Lífeyrisréttindi hjóna
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er komið fram er raunverulega málefni sem ég var að ýja að um daginn þegar hv. 4. þm. Reykn. misskildi hvað ég var að tala um. Það var einmitt þetta mál sem ég var að benda á að væri réttlætismál sem þyrfti að gæta vandlega að.
    Eigi að síður er það svo að allt orkar tvímælis, líka þetta. Það getur nefnilega komið upp sú staða að hjón hafi búið saman í langan aldur og skilið og svo hafi eiginmaðurinn gifst aftur, fyrri kona hans dáið og síðan deyr maðurinn og þá stendur seinni konan, sem hugsanlega er líka gömul og þreytt kona, með afskaplega skertan hlut. Þar af leiðandi álít ég að sú nefnd sem tekur þetta mál fyrir þurfi að fjalla mjög vandlega um þetta og sjá út hvernig hún getur séð við slíkum lekum sem þessum. Þannig er með fleiri hliðar þessa máls. En í heild lít ég svo á að það sé mesta réttlætismál að sú sem hefur deilt kjörum með þeim sem réttindi hlaut eigi að ganga að þeim eftir sem áður eftir skilnað. En svona geta málin verið snúin.
    Ég vildi bara benda á að þarna gæti lífeyrisréttur manns orðið að engu eða fast að því.