Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990. Það er annað frv. sem flutt er á þessu ári til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár. Frv. er þess vegna enn frekari staðfesting á þeirri nýskipan í ríkisfjármálum sem hófst hér á síðasta þingi eftir 70 ára hlé, að flytja á gildisári fjárlaga fjáraukalagafrumvörp til breytingar á gildandi fjárlögum.
    Fyrra frv., sem afgreitt var á vorþingi fyrir árið 1990, var flutt í kjölfar kjarasamninganna milli aðila vinnumarkaðarins annars vegar og ríkisins og BSRB hins vegar til að afla nauðsynlegra heimilda til breytinga á útgjöldum ríkissjóðs vegna kjarasamninganna.
    Eins og hv. þingmönnum er kunnugt höfðu, fram til haustþingsins 1989, í u.þ.b. 70 ár, fjáraukalög verið lögð fram eftir að fjárlagaárinu var lokið, oftast nokkrum árum síðar, til staðfestingar á útgreiðslum úr ríkissjóði umfram fjárlög. Það var auðvitað ljóst að sú skipan mála veitti alls ekki nauðsynlegt aðhald í ríkisfjármálum, né heldur veitti Alþingi þann nauðsynlega rétt að geta haft áhrif á og tekið ákvarðanir um ríkisútgjöldin á yfirstandandi ári. Sá nýi háttur sem núv. ríkisstjórn beitti sér fyrir, að flytja fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár, hafði það að meginmarkmiði að koma á festu í ríkisfjármálunum og hindra að veittar væru aukafjárveitingar í hinum gamla stíl þess heitis án heimildar Alþingis. Ég held að hægt sé að fullyrða að á því ári sem nú er að líða hafi ekki verið teknar af hálfu fjmrh. ákvarðanir um sérstakar aukafjárveitingar í þeim stíl sem áður var gert umfram þær heimildir sem voru í gildandi fjárlögum.
    Í því frv. sem ég mæli hér fyrir er sótt um heimildir sem nauðsynlegar eru taldar vegna skuldbindinga ríkissjóðs, vegna samþykkta Alþingis og vegna verkefna sem áhersla er lögð á að ljúka á þessu ári. Jafnframt er leitað heimilda til fjárgreiðslna vegna rekstrarvandamála nokkurra stofnana. Þetta er gert til þess að í endanlegu uppgjöri ríkissjóðs fyrir árið 1990 þurfi ekki að sækja um umtalsverðar heimildir til uppgjörs á rekstri ársins. Við endanlegt uppgjör fyrir árið 1990 er stefnt að því að umframgreiðslur á þessu ári komi til frádráttar heimildum í fjárlögum á næsta ári.
    Samkvæmt upphaflegum fjárlögum fyrir árið 1990 var gert ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs yrði 3,7 milljarðar kr. Eins og kynnt var í fjáraukalögum á sl. vetri höfðu kjarasamningar áhrif á afkomu ríkissjóðs með tvennum hætti. Annars vegar ákváðu stjórnvöld að beita sér fyrir sérstökum aðgerðum í ríkisfjármálum til að greiða fyrir gerð kjarasamninganna. Fólst það í hvoru tveggja í senn, lægri sköttum og auknum ríkisútgjöldum. Hins vegar breyttust verðlagsforsendur fjárlaga til lækkunar. Sú lækkun kom fyrr fram á tekjum ríkissjóðs en á gjaldahlið og hafði þannig neikvæð áhrif á rekstrarafkomu ríkissjóðs. Til að vega upp á móti þessu voru útgjöld lækkuð. Í heild leiddu fjáraukalögin til um 850 millj. kr. aukningar á rekstrarhalla ríkissjóðs sem ætlað var að yrði rúmir 4,5 milljarðar kr. Gert var ráð fyrir að þessi halli yrði að fullu fjármagnaður innan lands og eru allar horfur á

því og reyndar vissa nú að því markmiði verði náð.
    Afkomuhorfur ríkissjóðs í lok árs hafa verið endurmetnar og er nú reiknað með að hallinn verði 4 milljarðar 960 millj. kr. og er það um 400 millj. kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í maí. Nokkur frávik verða bæði á tekna- og gjaldahlið. Þannig má áætla að tekjur verði 92,6 milljarðar kr. í stað 88,9 milljarða kr. í fjáraukalögum. Heildargjöld stefna hins vegar í 97,5 milljarða í stað 93,5 milljarða kr. í fjáraukalögum. Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs var í fjáraukalögum áætluð 4,1 milljarður kr. en er nú samkvæmt endurskoðaðri áætlun metin á 6,2 milljarða kr.
    Að frátöldum auknum rekstrarhalla ríkissjóðs má einkum rekja aukna lánsfjárþörf ríkissjóðs til meiri lánveitinga til sveitarfélaga og B - hluta fyrirtækja. Heimild til þessarar lántöku er í lánsfjárlögum og hefur verið ákveðið að ríkissjóður afli umræddra lána og endurláni til fyrirtækjanna í stað þess að þau taki lánin beint þar sem það þykir hagkvæmara.
    Ef vikið er að tekjum er allt útlit fyrir að heildarinnheimtan verði talsvert meiri á þessu ári en áður var áætlað eða kringum 92,6 milljarðar kr. Þetta eru um 3,6 millj. kr. hærri tekjur en reiknað var með í fyrri áætlun og nemur aukningin rúmum 4%. Þessi aukning skýrist einkum af tvennu. Annars vegar skilaði álagning opinberra gjalda fyrir gjaldaárið 1990 meiri tekjum en gert hafði verið ráð fyrir. Munaði þar mestu um tekjuskatt fyrirtækja og félaga sem skýrist væntanlega af betri afkomu þeirra á árinu 1989 en áður var talið. Þá hefur hert innheimta á eldri skuldum skilað ríkissjóði talsverðum viðbótartekjum, einkum á fyrri helmingi ársins. Er þetta m.a. vegna þess að upptaka virðisaukaskatts hefur ýtt undir uppgjör á ógreiddum sköttum, bæði tekju - og eignarsköttum og launatengdum gjöldum, en fyrirtæki fá ekki virðisaukaskatt af aðföngum sínum endurgreiddan nema þau séu skuldlaus við ríkissjóð. Það er því ánægjulegt að geta fagnað því hér að þessar tvíþættu aðgerðir til þess að bæta skattinnheimtu ríkissjóðs og stuðla að betra siðferði í þeim efnum, annars vegar hinar sérstöku innheimtuaðgerðir sem farnar hafa verið að tilhlutan fjmrn. og hins vegar sú skattkerfisbreyting sem fólst í virðisaukaskattinum, hafa hvorar tveggju skilað mun betri tekjum en áður var og er það ánægjulegt að skattkerfið skuli vera orðið skilvirkara með þessum hætti.
    Af öðrum frávikum á tekjuhlið má nefna að innheimta virðisaukaskatts varð heldur meiri á fyrri hluta árs en búist var við. Sú viðbót kemur nær eingöngu fram í meiri tekjum af innflutningi. Á móti auknum virðisaukaskatti af innflutningi vegur síðan tvennt. Annars vegar að niðurfellingu virðisaukaskatts af íslenskum bókum var flýtt fram til 1. sept. og hins vegar að ákveðið hefur verið að veita áfram gjaldfrest í tolli. Að þessu samanlögðu er nú reiknað með að innheimtar tekjur ríkissjóðs í heild af virðisaukaskatti verði 600 millj. kr. meiri á þessu ári en áður var talið. Er það athyglisverð staðreynd í ljósi þess að fjölmargir spáðu því að virðisaukaskatturinn mundi skila mörgum milljörðum meira en áætlað var í fjárlögum fyrir árið.
    Þá er búist við að tekjur af innflutningsgjöldum verði nokkru meiri í ár en áætlað var. Þar á jöfnunargjaldið stærstan hlut að máli vegna þess að það hefur staðið lengur en gert var ráð fyrir í upphafi. Hins vegar verður innan tíðar lagt fyrir þingið frv. um niðurfellingu jöfnunargjaldsins í áföngum á næsta ári, þannig að Alþingi getur fyrir áramót afgreitt það frv. og þar með ákveðið skýrt hver endalok jöfnunargjaldsins verða.
    Á móti þessum tekjum af jöfnunargjaldinu á árinu 1990 vega þær skattbreytingar sem stjórnvöld ákváðu í júlímánuði og aftur nú nýverið með lækkun tolla á bensíni til að halda aftur af verðlagshækkun. Er ljóst að ríkissjóður hefur látið af nokkrum tekjum til þess að stuðla að framgangi þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í febrúarmánuði, og er það eitt af mörgu sem gert hefur verið af hálfu ríkissjóðs og ríkisstjórnarinnar til þess að stuðla að því að þjóðarsáttin svokallaða skili jákvæðri niðurstöðu.
    Ef vikið er að útgjöldunum voru samkvæmt fjáraukalögunum sem samþykkt voru hér í vor útgjöld ríkissjóðs áætluð 93,5 milljarðar kr. Útgjaldahorfur til loka árs hafa nú verið endurmetnar og er niðurstaðan að útgjöld ríkissjóðs munu verða um 4 milljörðum kr. hærri. Er athyglisvert að u.þ.b. helmingur þeirrar upphæðar er vegna þriggja til fjögurra útgjaldaliða. Bendir sú staðreynd eindregið til þess að hvað ríkisútgjöldin í heild snertir hafi tekist að halda þeim í böndum. Rekstur stofnana ríkisins er, sem betur fer, almennt í böndum á þessu ári og framkvæmd fjárlaganna hefur gengið mjög vel og má þakka það bæði stöðugra verðlagi og þeim bættu vinnubrögðum við áætlanagerð og eftirlit með framkvæmd fjárlaga sem tekin hafa verið upp á síðustu missirum. Má í því sambandi vekja athygli á því að árið 1987 og 1988 voru á þessum árstíma bæði árin komin umtalsverð viðbótarútgjöld í rekstri ríkissjóðs, stöður og önnur rekstrarútgjöld langt umfram það sem áætlað hafði verið í fjárlögum. Það hefur tekist með bættum vinnubrögðum að taka alveg fyrir slíkt þannig að í heild sinni, ef litið er yfir hinn mikla fjölda ríkisstofnana, hefur gengið mjög vel að halda útgjöldum þeirra innan ramma fjárlaganna.
    Að meginhluta á sú útgjaldaaukning sem í þessu frv. felst, 4 milljarðar, rætur að rekja til nokkurra afmarkaðra þátta eins og ég gat um áðan. Fimm þættirnir hafa í för með sér útgjöld sem nema 2,4 milljörðum kr. eða í kringum 60% af þeirri upphæð sem hér um ræðir. Þar vega langþyngst aukin útgjöld til heilbrigðis - og tryggingamála, þar á meðal lyfjakostnaður sem er sá útgjaldaliður ríkisins sem mest hefur farið fram úr því sem áformað var í fjárlögum. Þessi liður, heilbrigðis - og tryggingamál, nemur samtals 1 milljarði 260 millj. kr., eða rúmum fjórðungi af allri upphæðinni.
    Kostnaður ríkisins vegna verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga sem þingið samþykkti hér á sínum tíma hefur í heild reynst miklu meiri en ætlað var, og er satt að segja nauðsynlegt að ráðuneytin fari í samvinnu við sveitarfélögin mjög ítarlega yfir það hvernig kostnaðarskiptingin af verkaskiptingunni hefur verið í reynd því ljóst er að veruleikinn hefur skilað ríkissjóði miklu stærri útgjaldaböggum á þessu sviði en flestir kunnáttumenn reiknuðu með og mun meiri en gert var ráð fyrir í þeim gögnum sem lögð voru fyrir þingið hér á sínum tíma. Rekja má um 280 millj. kr. af útgjaldaauka ríkisins til þessa viðbótarkostnaðar enn á ný við flutning verkefna frá sveitarfélögunum sem felur þess vegna í sér að sama skapi útgjaldaminnkun hjá sveitarfélögunum.
    Þau útgjöld sem leiðir beint af samþykktum Alþingis nema 320 millj. kr. Þar eru vegamálin þyngst á metum, einkum aukinn kostnaður vegna snjómoksturs í tengslum við þau erfiðu veður sem voru hér í fyrravetur.
    Í fjórða lagi er ákveðið að fé til Endurbótasjóðs menningarstofnana, sem upphaflega var reiknað með að yrði tekið að láni, verði greitt sem framlag úr ríkissjóði. Greiðslustaða ríkissjóðs breytist ekki við þetta en 300 millj. kr. eru nú bókaðar sem útgjöld í stað lánveitingar áður.
    Um 280 millj. kr. eru vegna hallareksturs ríkisstofnana frá fyrra ári, þ.e. 1989, og koma til greiðslu á þessu ári. Þar, samkvæmt venju, skipta sjúkrahúsin og aðrar heilbrigðisstofnanir mestu. Ef þessari upphæð er bætt við hina fyrstu sem ég rakti hér, aukin útgjöld til heilbrigðis - og tryggingamála, er ljóst að í kringum 1,5 milljarðar af þessum 4 milljörðum eru viðbótarútgjöld vegna heilbrigðis - og tryggingamála. Er það verðugt umhugsunarefni fyrir þingheim þar sem miklar kröfur eru í þjóðfélaginu og á þingi um aukna þjónustu við sjúka og aldraða á öllum sviðum heilsugæslu og læknisþjónustunnar að sífellt verður kostnaðurinn við þessi verkefni stærri og stærri og mun reynast mjög erfitt á næstu árum að glíma við þann útgjaldaauka og mæta þeim kröfum um bætta þjónustu sem uppi eru í heilbrigðiskerfinu öllu innan núverandi ramma ríkisfjármálanna. Það verður þess vegna eitt af stærri verkefnum næstu ára að vega það og meta hvað mikið fjármagn á að fara til heilbrigðiskerfisins og tryggingakerfisins í heild.
    Auk þeirra þátta sem ég hef hér nefnt má geta sérstaklega aukinna útgjalda við rekstur skóla, einkum framhaldsskóla, vegna fjölgunar nemenda og nýrra rekstrarhátta, samtals um 150 millj. kr., aukins kostnaðar við skýrslu - , vinnslu - og tölvumál í skattkerfinu í kjölfar kerfisbreytinganna, sem reyndust mun dýrari og umfangsmeiri í tölvuvinnslu en áður var ætlað, eða alls um 220 millj. kr., og aukins rekstrarkostnaðar í dómskerfinu af ýmsum ástæðum en þó einkum vegna umfangsmikils málarekstrar í einstökum málum og ber þar kannski hæst Hafskipsmálið.
    Til að ljúka uppgjöri endurgreiðslu á söluskatti til atvinnuveganna er hér lagt til að 200 millj. kr. verði veittar til viðbótar í þennan lið. Þessi liður hefur verið einn af óvissuliðunum við fjárlagagerð en kemur nú til kasta þingsins í síðasta sinn vegna upptöku virðisaukaskattsins um síðustu áramót.
    Ýmis önnur útgjöld sem nema minni upphæðum er

að finna í þessu frv. Vil ég nefna sérstaklega 65 millj. kr. til hafnamála vegna afleiðinga óveðursins við suðurströndina í janúarmánuði, 140 millj. kr. vegna hjálparstarfs sem Íslendingar hafa ákveðið að taka þátt í vegna ástandsins við Persaflóa. Þá er einnig athyglisvert að kostnaðurinn við viðræðurnar milli EFTA og EB, sem Alþingi ræddi hér í gær, felur í sér að hér er óskað eftir 70 millj. kr. til viðbótar í þann lið. Eru það þá orðnar einhverjar dýrustu milliríkjaviðræður sem Íslendingar hafa tekið þátt í og er engan veginn allur kostnaður enn kominn fram.
    Að loknu endurmati á útgjaldalið í ágúst kynnti fjmrn. nýja áætlun um afkomuna á árinu og var þá gert ráð fyrir u.þ.b. þriggja milljarða útgjaldaauka. Sú breyting sem síðan hefur orðið á þeirri áætlun er fyrst og fremst til komin vegna aukinnar fjárþarfar til sjúkratrygginga, vegna þess að ákveðið var að hætta við lántöku í þágu Endurbótasjóðs menningarstofnana og enn fremur vegna framlagsins til hjálparstarfs í Persaflóadeilunni.
    Ég vil geta þess hér, vegna þess að ég tel mikilvægt að halda því til haga, að þegar ríkisstjórnin hafði ákveðið að beita sér fyrir að 140 millj. kr. yrðu veittar til hjálparstarfsins við Persaflóa og Rauði krossinn taldi nauðsynlegt að þeir fjármunir kæmu til greiðslu áður en Alþingi kæmi saman ákvað ég að óska eftir fundi með hv. fjvn. og formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar, til þess að kynna þeim þessa tillögu og óska eftir samþykki þeirra við
því að þetta fé yrði greitt út áður en Alþingi kæmi saman. Ég tel nauðsynlegt að geta þessa hér vegna þess að ég tel það mikilvægt sem fordæmi um vinnubrögð í framtíðinni að ef ríkisstjórn telur nauðsynlegt, á þeim tíma sem Alþingi situr ekki, að greiða út úr ríkissjóði umtalsverðar upphæðir sem ekki er að finna í fjárlögum séu þau mál kynnt fyrir fjvn. og formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar svo allir aðilar hér á Alþingi hafi tækifæri til þess að tjá sig um þau mál áður en fjárhæðirnar eru endanlega greiddar út úr ríkissjóði.
    Ég þakka fyrir þær góðu undirtektir sem málið fékk í fjvn. og af hálfu forustumanna þingflokka stjórnarandstöðu. Vona ég að þessari reglu verði fylgt í framtíðinni, því auðvitað geta alltaf komið upp tilvik eins og hér um ræðir sem enginn sér fyrir þegar fjárlög eru afgreidd og Alþingi situr ekki þegar greiðslurnar þarf að inna af hendi. Er þá mikilvægt að þeirri vinnureglu sem ég var hér að lýsa verði fylgt í framtíðinni.
    Í fjárlögum 1990 var gert ráð fyrir að lántökur yrðu alls 8 milljarðar 995 millj. kr. Innlendar lántökur voru áætlaðar 6 milljarðar 625 millj. kr. og erlendar lántökur 2 milljarðar 370 millj. kr. Með fjáraukalögum var innlend fjáröflun hækkuð um 850 millj. kr. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er lánsfjárþörfin nú talin verða 12 milljarðar 560 millj. kr. Aukningin frá fjáraukalögum skýrist af uppgjöri á 2 milljarða kr. yfirdráttarskuld við Seðlabankann í lok ársins 1989, auknum lánveitingum að fjárhæð 300 millj. kr. og 415 millj. kr. meiri rekstrarhalla ríkissjóðs.

    Eins og ég gat um áður eru horfur um innlenda fjáröflun til áramóta mjög góðar. Áætlað er að sala ríkisvíxla umfram innlausn verði 3 milljarðar 800 millj. kr. Nú þegar er búið að tryggja sölu spariskírteina fyrir um 6,3 milljarða kr. á árinu á þeim frjálsa samkeppnismarkaði verðbréfa sem hér hefur þróast í landinu. Er það satt að segja ótrúlega jákvæður árangur, sérstaklega þegar horft er til þeirra efasemda sem margir höfðu uppi um það á síðasta þingi að slíkt mundi takast.
    Það liggur þess vegna ljóst fyrir að unnt verður á þessu ári að mæta allri lánsfjárþörf ríkisins hér innan lands og er það fyrsta árið um mjög langt árabil, sem telja verður í áratugum, þar sem ríkissjóði tekst við slíkar aðstæður að fjármagna fjárþörf sína algjörlega á innlendum samkeppnismarkaði. Slíkt er veigamikil forsenda þess stöðugleika sem nú ríkir í efnahagsmálum okkar. En til viðbótar við það að ná 100% fjármögnun hér innan lands bendir margt til þess að árangurinn geti orðið slíkur að þar til viðbótar verði hægt að taka inn 2 milljarða yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabankanum vegna hallarekstursins á árinu 1989 sem þá þarf ekki að fjármagna með erlendri lántöku. Enn fremur er hugsanlegt að einhver viðbót verði þá eftir til þess að greiða niður erlend lán með innlendri lánsfjáröflun.
    Útstreymi á lánahreyfingum er talið verða óbreytt frá fjáraukalögum þegar á heildina er litið. Hins vegar verða breytingar á einstökum liðum. Áætlað er að innheimtar afborganir veittra lána verði um 440 millj. kr. lægri. Greiddar afborganir verða 960 millj. kr. undir áætlun, en það skýrist af samningum sem gerðir voru við banka um yfirtöku skulda ríkissjóðs í Seðlabankanum að fjárhæð 3 milljarðar 517 millj. kr. Við þessa aðgerð falla niður á þessu ári afborganir hinna yfirteknu lána að fjárhæð 960 millj. kr. Innlausn spariskírteina er áætluð 400 millj. kr. lægri en í fjárlögum. Skýrist sá munur af minni innlausn flokka sem ekki eru á lokagjalddaga.
    Veitt lán eru talin verða 1 milljarði 200 millj. kr. umfram áætlun. Þar er um að ræða lánveitingar með ábyrgð ríkissjóðs, sem samkvæmt heimild í lánsfjárlögum má færa um Endurlán ríkissjóðs en í áætlun fjárlaga var gert ráð fyrir beinni lántöku hjá sjóðum eða bankakerfi. Á móti þessari lánveitingu er lántaka þannig að áhrif á greiðslustöðu ríkissjóðs eru engin.
    Á miðju ári 1990 yfirtók ríkissjóður skuldbindingar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Þessi uppgjörsmál hafa ekki áhrif á greiðsluafkomu ríkissjóðs og koma þar af leiðandi ekki fram í þessu uppgjöri. Þessi yfirtaka er hliðstæð yfirtöku ríkissjóðs á orkuskuldum og ýmsum öðrum skuldum á fyrri árum. Þær hafa verið færðar í ríkisreikning á rekstrargrunni en aldrei í greiðsluyfirliti ríkissjóðs. Samkvæmt samkomulagi sem gert var við Seðlabankann 8. júní 1989 gjaldfalla þessar skuldbindingar um mitt næsta ár.
    Má þá nefna að í ríkisreikningi ársins 1989 var til bráðabirgða fært á skammtímahreyfingar skuldabréf vegna uppgjörs gamla Útvegsbankans gagnvart Íslandsbanka. Í byrjun árs 1990 var gengið formlega frá

þessu uppgjöri á þann hátt að í stað þess að gefa út skuldabréf til langs tíma voru Íslandsbanka afhent spariskírteini að fjárhæð 928 millj. kr. og ríkisvíxlar að fjárhæð 273 millj. kr. Þessi uppgjörsháttur hefur ekki áhrif á greiðsluafkomu ríkissjóðs og er ekki hluti af þeirri fjáröflun sem ætluð er til að mæta lánsfjárþörf ríkissjóðs heldur aðeins tilfærsla milli skammtíma- og langtímalánahreyfinga. Því þykir eðlilegra í þessum samanburði að draga þessa sölu spariskírteina og ríkisvíxla frá annarri sölu þannig að hún kemur ekki fram í tölum um sölu spariskírteina og ríkisvíxla í því yfirliti sem ég greindi frá hér áðan.
    Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í upphafi er flutningur þessa fjáraukalagafrv. enn frekari staðfesting á þeim nýju vinnubrögðum í ríkisfjármálum sem tekin hafa verið upp hér á síðustu tveimur árum. Þessi nýju vinnubrögð hafa skapað aukna festu í stjórn ríkisfjármála. Ég er fullviss um það að sú staðreynd að í tíð núverandi ríkisstjórnar eru flutt með reglubundnum hætti frv. til fjáraukalaga hafi dregið úr kröfugerðum ráðuneyta og ríkisstofnana um viðbótarfjárframlög vegna þess að menn gera sér grein fyrir því að þá þarf að reiða fram réttlætingu og skýringar á þeim óskum á því ári sem greiðslurnar eru veittar en ekki mörgum árum síðar eins og búið var að venja menn á hér í hinu gamla kerfi.
    Ég tel þess vegna að þessi formbreyting í ríkisfjármálunum ein og sér hafi með beinum og óbeinum hætti stuðlað að aðhaldi og traustari vinnubrögðum og breyttum viðhorfum í ríkiskerfinu öllu. Viðhorfabreytingu sem hefur það í för með sér að menn líta nú fyrst í eigin barm áður en þeir hlaupa til og óska eftir meira fjármagni, skoða sína eigin stöðu vel og rækilega áður en þeir ganga fram og biðja um viðbótarfé vegna þess að menn vita að ekki verður orðið við þeirri ósk við skrifborð fjmrh. eins og gert var undir gamla kerfinu, heldur verður að fara með þá ósk inn í ríkisstjórnina, inn á Alþingi og til fjvn. áður en kemur til greiðslu. Sú aðferð að taka málin þannig fyrir með formlegum hætti á yfirstandandi ári hefur skapað viðhorfabreytingu í ríkiskerfinu öllu sem ég hef orðið mjög greinilega var við og tel að hljóti að vera öllum fagnaðarefni sem á undanförnum árum hafa barist fyrir breytingum og bættum vinnubrögðum í stjórn ríkisfjármála.
    Ég vil einnig nota þetta tækifæri til þess að þakka fjvn. fyrir góða samvinnu um þessa nýskipan. Á síðasta þingi áttum við góða samvinnu við fjvn. um að ganga endanlega frá formi þeirra fjáraukalaga sem þá voru afgreidd. Ég lýsti því í framsöguræðu minni fyrir fyrra fjáraukalagafrv. yfirstandandi árs að það væri lagt fram án þess að endanlega væri gengið frá forminu, til þess að geta, í samvinnu við fjvn., mótað þær vinnureglur og þær formreglur sem tíðkast skyldu til frambúðar. Ég vil einnig sérstaklega þakka fyrir það hér að á undanförnum vikum hefur tekist góð samvinna við fjvn. í aðdraganda þess að þetta frv. er flutt og einnig um frv. sjálft eftir að það var lagt fram á Alþingi þótt ekki sé mælt fyrir því fyrr en nú.
    Ég tel að góð samvinna og góður skilningur milli

fjmrn. og fjvn. sé mjög mikilvægur ef því sameiginlega markmiði okkar allra, að festa þessa nýskipan í sessi, á að verða komið heilu í höfn. Það er einnig mikilvægt að frv. af þessu tagi sé ekki lengi til meðferðar í þinginu til þess að það geti í reynd orðið stýritæki og Alþingi, ef það svo kýs, haft aðra skoðun á fjárveitingum til ýmissa þeirra liða sem hér eru gerðar tillögur um.
    Ég hef lýst þeirri skoðun minni áður að ef þessi nýskipan í ríkisfjármálum á að verða traust til frambúðar tel ég óhjákvæmilegt að rætt sé í alvöru um að Alþingi komi fyrr saman til funda en nú, t.d. fyrri hluta septembermánaðar, og þá sé lagt fram fjárlagafrv. fyrir næsta ár og fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár. Reynt sé að afgreiða fjáraukalögin áður en síðasti ársfjórðungur ársins hefst, þannig að þau geti í reynd verið áhrifaríkt stjórnunar- og eftirlitstæki. Ég tel einnig mjög mikilvægt að fjvn. verði að forminu til heilsársnefnd þannig að hægt sé með skýrum og afdráttarlausum hætti að hafa samskipti við fjvn. um meðferð þessara mála utan þingtímans. Væri mjög æskilegt að forustumenn þingflokkanna og forsetar, sem vinna nú að endurskoðun á þingsköpum, taki slíkar hugmyndir og aðrar þeim skyldar til gaumgæfilegrar athugunar.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjvn.