Lífeyrisréttindi hjóna
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið undir efni þessa frv. þó að það komi að vísu fram hjá einstaka þingmönnum að hugsanlegt sé að gera þetta í gegnum aðra lagasetningu, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Ágústssyni og hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur.
    Það er auðvitað alveg rétt að það sem skiptir hér höfuðmáli er það að efnisatriði þessa frv. komist í höfn með þeim hætti að því réttlæti verði fullnægt sem við leitum eftir í þessu máli. Ég hef af fyrir sig ekkert við það að athuga. Hins vegar hlýt ég að leggja áherslu á að ekki verði farið að gera þessi mál flóknari af tæknilegum ástæðum í meðferð þingsins því það er mjög brýnt að lög sem þessi verði samþykkt sem fyrst. Því miður eru hjónaskilnaðir orðnir mjög tíðir á Íslandi eins og víða annars staðar í hinum vestræna heimi þannig að þetta er að verða mjög alvarlegt vandamál, sérstaklega fyrir þær eiginkonur sem ekki hafa getað starfað úti á hinum almenna vinnumarkaði og öðlast þar einhver lífeyrisréttindi en hafa hins vegar þurft að sinna sínum heimilum á besta tíma síns æviskeiðs. Síðan standa þær frammi fyrir því, komnar á efri ár, eftir að eiginmaðurinn hefur öðlast sín réttindi eftir 30 -- 40 ára starf úti í atvinnulífi eða annars staðar, þá er það orðið of algengt að þeir yfirgefi eiginkonur, skilji við þær og skilji þær einnig eftir réttindalausar. Við vitum allir hv. þm. hversu illa er búið að þeim sem ekki hafa öðlast lífeyrisréttindi í gegnum almannatryggingakerfið þannig að það er ekkert ofmælt þótt sagt sé að það verði að skipta upp þessum rétti milli hjóna.
    Hv. þm. Eiður Guðnason, 3. þm. Vesturl., tók undir og studdi þetta frv. en varpaði fram þeirri hugmynd, eða réttara sagt lét í ljósi þá skoðun, hvort það væri hugsanlegt að það væru einhverjir annmarkar á því að koma þessu í framkvæmd. Það vill svo til að ég er í stjórn eins lífeyrissjóðs sem er mjög fjölmennur og mál þessa eðlis sem hér um ræðir kom upp fyrir rúmu ári. Þótt ekki sé gert ráð fyrir því í reglugerð lífeyrissjóða núna þá er það tæknilega framkvæmanlegt að fylgja þeirri meginreglu sem kemur fram í þessu frv. í lífeyrissjóðunum. Það er ekkert í lögum sem bannar það, ef það er samkomulag milli hjóna sem skilja, að sá háttur skuli viðhafður að skipta þessum réttindum milli þeirra. Það er ekkert í íslenskum lögum sem bannar það né í reglugerðum sjóðanna. Það var þannig að þegar Lífeyrissjóður verslunarmanna stóð frammi fyrir þessu máli fyrir rúmu ári, þá var fjallað um það á þeim grundvelli að eiginmaður í þessu tilviki óskaði eftir því að sú kona sem hann hafði verið kvæntur í tæplega 30 ár öðlaðist helminginn af sínum réttindum. Það var samþykkt í stjórn þessa lífeyrissjóðs og fjmrn., sem fjallar um málefni sjóðanna, gerði ekki athugasemd við það. Þannig að þetta er mjög framkvæmanlegt, eins og nú háttar í dag, ef báðir aðilar eru sammála og stjórnir sjóðanna fallast á þetta. Hins vegar er rétturinn ekki skýr og það hafa komið upp mál, t.d. í sambandi við

skilnað opinbers embættismanns þar sem eiginkona fór fram á það að hún öðlaðist hlut af réttindum hans. Því máli var vísað frá af hálfu hins opinbera, þ.e. í þessu tilviki dómsmrn. Þess vegna er það að við flytjum þetta frv., við viljum fá þetta ótvírætt inn í íslenska löggjöf að konan njóti þessa sama réttar.
    Hv. þm. Guðrún Halldórsdóttir drap á það að við það að maður, sem hefði langa starfsævi að baki, kvæntist að nýju mundi ný eiginkona öðlast minni réttindi. Ef við gefum okkur það, til að einfalda málið, að hér gæti verið um að ræða 55 eða 60 ára gamlan mann með mikil opinber lífeyrisréttindi og hann skildi við konu sem hann var búinn að búa með í 30 -- 35 ár, giftist síðan annarri yngri, þá hlýtur sú kona náttúrlega að gera sér grein fyrir því að hún getur ekki gengið inn í eignarbú þeirra hjóna með sama hætti eins og sú sem fyrir var. Þannig að mér finnst það ekki óeðlilegt að hin nýja eiginkona yrði að sætta sig við það að hennar lífeyrisréttindi yrðu þá eitthvað minni, eins og nú háttar til.
    Ég held að við megum ekki líta þannig á að sá sem hefur skilað góðri starfsævi, hvort sem það er eiginkona eða aðrir, eigi að vera í víkjandi stöðu fyrir því sem er, ég vil segja öðruvísi og kannski afbrigðilegt miðað við þær siðvenjur og réttindi sem við höfum viljað tryggja fólki almennt í gegnum ævina.
    Ég lít þannig á að lífeyrisréttindi séu nákvæmlega eins eignamyndandi réttindi og það þegar hjón í sameiningu eignast hús, búslóð, sparifé o.s.frv. Og við skilnað þá skiptist það jafnt milli hjóna. Sama á að sjálfsögðu að gilda um þau réttindi eða þá fjármuni sem hjónin eða makinn hefur lagt inn í lífeyrissjóð.
    Ég legg áherslu á það að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi. Þetta er réttlætismál, þetta er mannréttindamál og því miður hefði þetta mál átt að vera komið fram hér á hinu háa Alþingi fyrir löngu síðan. Ég vil því, virðulegi forseti, leggja áherslu á að frv. fái skjóta afgreiðslu hér í Ed. jafnframt því sem ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið undir það að þetta réttlætismál nái fram að ganga.