Lífeyrisréttindi hjóna
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Þetta mál kom fyrir á síðasta þingi og fékk nokkra umræðu í hv. fjh. - og viðskn. Ég man eftir því að ég hafði nokkrar efasemdir um hvort það væri rétt að hafa sérstök lög um þetta atriði.
Ekki það að ég væri ósammála hugmyndinni, mér finnst hugmyndin mjög góð, en þannig er að í lögum frá 1922 um fjármál hjóna, að mig minnir í 2. mgr. 17. gr., er einmitt fjallað um óljós réttindi sem eiga að skiptast á milli við skilnað. Ég man eftir dómi sem gekk um þetta atriði. Það var þegar kona skildi við flugmann nokkurn og ágreiningur kom upp um hvernig ætti að skipta lífeyrissjóðsgreiðslum en flugmenn greiða miklu hærri lífeyri en almennir launþegar. Og þá minnir mig að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið eitthvað á þá leið að það sem var greitt aukalega skiptist á milli hjónanna en það sem félli undir almennu ákvæðin væri réttur eiginmannsins.
    Ég mælist til þess þegar þetta mál kemur fyrir í hv. fjh.- og viðskn. að við skoðum mjög gaumgæfilega lögin um fjármál hjóna og athugum hvort það væri ekki rétt að færa þetta þar undir frekar en að setja í sérstök lög. En ég lýsi þeirri skoðun minni að ég er hjartanlega sammála þeirri hugsun sem hér kemur fram og raunar finnst mér að þetta atriði hefði átt að koma miklu fyrr í lög, eins og fleiri ræðumenn hafa talað um hér. En þetta er það sem ég staðnæmist við út af því að það verður eiginlega, að mínu viti, að hafa allt í sömu lögunum, þegar um skilnað er að ræða, þannig að það væri hægt að taka þetta allt inn í skilnaðaruppgjör á milli hjóna.