Æskulýðsmál
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Eiður Guðnason :
    Herra forseti. Þetta frv. kom nokkuð til umfjöllunar í hv. menntmn. þessarar deildar á síðasta þingi. Þar kom m.a. fram, a.m.k. meðal sumra þeirra nefndarmanna sem stóðu að samningu frv., að ekki liggur fyrir stuðningur þeirra við málið eins og það er hér og nú. Það kemur fram í athugasemdum við frv. að í tillögum sínum hafi nefndin gert ráð fyrir að sérstakur æskulýðsfulltrúi ríkisins starfaði áfram. Og síðan segir, með leyfi forseta: ,,Menntmrh. féllst ekki á þá tillögu og gerir tillögu um að starf æskulýðsfulltrúa verði lagt niður.``
    Þar sem ég geri ráð fyrir að þetta muni bera mjög á góma í umfjöllun nefndarinnar um málið spyr ég, og má nú vera að það hafi komið fram í ræðu hæstv. menntmrh. sem ég heyrði ekki alveg alla: Hver er ástæða þess og rökstuðningur þess að hann féllst ekki á þessa tillögu nefndarinnar og gerir frv. að þessu leyti öðruvísi úr garði en nefndin lagði til? Ég held að það mundi kannski greiða fyrir störfum í nefndinni ef það lægi alveg skýrt fyrir hvaða rökstuðningur er að baki þeirri ákvörðun ráðherra að leggja til að starf æskulýðsfulltrúa ríkisins verði lagt niður.