Kennaraháskóli Íslands
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 29 frá 1988, um Kennaraháskóla Íslands.
    Frv. er flutt í þeim tilgangi að sniðnir verði af framkvæmdalegir agnúar sem hafa komið í ljós í nýlegum lögum um Kennaraháskóla Íslands sem voru sett hér vorið 1988 að því er varðar ákvæði um rektorskjör. Á þessi ákvæði reynir í fyrsta skipti við kosningu rektors Kennaraháskóla Íslands sem fram á að fara í janúar 1991.
    Um rekstorskjör er fjallað í 3. gr. laganna eins og þau eru nú. Fyrstu þrjár málsgreinarnar kveða m.a. á um kjörtímabil rektors, kjörgengi, hverjir eigi atkvæðisrétt og heimild til endurkjörs. Fjórða málsgreinin er síðan á þessa leið:
    ,,Sá er rétt kjörinn rektor sem hlotið hefur atkvæði meiri hluta atkvæðisbærra manna, enda hafi minnst tveir þriðju hlutar þeirra, sem atkvæðisrétt eiga, tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Ef enginn fær svo mörg atkvæði skal kjósa að nýju um þá tvo er flest atkvæði fengu og er þá sá rétt kjörinn sem fleiri atkvæði fær enda þótt tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra manna hafi þá ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu. Séu atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Um tilhögun rektorskjörs skal kveða nánar á í reglugerð.``
    Hér er með öðrum orðum áskilið að til að ná kjöri í fyrstu umferð þurfi atkvæði meiri hluta atkvæðisbærra manna auk ákvæðis um þátttöku a.m.k. 2 / 3 hluta sama hóps. Þetta er sama skilyrði og gilti samkvæmt reglugerð skólans frá 1974 en þess er að gæta að samkvæmt þeim lögum sem sú reglugerð studdist við, nr. 38/1971, var rektor kjörinn af mun þrengri hópi en samkvæmt nýju lögunum. Áður var rektor kosinn af skólastjórn þar sem auk rektors, fastra kennara Kennaraháskólans og skólastjóra Æfinga - og tilraunaskólans sátu einungis fáeinir fulltrúar nemenda, en nú eiga allir skrásettir nemendur atkvæðisrétt með tilteknu vægi atkvæða.
    Það virðist því mjög ströng krafa og líkleg til að gera rektorskjörið óþarflega flókið að áskilja atkvæði meiri hluta atkvæðisbærra manna til að ná kjöri. Sýnist eðlilegra að kveða á um meiri hluta greiddra atkvæða með vísun í 2. mgr. þar sem kveðið er á um vægi atkvæða. Það er og sú skipan sem samkvæmt lögum gildir í Háskóla Íslands.
    Þetta er í rauninni einfalt frv. um tæknilega leiðréttingu á lögunum um Kennaraháskóla Íslands. Ég tel ástæðulaust að fara um það frekari orðum og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn. og vænti þess að það geti fengið skjóta afgreiðslu í þessari virðulegu deild.