Lífeyrisréttindi hjóna
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég kem hér einungis til þess að lýsa yfir fyllsta stuðningi við þetta ágæta mál. Það lætur kannski lítið yfir sér við fyrstu sýn en ég hygg að flm., hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og Salome Þorkelsdóttir, hafi gert nægilega grein fyrir því. Við vitum um hvað þetta mál fjallar. Þetta er réttlætismál sem hefði auðvitað átt að vera í löggjöf Íslands fyrir lifandi löngu og ber að harma að það var ekki. Nú er þó tími til að bæta hér um. Ég tek undir orð hv. þm. Salome Þorkelsdóttur um að því beri að hraða sem allra mest gegnum þessa hv. deild og vonandi þingið allt. Það er ekki vansalaust að láta þetta liggja í láginni.
    Það er auðvitað svo að það er einmitt þetta fé sem helst af öllum fjármunum, af því að það er þó sparifé, þó lítið hafi kannski farið fyrir því í verðbólgu og dýrtíð, það er þó þetta fé sem mest nauðsyn er á fyrir makann að fá við skilnað, þann sem eftir situr, kannski með tvö börn o.s.frv., eins og hefur verið lýst. Þetta eru þó enn þá raunverulegir fjármunir en hitt aflaféð hefur mestallt hjá flestum farið í að framfleyta heimilinu meðan hjónin voru í hjúskap.