Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Rétt skal vera rétt og það er nauðsynlegt að koma hér á framfæri tvenns konar leiðréttingu að gefnu tilefni.
    Fyrst að því er varðar hlut hæstv. sjútvrh. varðandi tilboð um skipti á veiðiheimildum. Ég skýrði frá þessu og það var ekki nýtt vegna þess að hæstv. sjútvrh. gerði að sjálfsögðu fundargerð um þann fund og sú fundargerð hefur verið kynnt í hv. utanrmn.
    Hvað var hér á seyði? Það var þetta. Íslenska ríkisstjórnin hefur sjálfri sér samkvæmt allan tímann sagt: Við erum ekki til viðtals um að kaupa aðgang að markaði fyrir veiðiheimildir. Við föllumst ekki á kröfu sameiginlegrar fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins. Ef þið viljið ræða við okkur um fiskveiðiheimildir skulum við ræða um það á gagnkvæmnisgrundvelli, fiskveiðiheimildir fyrir fiskveiðiheimildir, tollaívilnanir fyrir tollaívilnanir. Það sem hæstv. sjútvrh. hafði umboð til og gerði var þetta: Láttu á það reyna, úr því að mennirnir tönnlast stöðugt á þessu, að segja: Um hvað eruð þið að tala, herrar mínir? Eruð þið að tala um flökkustofna? Eruð þið að tala um sameiginlega stofna? Hvað eruð þið að tala um? Eruð þið að tala um að þið séuð reiðubúnir til að láta aðrar heimildir í staðinn? Með öðrum orðum, hér voru þeir teknir á orðinu. Þeir voru spurðir: Eruð þið tilbúnir til slíkra skipta á veiðiheimildum? Og svarið er ókomið enn í dag. Ég vil því hafa þetta alveg skýrt. Sjútvrh. lét þarna á það reyna hvort bandalagið væri tilbúið til samninga að þessu leyti um sjávarútvegsmál án þess að beygja sig undir þeirra kröfur og svarið er ókomið.
    Síðan skulum við hafa í huga að Íslendingar hafa, ekki á gagnkvæmnisgrunni, heldur einhliða, veitt fiskveiðiheimildir tveimur þjóðum, Belgum og Færeyingum. Það var gert á öðrum tíma við aðrar aðstæður, það viðurkenni ég, en til þess að forðast misskilning og til þess að ekki sé tilefni til neinna brigslyrða á hendur sjútvrh. fyrir að hafa gert eitthvað sem ekki samrýmdist okkar grundvallaraðstöðu skal þetta tekið fram: Íslenska ríkisstjórnin hefur hvorki þá né síðar nokkurn tíma í öllum þessum viðræðum fallist á kröfur Evrópubandalagsins um fiskveiðiheimildir fyrir tollaívilnanir.
    Númer tvö og það er örstutt. Fríverslun með fisk, hvað merkir það? Það merkir bara eitt. Það merkir ekki bara tollfrjálsan aðgang í vöruviðskiptum, heldur líka samkvæmt samræmdum samkeppnisreglum. Með öðrum orðum, fríverslun er ekki samrýmanleg ríkisstyrkjum, niðurgreiðslum, kvótum og takmörkunum. Þess vegna var fríverslun með fisk skilgreind í EFTA - samkomulaginu, ekki bara sem aðgengi sjávarafurða fyrir Íslendinga og gagnkvæmt, heldur líka skylda Norðmanna til að fella niður ríkisstyrki. Fríverslun með fisk hefur aldrei þýtt eitt né neitt annað. Hún hefur þýtt þetta frá upphafi vega og ekkert annað.
    Hitt er svo annað mál að tollfrjáls aðgangur í vöruviðskiptum sem væri boðinn Íslendingum í samningum einhliða er ekki fríverslun með fisk, enda þýðir það líka að það eru engar skuldbindingar á hinn bóginn á móti, nefnilega það að við höfum ekki okkar rétt til, svo að ég nefni dæmi, takmarkana á útflutningi þannig að þetta er alveg aðskilið. Fríverslun með fisk er eitt, samningur um tollfrjálsan aðgang í vöruviðskiptum er annað. Það hefur alltaf verið svo og verður svo og á ekkert að túlka á annan veg.