Æskulýðsmál
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um æskulýðsmál sem er heildarendurskoðun á æskulýðslögunum frá 1970 en í því er gert ráð fyrir ýmsum breytingum frá gildandi lögum.
    Frv. var lagt fram sem stjfrv. á síðasta þingi en náði þá ekki fullri afgreiðslu. Það er byggt á tillögum nefndar sem ég skipaði 16. des. 1988. Nefndin skilaði tillögum sínum til menntmrh. 21. des. 1989. Þessi nefnd átti einnig að skila tillögum um stefnumótun í íþróttamálum til aldamóta. Hefur hún þegar skilað tillögum um það efni og verður gerð grein fyrir þeim tillögum í einstökum atriðum opinberlega innan skamms.
    Í upphaflegum tillögum sínum gerði nefndin ráð fyrir að sérstakur æskulýðsfulltrúi ríkisins starfaði áfram. Í þessum tillögum, eins og þær líta hér út, gerir ríkisstjórnin ekki ráð fyrir að þetta embætti verði til áfram og er í frv. lagt til að embætti æskulýðsfulltrúa ríkisins verði lagt niður. Þá gerði nefndin, eins og hún skrifaði tillögurnar, ráð fyrir mörkuðum tekjustofni í æskulýðssjóð. Þeirri tillögu er í raun og veru hafnað en í staðinn er í frv. gert ráð fyrir föstu framlagi í sjóðinn úr ríkissjóði og nemi framlagið 10 millj. kr. á verðlagi janúarmánaðar 1990.
    Í stað þess kostnaðar, hins vegar, sem ríkið hefur staðið undir við embætti æskulýðsfulltrúa ríkisins er hér lagt til að ríkið veiti æskulýðssamtökunum stuðning sem svarar þeirri upphæð sem áður hefur runnið til þess að kosta embætti æskulýðsfulltrúa ríkisins. En grundvallarbreytingin á þessu frv. frá gildandi lögum, virðulegi forseti, er sú að æskulýðsfélögunum er hér ætlað útslitavald málaflokksins ásamt menntmrh. Þannig er forræðið í raun og veru fært frá ríkinu til félagasamtaka og er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar á öðrum sviðum.
    Það er gert ráð fyrir að skipting verkefna sé afmörkuð þannig að starfsemi ráðuneytisins sé að mestu leyti á vettvangi samstarfs ríkisstjórna og í samskiptum við sveitarfélög eftir því sem við á. Hafa ber í huga að verkaskiptingarlögin munu hafa veruleg áhrif hvað varðar félags - og æskulýðsstarf í sveitarfélögum yfirleitt.
    Á undanförnum árum hafa tveir meginaðilar, þ.e. Æskulýðssamband Íslands og Æskulýðsráð ríkisins einkum starfað í þessum málaflokki. Fjárveitingar til þessara aðila hafa ævinlega verið heldur lágar. Má í því sambandi nefna að á árinu 1989 var framlagið 1,3 millj. kr. til Æskulýðsráðs ríkisins og 0,5 millj. kr. til Æskulýðssambands Íslands. Það er ljóst að umrætt fjármagn nægir engan veginn til að standa undir blómlegu æskulýðsstarfi.
    Í frv. er gert ráð fyrir að til verði ein heildarsamtök æskulýðsfélaga í landinu sem gætu þá verið Æskulýðssamband Íslands eða einhver staðgengill þeirra. Í framhaldi af því er komin sú hugmynd að skapa heildarsamtökunum sameiginlega aðstöðu sem yrði eins konar miðstöð æskulýðsfélaga í landinu. Þessi miðstöð mundi þá gegna svipuðu hlutverki og Íþróttamiðstöðin í Laugardal gegnir nú fyrir íþróttahreyfinguna. Hafa ber í huga að um mun minni einingu er að ræða að því er varðar æskulýðshreyfinguna. Með þessu fyrirkomulagi fá félögin því sameiginlegan starfsvettvang og verða vonandi betur í stakk búin til að mæta auknum verkefnum og kröfum sem til þeirra verða gerðar í framtíðinni ef þetta nær fram að ganga.
    Varðandi gildandi lög um æskulýðsmál frá 1970 er í þessu frv. gert ráð fyrir að greinar eins og 5. gr. laganna, um heimild til að stofna æskulýðsnefndir eins eða fleiri sveitarfélaga, falli niður. Grein þessi hefur í raun og veru aldrei verið í gildi. Áttunda gr. gildandi laga, um sumarbúðir og útivistarsvæði, er komin í önnur lög og er einnig óþörf af þeim ástæðum og 10. gr., um stuðning bæjar - og sveitarfélaga við æskulýðsstarf, er einnig felld niður vegna þess að efni hennar er komið í önnur lög.
    Í nefndinni sem undirbjó þetta frv. áttu sæti Árni Guðmundsson, æskulýðsfulltrúi í Hafnarfirði, formaður nefndarinnar, Hermann Sigtryggsson, æskulýðsfulltrúi á Akureyri, Lovísa Einarsdóttir íþróttakennari, Hólmfríður Garðarsdóttir framkvæmdastjóri, Unnur Stefánsdóttir verkefnastjóri, Jóhanna Leópoldsdóttir skrifstofustjóri, Elís Þór Sigurðsson, íþrótta - og æskulýðsfulltrúi á Akranesi, Alfreð Gíslason sagnfræðingur og Janus Guðlaugsson námsstjóri.
    Ég tel ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara yfir frv. í einstökum atriðum hér. Með frv. er prentuð sem fylgiskjal kostnaðarumsögn Fjárlaga - og hagsýslustofnunar og vænti ég þess að málið sé þar með nægilega skýrt lagt fyrir til þess að hv. Alþingi geti tekið afstöðu til þess.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.