið alveg eins og best gat orðið.
    Frú forseti. Það var ekki annað sem var mér tilefni til að fara í ræðustól. Það var einungis það að ég vildi ekki una því að mín orð væru túlkuð sem svo að ég vildi með því fórna okkar þjóðarhagsmunum, heldur þvert á móti.