Fóstureyðingar
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Flm. (Hulda Jensdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ljóst er að frv. það til laga sem nú er tekið fyrir á hinu háa Alþingi Íslendinga er vandmeðfarið,
og að mati einhverra óþarft. Að ég legg frv. þetta fram byggist að sjálfsögðu á þeirri skoðun minni, og margra annarra, að núverandi fóstureyðingalöggjöf sé alls óviðunandi og þurfi leiðréttingar hið fyrsta.
    Frv. sem hér liggur fyrir er lagt fram vegna þess samfélags sem við störfum fyrir, tilheyrum og erum hluti af, vegna barnanna sem hafa rétt til lífs, og síðast en ekki síst vegna þeirra kvenna sem hlut eiga að máli. Frjálsar fóstureyðingar hvetja til fóstureyðinga. Frjálsar fóstureyðingar útiloka þörf fyrir fræðslu varðandi málið. Frjálsar fóstureyðingar leiða til ábyrgðarleysis. Frjálsar fóstureyðingar leiða til þrýstings sem skapar glundroða og leiðir til ákvarðanatöku undir óeðlilegum kringumstæðum. Allt of margar konur sem eiga í tímabundnum erfiðleikum vegna jákvæðs þungunarprófs verða fyrir utanaðkomandi þrýstingi. Að auki er tíminn sem þær hafa til umráða mjög naumur, auk þess að vera sá tími meðgöngunnar sem mörgum konum er erfiður vegna þeirra margvíslegu breytinga sem eiga sér stað í líkamskerfi þeirra, bæði andlega og líkamlega. Það tímaskeið sem hér um ræðir er því afar óheppilegt til stórra ákvarðana. Þess vegna því miður, oft áður en varir, er skaðinn skeður og ekki aftur snúið.
    Þeir sem mest hvöttu til fóstureyðingar sem allsherjarlausnar hverfa oftast út úr myndinni eftir að aðgerðin er afstaðin, firrtir allri ábyrgð. Þegar upp er staðið er það konan sem skrifar undir beiðnina og konan sem ber ábyrgðina. Ein stendur hún oftast og óstudd, án þeirrar aðstoðar og þess stuðnings sem hverri konu er nauðsyn eftir aðgerðina fóstureyðing. Konur sem hugleiða fóstureyðingu, konur sem fara í fóstureyðingu njóta ekki þeirrar þjónustu sem er þeim nauðsyn. Sú þjónusta er ekki til í velferðarheilbrigðiskerfinu á Íslandi. Þær standa oftast einar, eins og áður segir, óstuddar, hvernig sem þeim líður. Væri ekki farsælla að þær 17 -- 19 millj. sem fóstureyðingar kosta íslenska skattborgara ár hvert væru notaðar konum til hjálpar og börnum til lífs?
    Það er vitað og um það til skýrslur að margar konur sem töldu, áður en þær fóru í aðgerðina fóstureyðing, að hún væri lítið mál hafi eftir á liðið ómældar þjáningar sem jafnvel hafa ekki komið fram fyrr en löngu síðar og þá leitt til alvarlegs heilsubrests. Þess vegna þarf sterka samfélagshjálp til þess að hjálpa og sterkt forvarnarstarf til að fyrirbyggja að fóstureyðing eigi sér stað nema gildar forsendur séu fyrir hendi. Að sjálfsögðu eru til réttlætanlegar forsendur fyrir aðgerðinni sem þá um leið fyrirbyggja þá þjáningu sem handahófskennd, óígrunduð fóstureyðing veldur flestöllum konum.
    Hvernig sem við veltum þessu máli eða snúum því förum við ávallt og ævinlega í hring, komum aftur til upphafsins, þ.e. það getur aldrei orðið neitt annað en óbætanlegt tjón fyrir konuna og fyrir samfélagið allt

þegar fóstureyðing á sér stað af svokölluðum félagslegum ástæðum, enda ófagur blettur á velferðarsamfélagi sem skilar slíkum þjóðartekjum sem raun ber vitni. Félagsleg vandamál á að leysa með félagslegum úrbótum.
    Allt snýst þetta afdrifaríka mál um líf sem kviknaði í móðurlífi, móðurlífi sem ekki var tilbúið til að veita því skjól, umvefja það og umlykja það tímabundið. Hvers á þetta líf að gjalda? Húsaskjólið kom af frjálsum og fúsum vilja í hita stundarinnar. Hvers á það að gjalda að því sé úthýst að ósekju? Og hvaða líf er það sem hér er til umfjöllunar? Það er mannlegt líf og getur aldrei orðið neitt annað en mannlíf hvernig sem á það er litið.
    Menn deila hart um það hvenær þetta líf á rétt á að kallast mannlíf, en sú deila mun aldrei taka enda því að hún byggist á skoðunum, alls ekki á staðreyndum. Hins vegar getur enginn neitað því, hvaða skoðanir sem hann hefur, að staðreyndir byggðar á óhrekjanlegum mælingum sýna, svo að ekki verður um villst, að hjarta þess lífs sem þarna hefur tekið sér bústað og farið er að slá eftir þrjár vikur er hjarta manns. Um 7það er ekki deilt. En um hvað snýst þá deilan? Um staðreyndir, um raunveruleika? Nei, alls ekki. Deilan snýst um að óskhyggjan sé viðurkennd sem raunveruleiki, sem staðreynd. Að eiga sína óskhyggju er hluti af lífsframvindunni og ekkert rangt við það nema þegar sú óskhyggja skaðar einhvern annan. Fyrir mér liggur sú staðreynd ljós fyrir sem dagurinn í dag, að óskhyggjan sem hér um ræðir er til komin til þess að firra sig ábyrgð. Ekki óþekkt fyrirbæri, en hér bitnar óskhyggjan á lífinu og þá er hún til skaða og því réttlaus.
    Hvort sem okkur líkar það betur eða verr verður aldrei hjá því komist að lífið sem kviknaði í móðurlífi er manneskja þótt lítil sé og óumdeilanlega varnarlaus. Hún er ekki aðeins varnarlaus fyrstu mánuði sína í móðurlífi. Hún er háð vernd alla meðgönguna svo að hún megi halda lífi. Hið sama gildir þegar þetta líf fullburða, sem hraust og heilbrigt barn, fæðist og grætur við hingaðkomu sína. Það er enn og áfram að fullu og öllu háð vernd og umvefjandi kærleik. Annars getur það ekki lifað.
    Hjarta þess lífs sem hér um ræðir er farið að slá eftir þrjár vikur. Eftir 8 -- 10 vikur er það að öllu leyti eins og við, ekkert bætist þar við nema meiri stærð og meiri þroski. Frá samruna þess eggs og þeirrar frumu sem varð upphaf okkar, ykkar hv. þm., og mitt, voru séreinkenni okkar til staðar, kyn, augnlitur, háralitur með meiru. Aldrei fæðist nein manneskja eins. Við erum öll ólík, við erum einstök, við erum sérstök. Okkur er öllum ætlað verk að vinna. Við samruna eggs og frumu er skráð lífssaga manns, og eins og ég leyfi mér stundum að segja: Hver erum við að hindra þá sögu, eða öllu heldur stöðva þá sögu, að hún fái farsælan endi?
    Virðulegi forseti. Ástæða er í þessu sambandi til að ýja að þeirri staðreynd að íslensku samfélagi er hætta búin ef fram fer sem hingað til. Að vísu hafa þeir ánægjulegu hlutir gerst að fæðingar hafa aukist lítillega og fóstureyðingum fækkað lítillega, hvort tveggja af hinu góða og sannarlega ánægjuleg tíðindi. Annars blasir sú mynd við, að öllu óbreyttu, að fólk sem nú er á miðjum aldri eða yngra fái ekki brot af þeirri þjónustu sem nú þykir sjálfsögð. Íslenska þjóðarskútan mun ekki haldast á floti ef ekki verður spyrnt við fæti og því síður möguleiki að gera hana út nema með stórfelldum innflutningi vinnuafls, þ.e. að setja á hana erlenda áhöfn. Hvað verður þá um íslenskt þjóðarstolt?
    Að öðru leyti vísa ég til þess annars sem segir í frv. því sem hér er til umræðu. Um þá valkosti sem fyrir eru og ber að nýta betur en nú er gert, enda ekki óskað eftir þeim á meðan fóstureyðingar eru nánast frjálsar. Ég vil, með leyfi virðulegs forseta, vekja athygli hv. þm. á þeirri staðreynd að fullkomið virðingarleysi er viðhaft gagnvart þeim sem minna mega sín með núverandi fóstureyðingalöggjöf. Þessu er skylt að breyta, annað er ekki við hæfi.
    Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða, en trú mín er eigi að síður sú að giftusamlega muni til takast, að hv. Alþingi Íslendinga, þingheimur og Íslendingar allir muni taka höndum saman, skoða málið óhlutdrægt í dýptina og komast að þeirri niðurstöðu að farsælla sé að veðja á lífið svo sem kostur er. Frá því verður að vísu aldrei komist að alltaf verða undantekningar sem verður að taka tillit til, enda skilmerkilega tilgreint í frv. því sem hér um ræðir. Okkar er að liðsinna þeim sem í erfiðleikum eiga um lengri eða skemmri tíma. Sú leið ein er við hæfi. Sú leið ein er til farsældar fyrir einstaklinginn, fyrir heildina, fyrir þjóðarbúið allt.
    Að þessu sögðu hlýtur að liggja ljóst fyrir að lög þessi höfða til lífsins að fullu og öllu. Þau höfða einnig til mannúðar og til mildi og til þess að öllum, ungum sem öldnum, sé gerð grein fyrir hvað lífið er í raun, að lífið er ekki eitthvað sem má leika sér með samkvæmt geðþóttatilfinningum heldur er skylda hvers og eins að fara um það höndum ábyrgðar, þar sem virðingin fyrir því helgasta sem lífið gefur er í fyrirrúmi. Ef þessa er gætt, og það dregið fram, í uppeldishlutverkum heimila og skóla er það og verður getnaðarvörnin hin allra besta til viðbótar þeirri sjálfsögðu fræðslu sem frv. þetta leggur megináherslu á að verði að veruleika í skólakerfi landsins.
    Ég þakka áheyrnina.