Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umræður hér mjög mikið þó að vissulega væri þörf á því að taka hér sitthvað til umræðu sem fram hefur komið hjá hv. ræðumönnum, hæstv. ráðherrum þar á meðal. Það er margt athyglisvert sem hér hefur komið fram í umræðunni en hins vegar tel ég það ekki rétta túlkun, sem kom hér fram hjá hæstv. utanrrh., þess efnis að það væri mikill samhljómur í þessu máli og það stefndi mjög í samstöðu um meginefnisatriði þess. Það tel ég vera mikla rangtúlkun á því sem hér hefur komið fram og líka á því hvernig staða þessara mála liggur með þjóðinni. Þetta er viðleitni manna sem standa frammi fyrir hugverki sem er ófullgert og óvíst að verði lokið, þ.e. hugmyndinni um hið Evrópska efnahagssvæði, og eru heldur ekki reiðubúnir til þess að kveða upp úr um það hvað þeir ætli sér og hvað þeir vilji ef og þegar þær hugmyndir rekur endanlega í strand. Það er svo margt sem vísar á það að þetta strand sé skammt undan að það þarf ekki að eyða mjög mörgum orðum til viðbótar.
    Menn heyrðu fyrir skemmstu ummæli eins af helstu aðstoðarmönnum Helmuts Kohl, vestur-þýska kanslarans, ummæli Horst Teltschiks, sem er sagður nánasti ráðgjafi Helmuts Kohl í sænska blaðinu Veckans affärer. Í viðtali í þessu blaði fyrir nokkrum dögum sagði hann, í endursögn fréttamanns Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta: ,,Hann segir að þróunin í Evrópu á þessu ári hafi gert umræður um Evrópskt efnahagssvæði, sem hófust í fyrravor, þarflausar og tímasóun. Hann segir í viðtalinu að EFTA-ríkin geti sótt um aðild fyrir 1993 og þau þurfi í rauninni að hafa tekið ákvörðun um slíkt fyrir það ár. Með því að taka strax ákvörðun og sækja um aðild megi nota tímann fram til 1993 til viðræðna um aðild EFTA-ríkjanna, segir efnahagsráðgjafi Kohls kanslara.`` --- Þetta er útskrift af fréttaviðtali, eða fréttaútsendingu, 25. okt. sl., lausleg þýðing á því sem fram kom í þessu viðtali.
    Nú er það vissulega ljóst að af hálfu einstakra EB-ríkja og talsmanna þeirra, þar á meðal góðkunningja hæstv. utanrrh., danska utanríkisráðherrans, hafa oft komið fram eindregnar hvatningar í þessa átt, og raunar frá forsætisráðherra Dana ekki síður, sem finna sig heldur einmana og yfirgefna lengst í norðri, ofan á Mið-Evrópu, í næsta nágrenni við sameinað Þýskaland, og spara eiginlega ekkert tækifæri til þess að hvetja önnur Norðurlönd með ráðum og dáð að nú skuli þau sækja um aðild. Svipað kann að vera uppi hjá þessum talsmanni Kohls en þó er hans mat vafalaust af öðrum rótum runnið. Ég held að við komumst ekkert hjá því að hlusta á þessar ábendingar og þessar raddir þegar við erum að meta stöðuna í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði. Ég er þeirrar skoðunar að þetta Evrópska efnahagssvæði, eins og það er lagt upp, sé í rauninni að ganga leiðina til hálfs inn í Evrópubandalagið og vegna þess að ég er andvígur því að leiðin liggi þangað, okkar framtíð liggi inn í það stóra bandalag, af þeim sökum er ég mjög mótfallinn því að við göngum til verka, eins og hér hefur verið að

stefnt, á mjög skjótan hátt, að lítt yfirveguðu ráði, að reyna að tjasla saman samningum um þetta Evrópska efnahagssvæði og gerast þar með aðilar að innri markaði Evrópubandalagsins.
    Ég held að Ísland eigi að leita annarra leiða. En ótrúlega margt er borið fram þessu til réttlætingar. Það er ekki bara vonin um það núna að við náum tollalækkunum á okkar sjávarafurðum, sem er nú það haldreipi sem hæstv. utanrrh. vísar til öðru fremur, heldur er vísað til annarra mála, ekki efnahagslegra heldur á öðrum sviðum, sviðum félagsmála og menningarmála, umhverfismála, til hinna svokölluðu jaðarmálefna sem eigi að færa okkur mikinn hag ef við göngum inn í þetta samstarf. Þarna eru uppi hafðar verulegar blekkingar, að mínu mati. Í fyrsta lagi er það að þessi svokölluðu jaðarmálefni voru í samningafarvegi milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins eftir hina svokölluðu Lúxemborgaryfirlýsingu frá 1984 og þeim hefur sáralítið þokað fram í tengslum við viðræðurnar um Evrópskt efnahagssvæði. Það segir raunar um þetta á bls. 30 í skýrslu hæstv. ráðherra, þar sem eru talin upp sex jaðarmálefni í röð, rannsóknir og þróun, menntamál, lítil og meðalstór fyrirtæki, ferðamál, almannavarnir og Evrópa fyrir þegnana: ,,Ofangreindir málaflokkar eru ræddir í einu lagi þar sem staðan varðandi þá í samningunum er sambærileg. Hér hafa EFTA-ríkin lagt fram lista yfir þær reglur EB, sem þau telja skipta máli fyrir væntanlegt samstarf, en ekki fengið viðbrögð við þeim frá EB nema almenns eðlis.`` --- Þetta stendur í skýrslunni. Þetta er öll uppskeran sem hér er framreidd í sambandi við þessa stóru málaflokka, þessi jaðarmálefni sem voru þó í vissum farvegi í sambandi við Lúxemborgarferlið og sem búið var að semja um að nokkru leyti í vissum atriðum. Þarna er sem sagt verið að beita fyrir okkur í sambandi við þetta til þess að gera þessa aðild girnilegri.
    Hv. 1. þm. Suðurl. var að víkja að því að það væri orðinn skyldleiki í málflutningi mínum og hæstv. forsrh. Vissulega fyrirverð ég mig ekkert fyrir að vera stöku sinnum í félagsskap með hæstv. forsrh. málefnalega og gleðst sannarlega yfir þegar við eigum samleið. En það verður að halda því til haga sem rétt er í þessum efnum og okkur greinir sannarlega á um viðhorfin til Evrópsks efnahagssvæðis. Forsrh. hæstv. hefur verið meðmæltur því í reynd, þrátt fyrir yfirlýsingar sínar í Ósló og varnagla sem hann sló þar í mars 1989, að reyna að ganga til þessara samninga, að efna í þessa samninga. Og þar greinir mig á við hæstv. forsrh. Það er hins vegar mjög athyglisvert hvað framsóknarmenn, hvað þingmenn Framsfl. eru tómlátir um þessa umræðu, ekki bara núna heldur fyrr og síðar hér í þinginu. Það heyrist einna helst í hæstv. forsrh. Hæstv. sjútvrh. hefur tekið til máls um þessi efni í nokkur skipti fyrr á þinginu, en ég minnist þess vart að hafa heyrt í öðrum framsóknarmönnum um þessi mál. Og þeir láta sig t.d. að mestu vanta hér við þessa umræðu ef frá er skilinn hæstv. varaforseti Sþ., sem hefur verið hér við umræðuna án þess að blanda sér í málið. Ég sakna þessa og átta mig ekki á því hvað veldur þessari þögn þingmanna Framsfl. og

áhugaleysi um þessi efni, nema ef vera skyldi að það séu það greindar meiningar þar í flokki að menn telji sér betur henta að viðra ekki skoðanir sínar hér í þingsölum til þess að slíkur ágreiningur komi ekki fram. Ég ætla a.m.k. að vona að það stafi ekki af því að hv. þm. setja sig ekki inn í málin, svo mikilsverð sem þau eru, sem hér eru rædd.
    Ég þakka hv. 1. þm. Suðurl. fyrir þær undirtektir sem ég fékk frá honum hér varðandi þá hugmynd að um málefni yfir rétt og reglur Evrópubandalagsins, eins og þær liggja fyrir, eins og hugmyndin er að þær gangi inn í samning um Evrópskt efnahagssvæði, verði fjallað skipulega hér á Alþingi af þingnefndum undir forustu utanrmn. eða Evrópustefnunefndar eftir því sem samkomulag yrði um.
    Ég spurði hæstv. ráðherra einnig um þetta en hæstv. utanrrh. tjáði sig ekki um málið en hefur tækifæri til þess enn þá. Ég vísaði í þessu sambandi til vinnu innan finnska þingsins sl. vor en þar liggur fyrir mjög gild greinargerð sem er uppskera starfs sem unnið var undir forustu utanríkismálanefndar finnska þingsins sem lét þingnefndir fá, hverja á sínu málasviði, til meðferðar þá þætti Evrópuréttar, eða EB-réttar, sem varðaði viðkomandi þingnefnd. Nú hygg ég að þær starfi þar í einni deild, en það er alveg rétt ábending frá hv. 1. þm. Suðurl. að það væri ekki óeðlilegt að nefndir beggja deilda sameinuðust um þetta, hver á sínu sviði. Og ég vænti þess að við látum verða af þessu því að ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir þingið að fá þannig vinnu að sem flestir verði þátttakendur í að setja sig inn í þessi mál. Ég tala nú ekki um ef svo færi að menn þyrftu að taka á þessu í alvöru, þessum 1400 samþykktum sem hér eru boðaðar á yfir 10.000 blaðsíðum. Þá sakaði nú kannski ekki að menn væru sæmilega lesnir og búnir að búa sig undir það hvernig ætti með að fara hér innan þingsins. Og ég spyr hæstv. utanrrh.: Getur hann ekki hugsað sér að á málum verði tekið með þessum hætti, þannig að t.d. yrði farið kerfisbundið í gegnum bláskinnu, þessar 1038 blaðsíður sem lagðar voru hér inn á borð okkar þingmanna, en þær liggi ekki meira og minna ólesnar og óræddar hér innan þingsins.
    Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að halda sig utan við efnahagssvæði heimsins nú og í framtíðinni, að Ísland eigi að hasla sér óháðan völl sem sjálfstætt þjóðríki með tilliti til viðskiptabandalaga. Ég er þeirrar skoðunar að það feli í sér mjög marga kosti, slík er staða landsins, og marga möguleika. Það hefur verið talað um það að við alþýðubandalagsmenn og fleiri ræddum þessi mál á neikvæðum forsendum, en mörgu má nú nafn gefa. Er það að ræða málin á jákvæðum forsendum að ætla Íslandi hugsanlega að gangast undir ok Evrópubandalagsins, eins og það ólýðræðislega bandalag er uppbyggt? Gangast undir reglur þess og samþykktir? Ég held að það mætti nú kalla það neikvæða sýn til mála að ætla okkur slíkt hlutskipti. Við eigum afar marga kosti hér í norðri, í Norður-Atlantshafi, legu okkar vegna og vegna okkar auðlinda, náttúrulegu auðlinda,

sjávarauðlinda og orkuauðlinda, til þess að halda uppi góðum lífskjörum í landinu, og einnig betri möguleika til þess að hlúa að og varðveita íslenska menningu ef við ætlum okkur það metnaðarfulla hlutskipti að standa utan við hinar stóru efnahagslegu heildir og ríkjabandalög. Ég vísa í þessu samhengi til þeirra miklu breytinga sem eru að verða og eru nú ræddar innan Evrópubandalagsins sem vísar til þess að það verði fyrr en seinna sambandsríki, það verði ríkisheild með öllu sem tilheyrir, sameiginlegri utanríkisstefnu. Það mundi fara fremur lítið fyrir Íslandi sem jaðarríki, fjarri í raun miðju þessa stórríkis, í slíkri ríkisheild. Ég held að það væri okkar hagsmunum þénanlegra og vænlegra fyrir íslenska menningu að við tækjumst áfram á við það hlutverk að halda hér uppi sjálfstæðu óháðu þjóðríki.
    Ég vísa í þessu samhengi til ummæla Sigmundar Guðbjarnasonar háskólarektors, þeirrar ræðu sem hann flutti við útskrift háskólanema sl. sumar, þar sem hann einmitt vakti athygli á því hversu tvísýnt það hlutskipti væri sem Íslandi væri búið ef við gengjum inn í hina stóru heild. Ég hef því miður ekki hér fyrir framan mig ræðu háskólarektors en ég hef hér viðtal við hann og ég ætla að leyfa mér að vitna í fáein orð, með leyfi forseta. Hann segir í viðtalinu, aðspurður hvað hann segi um þá framtíðarsýn sem sumir hv. þm. hafa hér rætt sem sína hugmynd og lýst stuðningi við að látið verði á reyna, þ.e. að leita inngöngu í Evrópubandalagið fyrr en seinna: ,,Það er alltaf verið að tala um að það skorti fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf en á sama tíma er verulegur áhugi á því hjá íslenskum atvinnurekendum og auðmönnum að geta fjárfest erlendis. Við getum horft til þess að íslenskt fjármagn flytjist erlendis og erlent komi í staðinn og ég held að það fylgdu í kjölfarið býsna óþægilegar breytingar. Ég held að það væri þá annað farsælla, eins og að koma á tvíhliða samningum milli Íslands og Evrópubandalagsins. Ég óttast að með inngöngu í Evrópubandalagið þá verði ekki langt að bíða verulegrar hnignunar hér. Sagan hefur kennt okkur hverjar eru afleiðingar þess að missa sjálfræðið fyrir tímabundið hagræði.``
    Virðulegur forseti. Ég get látið þessi orð háskólarektors vera lokin á síðari ræðu minni hér við þessa umræðu, gera ummæli hans að mínum, og þau sjónarmið sem hann túlkaði í þessari ágætu hugvekju sem hann flutti stúdentum við útskrift frá Háskóla Íslands.