Lífeyrisréttindi hjóna
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Unnar Þór Böðvarsson :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni að mér sýnist réttlætismál og ég vil lýsa yfir að ég hlýt að styðja það. Ég hefði gjarnan viljað geta lýst því yfir fyrir minn flokk, Alþb., að það styddi þetta en þar sem þetta mál hefur ekki verið rætt að mér áheyrandi í þeim þingflokki þá get ég að sjálfsögðu ekkert þar um sagt, en ólíklegt þykir mér annað en það fái brautargengi þar.
    Ég vil bara segja að ég held að við verðum að treysta þeirri nefnd sem um þetta fjallar til þess að laga þetta frv., ef þar er eitthvað sem stangast á við réttlæti, það réttlæti sem flm. ætlast greinilega til að náist með þessari lagasetningu. Ég held að það væri sóun á tíma okkar hér að vera að ræða það mikið lengur, ég vil einungis að þarna náist hin fyllstu réttindi, hvort sem það er fyrir mann eða konu, aftur á bak eða áfram, eiginlega hvernig sem málið snýst.