Lífeyrisréttindi hjóna
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé ástæða til þess að fulltrúar fleiri flokka en þess sem hér hafa þegar talað láti í ljós álit sitt á þessu máli. Það vill svo til að fyrir fáeinum dögum, nánar tiltekið á mánudag í síðustu viku, átti ég einmitt tal við einstakling sem hefur góð laun og er í öflugum lífeyrissjóði og hefur starfað í sínu starfi sjálfsagt í ein 30 -- 35 ár. Hann færði þetta í tal við mig og spurði hvers vegna í ósköpunum þessu hefði ekki verið breytt því að hann sagði: Ef við hjónin skildum og ég kvæntist aftur, félli síðan frá, þá ætti mín fyrri kona engan rétt sem hefur deilt með mér súru og sætu í 30 -- 35 ár. Og hann sagði: Þetta getur ekki átt að vera svona. Ég var honum alveg sammála en mundi þá ekki í svipinn að þetta mál var hér komið fram.
    Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð. Það er í rauninni óskiljanlegt að þessu skuli ekki hafa verið breytt fyrir langalöngu vegna þess að þetta getur haft í för með sér slíkt himinhrópandi ranglæti að það tekur engu tali. Þess vegna fagna ég því að breyting í þessa átt skuli hér fram komin og þykir í rauninni miður að eiga ekki frumkvæðið að þessu sjálfur. En það er auðvitað sama hvaðan gott kemur. Aðalatriðið er að þessi breyting nái fram að ganga vegna þess, og ég endurtek það, að þetta er sannarlega mikið réttlætismál. Það má kannski gera athugasemdir við orðalag hér, en það er ekki mergurinn málsins. Mergurinn málsins er sá að sú hugsun sem í þessu felst nái fram að ganga. Ég fæ ekki séð að það geti verið neinir annmarkar, tæknilegir eða af öðrum toga, sem komi í veg fyrir að þetta mál fái fljóta og greiða afgreiðslu í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar og í þessari hv. deild. Ég mun a.m.k. beita mér fyrir því að svo geti orðið.