Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Það var minnst á það við okkur þm. að stytta mál okkar til að unnt yrði að komast hjá kvöldfundi. Ég mun fara að þeim tilmælum en það veldur því að ræða mín verður ekki svo ítarleg sem ég hefði óskað.
    Þegar fjárlög yfirstandandi árs voru í umræðu fyrir um það bil ári, þá benti ég ítrekað á að ýmsar vanáætlanir sem þar væru faldar mundu koma í ljós á þessu ári. Sú spá sannaðist fljótlega og kom að nokkru fram í fjáraukalögum sem voru samþykkt í maí sl. Þau lög voru nokkuð sérstök og þó að þar væru hækkaðir nokkrir liðir sem sýnilega hafði verið vanáætlað til, þá tóku þau þó fyrst og fremst til niðurskurðar á fjölmörgum fjárfestingarliðum og fleiri liðum sem Alþingi hafði lokið við að skipta fáum vikum áður en frv. var lagt fram. Þau fjáraukalög gerðu ráð fyrir lækkun útgjalda ríkissjóðs um 1,7 milljarða. Sú lækkun virðist því ekki muni ná fram að ganga nú. Þau viðfangsefni sem við okkur blasa er hækkun útgjalda um 4 milljarða. Það er að vísu huggun harmi gegn að tekjuinnheimta hefur farið fram úr björtustu vonum, einkum hvað varðar eldri útistandandi skattskuldir. Það eru þó tekjur sem ekki skila sér nema á þessu ári. Þar er ekki tekjustofn til framtíðar.
    Það er ljóst að ekki tekst lengur að fela útgjöld vegna breyttra verðlagsforsendna sem hljóta að koma í ljós. En svo má aftur spyrja hvers konar hringlandaháttur sé uppi í fjármálastjórninni, því á sama fjárlagaárinu er komið fram með fjáraukalagafrv. sem í fyrstu eiga að draga saman útgjöld og síðan önnur sem hækka útgjöld. Og menn hljóta að spyrja hversu góð fjármálastjórn sé hjá ríkinu. Er nú ekki hornsteinninn, fjárlög ársins 1990, eitthvað farinn að molna? Það er ljóst að stór hluti viðbótarútgjaldanna, sem talin eru í því fjáraukalagafrv. sem við erum að tala um nú, stafar einkum af þrennu.
    Í fyrsta lagi eru þættir sem ekki voru teknir með við sjálfa fjárlagagerðina. Þar má nefna uppgjör vegna endurgreiðslu á söluskatti, sem eru háar upphæðir, og framlög til vegamála, t.d. vegna snjómoksturs. Það mætti telja fleira á þennan veg.
    Í öðru lagi er um að ræða áform um lækkun útgjalda sem framkvæmdarvaldið hefur ekki náð fram. Þar má nefna lækkun lyfjakostnaðar sem ekki næst fram nú fremur en áður og sýnist vera undarleg þráhyggja hjá ríkisstjórninni að áætla þennan lið alltaf jafnháan, að það náist fram jafnmikil lækkun á þessu því þetta hefur ekki tekist og tekst ekki. Ég held að það hafi verið uppi áform í fast að því áratug um að ná þessum lið niður og það tekst ekki. Ég tel að það sé réttara að reikna með honum óbreyttum og það gæti þá orðið til tekna ef einhvern tíma tækist að ná honum niður.
    Síðan voru inni áform um lækkun stofnkostnaðar í fjáraukalögum frá því í vor sem ekki hefur tekist að ná.
    Í þriðja lagi er svo vanáætlun fjárlaganna um rekstrarkostnað einstakra ríkisstofnana. Það var ljóst að

framlag til embætta sýslumanna og bæjarfógeta var vanmetið og það er nú komið áþreifanlega á daginn. Kostnaður af samskiptum við EB og EFTA mælist í frv. um 74 millj. kr. Ekki var áætlað fyrir þessu og má það eiginlega furðu gegna þar sem ljóst mátti vera að þessar viðræður yrðu bæði umfangsmiklar og kostnaðarsamar. En hæst ber þó vanáætlunin til heilbrrn. sem nema 1 1 / 2 milljarði í allt. Á það var ítrekað bent í fjárlagaumræðu fyrir ári að þarna mundi skorta fé og svo há sem þessi upphæð er í frv. þá er fjarri því að öll kurl séu komin til grafar enn. Það hefur enn fremur komið fram í viðtölum við fjvn. að mikið virðist vanta enn á til að tryggja að frv., þegar að lögum verður, sýni rétta útkomu í árslok.
    Í viðtölum við fjvn. í fyrra kom fram að forsvarsmenn ýmissa ríkisstofnana lýstu sig vanbúna því að meta áhrif virðisaukaskattsins á rekstur þeirra. Kostnaðarhækkanir vegna skattsins hafa í ýmsum tilvikum orsakað verulegan halla á rekstri sem mun fyrirsjáanlega auka útgjöld ríkissjóðs fram yfir það sem hér er talið til. Verra er þó ef rétt er að þessi kostnaður sé ekki hafður í huga við áætlun fjárlaga fyrir næsta ár. Það kann að draga stærri dilk á eftir sér en mönnum er ljóst nú.
    Virðulegi forseti. Ég hef dregið hér fram meginorsakir þess að þetta frv. til fjáraukalaga er lagt fram með slíkum upphæðum sem þar er að finna. Og mér þykir augljóst að menn hafi áttað sig á því nú, hafi það ekki verið ljóst áður, að sá hornsteinn efnahagslífsins sem lagður var fyrir ári, fjárlög þessa árs, er haldlítill og fjárlögin eru ekki sá hornsteinn sem hæstv. fjmrh. hefur lýst þau vera. Það hefur nefnilega ekki tekist enn að ná stjórn á ríkisbúskapnum og vantar mikið til þess.
    Ég tek vissulega undir það með hæstv. ráðherra að það er mikilsvert að fjáraukalög séu lögð fram á því ári sem þau taka til. Það eru góð vinnubrögð og ættu að leiða til þess að meiri festa væri í fjármálastjórninni. En þetta fjáraukalagafrv. er til komið einkum vegna lélegrar áætlunargerðar, tilhneigingar til að leyna óþægilegum staðreyndum, sem þó ekki tekst, og því að viðamiklir þættir voru ekki hafðir með í dæminu. Eins og það blasir við okkur nú, þetta fjáraukalagafrv., er það í rauninni skýrsla um ástand ríkissjóðs sem bíður þess að vera stimpluð af Alþingi, skýrsla sem leiðir í ljós að hallinn á ríkisbúskapnum er áætlaður um 5 milljarðar og sú tala er ekki ofmetin og á eftir að hækka enn ef ekki finnast nýjar tekjuleiðir eða niðurskurðarmöguleikar. En ég vil enn einu sinni árétta það sem við kvennalistakonur höfum ávallt haldið fram. Það verður að gera gangskör að því að endurmeta markmið og tilgang ýmissa ríkisstofnana og sjóða svo og umfang þeirra og haga síðan áætlanagerð í samræmi við það. Þetta voru að vísu yfirlýst markmið hæstv. fjmrh. er hann tók við sínu starfi en ég auglýsi eftir árangri.