Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þau orð sem hér hafa fallið til stuðnings þeim vinnubrögðum sem felast í því að leggja fram fjáraukalagafrv. á yfirstandandi ári. Ég tel mjög mikilvægt að það myndist breið samstaða hér á Alþingi um þessa nýskipan ríkisfjármála. Ég er sannfærður um að hún er veigamikil forsenda þess að hægt verði á næstu árum að ná betri árangri í meðferð ríkisfjármála, sem er sameiginlegt markmið okkar allra.
    Hins vegar eru örfá atriði sem mig langar til að víkja að í örstuttu máli. Þegar ég mælti fyrir fjárlagafrv. fyrir næsta ár gerði ég grein fyrir því að ýmis veigamikil vandamál bíða næstu ára, og jafnvel næstu tveggja til þriggja kjörtímabila eins og hv. þm. Pálmi Jónsson vék hér að. Hv. þm. hefur hins vegar bæði í umræðunni um fjárlagafrv. fyrir næsta ár og eins í þessari umræðu vitnað til þessarar greinargerðar minnar og stílfært hana á þann veg að ég hafi þar verið að tala um vandamál sem þessi ríkisstjórn skilur eftir sig. Það er satt að segja voðalega erfitt að reyna að koma á vitrænni umræðu um ríkisfjármál ef snúið er út úr fyrir manni með þessum hætti.
    Ég var þarna að víkja m.a. að byggingarsjóðunum og Lánasjóði ísl. námsmanna svo að ég nefni nú bara tvennt. Það vita það auðvitað allir hv. alþm. að þau vandamál sem þessir sjóðir munu eiga við að glíma á næstu árum eru ekki nema að mjög litlum hluta skrifuð á reikning núv. hæstv. ríkisstjórnar. Ég vil nefna sem dæmi greinargerð sem embættismenn fjmrn. lögðu fyrir þáv. fjmrh., Þorstein Pálsson, 1986 þegar verið var að vinna að tillögum um Byggingarsjóð ríkisins í tíð þáv. ríkisstjórnar. Í þessari greinargerð kom fram að það hlaut að verða veigamikill vandi þessa sjóðs á næstu árum og þar var sá vandi reiknaður tíu ár fram í tímann. Ég ætla ekkert að deila um það hér hvort þinginu var gerð grein fyrir þessu eða ekki á sínum tíma. Ég var ekki á þingi þá þannig að ég ætla ekki að tjá mig um það mál. Það er hins vegar staðreynd að það lá ljóst fyrir þegar var verið að vinna að lögunum 1986, að það mundu á næstu 10 -- 15 árum verða stórfelld vandamál í málefnum þessa sjóðs. Sama gildir um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það hefur auðvitað verið ljóst árum saman að það yrðu vandamál varðandi framtíðarskipan þess sjóðs. Ég held að það sé sameiginlegt hagsmunamál allra hér á Alþingi að gera bæði þinginu og þjóðinni með sannferðugum hætti grein fyrir orsökum þeirra vandamála, þeirra stóru vandamála, sem við verður að glíma hér á næsta áratug við meðferð ríkisfjármála. Og það mun reynast mjög erfitt að fá samstöðu um þær erfiðu lausnir á þessum vandamálum ef telja á fólki og þinginu trú um það að erfiðleikarnir séu bara vegna einhverrar ríkisstjórnar sem hér hefur setið í tvö ár þegar ljóst er að hér er um uppsafnaðan vanda, jafnvel síðustu 10 -- 15 ára, að ræða. Menn verða ekki reiðubúnir að taka á sig þær byrðar sem þarf á næstu 4 -- 8 árum ef reynt er að telja mönnum trú um að orsakirnar séu svona einfaldar. Ég nefni þetta ekki hér til þess að fara að efna

til langrar umræðu um þetta mál en ég fer þess hins vegar vinsamlegast á leit við hv. þm. Pálma Jónsson að þegar við ræðum um þessi stóru vandamál, ríkisfjármál á næstu árum, þá reynum við í sameiningu, sem rétt er, að greina orsakirnar. Og það veit hv. þm. að þær liggja miklu dýpra og lengra aftur í tímann en þau tvö ár sem núverandi ríkisstjórn hefur setið.
    Sama gildir varðandi umræðurnar um lyfjasparnaðinn. Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði hér að þær sparnaðartillögur sem lagðar voru fram af hæstv. heilbrrh. í fyrra varðandi lyfjakostnað hefðu mistekist. Það er ekki rétt. Framkvæmd þeirra tillagna hefur tekist nokkuð vel. Vandinn er hins vegar sá að annars staðar í lyfjakostnaðarkerfinu hafa hlutirnir farið langt fram úr. Ég vil bara nefna tvö dæmi þessu til skýringar.
    Nýtt lyf er að koma á markaðinn sem áður var óþekkt. Þetta lyf getur forðað hjartasjúkdómum og hjálpar til að lækna þá. Miðað við útbreiðslu slíkra sjúkdóma og löngun manna til að koma í veg fyrir þá mundi almenn notkun þessa lyfs hér á landi hafa í för með sér um það bil 200 millj. kr. viðbótarútgjöld á ári fyrir ríkissjóð bara út af þessu eina lyfi. ( PJ: Það hlýtur nú annað að sparast um leið.) Nei, það getur tekið lengri tíma, hv. þm., að ná þeim sparnaði fram. Ég er aðeins að vekja athygli á þeirri staðreynd að hér geta komið á markaðinn lyf sem ná á skömmum tíma, eðlilega, mikilli útbreiðslu en eru mjög dýr. Og ég vil nefna annað dæmi. Það varðar einn sjúkling. Lyfjakostnaður vegna hans á ári, hans eins, er um 30 millj. Tíu slíkir sjúklingar mundu hafa í för með sér 300 millj. kr. viðbótarútgjöld. Það má ekki rugla umræðuna um tilraunir til sparnaðar í ríkisrekstri með því að segja að það sem verið er að gera hafi mistekist þótt ýmislegt annað hafi komið upp vegna þess að núv. hæstv. heilbrrh. hefur, að mínum dómi, reynt með góðum árangri að knýja fram sparnað víða í heilbrigðiskerfinu þótt það sé mjög erfitt og óvinsælt verk, eðlilega, vegna þess að þar er verið að glíma við einhvern viðkvæmasta þáttinn í mannlegu samfélagi og líf einstaklinganna.
    Ég vakti athygli á því hér áðan að miðað við þær kröfur sem gerðar eru í okkar þjóðfélagi um heilbrigðisþjónustu, um aðhlynningu fyrir aldraða og sjúka, um bætur, þá er það alveg ljóst að það mun reynast mjög erfitt verkefni á næstu árum að reiða fram allt það fé sem krafist er í þeim efnum, hvað þá heldur að ná fram þeim sparnaði sem menn eru að tala um. Og það þjónar ekki þeim tilgangi, held ég, til lengdar að reyna að gera þau mál einföld vegna þess að þau eru erfið og mjög flókin og viðkvæm í okkar þjóðfélagi. Ég gæti greint hér frá margvíslegum viðræðum sem ég hef átt við forustumenn í heilbrigðiskerfi, læknastétt og forsvarsmenn ýmissa samtaka sem sýna mjög vel hve erfið þessi mál eru. Og það er alveg rétt sem hv. þm. Pálmi Jónsson vék hér að. Það er komin enn á ný ósk frá ríkisspítölunum um viðbótarfé á þessu ári þótt forsvarsmenn ríkisspítalanna hafi sagt við bæði fjmrn. og fjvn. í maímánuði sl. að ef þeir fengju þá viðbótarupphæð sem ákveðið var að

veita þeim í fjáraukalögunum mundi hún duga. Og ég vek athygli á því að þótt það fjáraukalagafrv. væri eingöngu vegna kjarasamninganna var ákveðið að taka ríkisspítalana eina út úr, af öllum stofnunum ríkisins, og veita viðbótarfé til þeirra þótt engin önnur sérstök fjárveiting væri í því fjáraukalagafrv. Engu að síður koma ríkisspítalarnir nú nokkrum mánuðum síðar og segja: Við þurfum meira. Það endurspeglar kannski mjög vel hve erfitt þetta verkefni er, hve fjárfrekt þetta svið er í okkar þjóðfélagi, og hve viðkvæmt það er.
    Fjmrn. hefur ekki tekið afstöðu til þessarar óskar ríkisspítalanna, enda ekki haft tækifæri til þess að fara yfir hana nákvæmlega. En ég tel mjög mikilvægt fyrir fjvn. og fjmrn. að gera það í sameiningu, sem og heilbrrn. sérstaklega.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson vék hér einnig að virðisaukaskatti á ríkisrekstur og ríkisstofnanir. Ég vil í því sambandi lýsa því yfir að ég tel ekki sjálfgefið að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki eigi að fá virðisaukaskattinn bættan sérstaklega með viðbótarframlögum úr ríkissjóði. Það hlýtur að vera verkefni hverrar stofnunar og sviðs fyrir sig að taka á því alveg eins og það er fyrir fyrirtækin í landinu og aðra rekstraraðila. Það getur verið misjafnt frá einni stofnun til annarrar, en mér finnst ekki eðlilegt að þeirri almennu reglu sé einfaldlega beitt að þar eigi að koma viðbótarframlög á móti.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson gerði einnig nokkuð mikið mál úr því að fjmrn. væri hér næsthæst í viðbótarútgjöldum. Auðvitað er hægt að búa til einfalda mynd með þessum hætti. Það vill nú hins vegar svo til að stærstu upphæðirnar á þessari skrá fjmrn. eru ekki hluti af rekstri fjmrn. Ég vil t.d. nefna að ein hæsta upphæðin, 130 millj., er uppbætur á lífeyri alþingismanna og ráðherra, framlag til lífeyrisgreiðslna hér á Alþingi, þótt það sé bókfært í fjárlögunum hjá fjmrn. Mér finnst það nú frekar ósanngjarnt að nota þá tölu til þess að fá út einhverja aukningu á kostnaðarútgjöldum fjmrn. þegar verið er að bæta upp lífeyri alþingismanna og ráðherra sem starfað hafa hér á Alþingi.
    Annað dæmi er að liðurinn Launa - og verðlagsmál er hækkaður um 140 millj. vegna þess að ekki hefur tekist niðurskurður hjá öðrum ráðuneytum sem áformaður var. Það er vissulega alveg rétt að það hefur ekki tekist að ná þeim niðurskurði sem þessari upphæð nemur almennt í ríkiskerfinu, aðallega hjá öðrum ráðuneytum, vegna þess að langminnsti hlutinn af þessu var í fjmrn. En vegna þess hvernig fjárlögin og ríkisreikningurinn eru sett upp þá er þetta bókfært hjá fjmrn. Þetta er liður upp á 140 millj. kr.
    Þriðja dæmið er um fasteignir ríkissjóðs. Hér er sótt um viðbótarupphæð aðallega vegna húsnæðis annarra ráðuneyta, þ.e. menntmrn., umhvrn. og Hagstofu. Það er bókfært hjá fjmrn. Þetta eru þrír liðir sem eru um það bil 40% af þeirri upphæð sem hér er færð undir fjmrn. og við vitum auðvitað öll sem í þessum sal erum að þetta er ekki hluti af rekstrarumfangi fjmrn., heldur eru þetta allt saman liðir sem heyra

undir aðra, undir Alþingi, undir önnur ráðuneyti, þótt samkvæmt hefð og venju séu þeir bókfærðir hjá fjmrn.
    Fjórði stærsti liðurinn er vissulega hluti af rekstri þeirra stofnana sem heyra undir fjmrn. en það er viðbótarkostnaður skattkerfisins vegna virðisaukaskattsbreytingarinnar og vegna innheimtuaðgerða. Vissulega má segja að það hefði mátt ætla fyrir því fyrir fram en þó er það nú þannig, bæði á þessu sviði og öðrum, að kostnaðurinn við Skýrsluvélar ríkisins, tölvubókhaldið og aðra slíka þætti hjá hinu opinbera, fer sívaxandi, meira en menn hafa gert sér grein fyrir, þannig að um það bil helmingurinn af þeirri upphæð sem færð er undir fjmrn. er nú af þessum orsökum. Ég tel þess vegna að það sé eins með fjmrn. og allan þorra ríkisstofnana að það hafi tekist nokkuð vel að halda þessu innan þeirra banda sem almennt er í fjárlögunum, en það geta auðvitað alltaf komið fyrir einstakir liðir sem nauðsynlegt er
taka á.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson vék einnig að ráðstöfunarfé ráðherra. Ég vil nú segja af fullri vinsemd við virðulega fjvn. að ég vona að hún fari ekki að efna til þess að þessi liður verði lagður af. Hann er til kominn vegna þess samkomulags sem hér var gert, bæði milli ráðuneyta og í þinginu, að afnema þann áratuga gamla sið aukafjárveitinga sem allir voru að gagnrýna um árabil og vildu að hætti. En þá lá auðvitað í hlutarins eðli að það varð að skapa eitthvert svigrúm til þess að einstakir ráðherrar og ráðuneyti gætu mætt uppáfallandi vandamálum og var hér þó eingöngu um að ræða mjög smáar upphæðir, örfáar milljónir í hverju ráðuneyti. Ég tel að þessi ákvörðun þingsins, fjvn. og fjmrn. í fjárlögum yfirstandandi árs hafi verið skynsamleg vegna þess að hún hefur auðveldað fjmrn. og fjvn. að verjast fjölmörgum óskum ráðuneytanna um viðbótarútgjöld með því að vísa á það að þarna væru upphæðir, þótt litlar séu, sem ráðherrarnir gætu hver og einn fyrir sig ráðstafað í þágu þeirra verkefna sem upp koma í þeirra ráðuneytum. Ég óttast satt að segja að ef þessi liður væri tekinn í burtu mundi ásóknin af hálfu ráðuneytanna í viðbótarfé aukast. Ég vona að við getum rætt þetta mál mjög rækilega milli fjvn. og ráðuneytisins áður en það verður lagt inn á þá braut að leggja þetta nýmæli niður.
    Ég vil sem dæmi taka hvað varasamt getur verið að fara út á þá braut sem hv. þm. Pálmi Jónsson gerði. Hann vék að liðnum Útgáfustyrkir, 10 millj. og taldi að það væri ágætt dæmi um hlut sem ætti að falla undir þetta ráðstöfunarfé. Þessi liður sem hér er í fjáraukalögunum, og væntanlega verður skýrt fyrir fjvn., er til kominn vegna þess að aðstandendur útgáfu sérstakra menningar - og söguritverka, ritverka í mörgum bindum um þjóðmenningu Íslands, um sögu Íslands, um íslenska sjávarhætti og um hátíðina á Þingvöllum 1974, hafa komið til fjmrn., menntmrn., forsrn. og lýst útgáfuvanda þessara stóru ritverka sem öll eiga það sameiginlegt að vera langtímaverkefni í útgáfumálum og tilheyra sögu landsins og þjóðmenningu. Það er nokkuð ljóst að einstök útgáfufyrirtæki

hjá einkaaðilum eða samtökum eins og Íslenska bókmenntafélaginu geta ekki risið til lengdar undir slíkri útgáfustarfsemi. Hluti er líka hjá útgáfuforlagi ríkisins, Menningarsjóði, sem skyldaður var til þess að gefa út bókina um hátíðina á Þingvöllum 1974 þótt hún hafi því miður reynst lítil söluvara. Það er því margra milljóna króna halli á þeirri útgáfu. Þessari upphæð er ætlað að vera framlag til að taka á þessum afmarkaða vanda, tiltekinna þriggja tegunda af ritverkum sem unnið er að í þágu íslenskrar menningar og íslenskrar sögu. Hér er ekki um að ræða almenna útgáfustyrki til einstaklinga eða samtaka í þeim stíl sem menn þekkja, nokkur hundruð þúsund, hálf milljón eða ein milljón til hvers aðila fyrir sig.
    Ég vona að virðuleg fjvn. fari ítarlega yfir þetta vandamál vegna þess að það er því miður of algengt í okkar landi að mikilvægum ritverkum sé ekki lokið og þjóðin eignist ekki yfirlit yfir sögu sína og menningu með þeim hætti sem eðlilegt er. Uppáhaldsdæmi mitt um þetta, ef ég má, með leyfi forseta, slá á aðeins létta strengi, er sú ákvörðun Landsbanka Íslands fyrir rúmlega 20 árum síðan eða svo, ef ekki 30, að láta skrá og gefa út ævisögu Tryggva Gunnarssonar. Það verk hefur verið unnið í nokkra áratugi á vegum Landsbankans og hafa nokkrir af bestu fræðimönnum og sagnfræðingum Íslendinga komið að því verki. Það hafa nú þegar komið út nokkuð mörg bindi, mörg hundruð blaðsíður hvert bindi, sem fjalla ítarlega um ævi Tryggva, en hann er enn ekki kominn í bankann, þannig að með sama áframhaldi munu líða nokkuð margir áratugir þar til því verki verður lokið.
    Annað dæmi sem menn þekkja er Saga Íslands sem Hið íslenska bókmenntafélag hóf að gefa út í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974 og hefur eðlilega gengið seinna en vonir stóðu til vegna þess að slíkt verkefni er æði dýrt og fjárfrekt.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson vék síðan í nokkuð löngu máli hér að deilu okkar um hvernig eigi að bókfæra yfirtöku ríkissjóðs á láni Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Ég ætla ekki að eyða löngu máli í þessa bókfærsludeilu hér. Staðreynd málsins er hins vegar sú að á þessu ári verður ekki greidd út ein einasta króna úr ríkissjóði vegna þessa máls, ekki ein, þannig að í öllum venjulegum skilningi útgjalda ríkissjóðs fer ekki króna úr ríkissjóði vegna þessa máls. Ég vek hins vegar athygli á því að allir aðrir liðir sem í þessu fjáraukalagafrv. er að finna eru útgjaldaliðir sem greiddir verða út úr ríkissjóði á þessu ári.
    Hvort um formlegt skuldabréf er að ræða í venjulegum skilningi þess orðs eða staðfesta yfirtöku og skuldbindingu af hálfu fjmrn. og sjútvrn., staðfesta af þeim ráðuneytum, tel ég ekki vera höfuðatriði þessa máls vegna þess að hv. þm. veit eins og ég að þau eru margvísleg formin á yfirtöku ríkissjóðs á skuldbindingum, á hverju vinnustigi þessara mála, þar til þeim er komið í endanlegan búning. Má ég þar t.d. nefna skuldbindingar vegna Útvegsbanka Íslands sem hafa farið gegnum ýmiss konar form á undanförnum árum. Hér er þess vegna ekki verið að leyna raunverulegum útgjöldum, eins og sagt var. Því fer víðs fjarri. Þetta er einfaldlega spurning um það, á að bókfæra þetta þegar greiðslurnar eru inntar af hendi, sem ég tel nú samrýmast heilbrigðri skynsemi, eða á að bókfæra alla upphæðina þegar lánið er tekið? Við skulum bara taka dæmi af heimilisbókhaldi, af því að hv. ræðumaður sem talaði hér síðast á undan mér tók líkingu af því að fjmrh. keypti sér ísskáp, ágætis dæmi. Við skulum segja að fjmrh. taki til þess lán sem hann ætti að greiða á næstu fimm árum, fyrstu greiðsluna eftir þrjú ár og svo á fjórða ári og fimmta ári. Þá sjá menn auðvitað í hendi sér að það væri ekki í samræmi við almennar venjur og heilbrigða skynsemi að það væri bókfært í heimilisbókhaldinu með þeim hætti að allt lánið væri greitt í ár og ekkert greitt á þriðja ári, fjórða ári eða fimmta ári, þegar á að greiða lánið samkvæmt skilmálunum. Þannig er nú þetta mál vaxið.
    Við höfum ýmsa ágæta menn í þjóðfélaginu sem eru sérfræðingar í ríkisreikningsfræðum og bókhaldsfræðum. Þeir sitja í sérstakri ríkisreikningsnefnd. Þar sitja þeir á löngum fundum og ræða fram og aftur, samkvæmt ýmsum kenningum í bókfærslu, hvernig eigi að færa hluti og hvenær og í hvaða dálkum og eftir hvaða leiðum og með hvaða rökum o.s.frv. Þetta eru lærðir og góðir menn og bókhaldsfræðin er hin merkustu fræði, eins og við vitum sem námum kennslubók Gylfa Þ. Gíslasonar í þeim fræðum hér í Menntaskólanum á sínum tíma. En það er nú einmitt verkefni ríkisreikningsnefndar og þeirra sérfræðinga sem við höfum í stjórnkerfinu íslenska til þess að fjalla um þessi mál að ákveða með hvaða hætti þessir hlutir skuli bókfærðir. Og það má ekki fara að rugla umræðuna með því að taka hluta af þeim tæknilega ágreiningi eða mismunandi sjónarmiðum inn í umræður um það hvort hallinn á ríkissjóði í ár sé meiri eða minni vegna þess, eins og ég segi, að það kemur ekki króna til greiðslu af þessum skuldbindingum í ár. Ég veit að vísu að þeir sérfræðingar í ríkisreikningsfræðum eru til sem vilja láta færa allar skuldbindingar á því ári sem þær eru gerðar. Og samkvæmt þeim fræðum hefði átt að færa lánaskuldbindingar Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða, Kröfluvirkjunar, sem ríkissjóður yfirtók allar á því eina ári sem gengið var frá samningunum og þeir undirritaðir. Við sjáum auðvitað í hendi okkar að slíkt er ekki eðlilegt eða sanngjarnt þótt það séu til sérfræðingar í ríkisreikningsfræðum sem halda þessu fram. Á sama hátt má þá spyrja: Hvernig á þá að færa skuldbindingar gagnvart Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna sem nema tugum milljarða kr.? Á að færa þær allar á einu ári? Eða á að færa þær á þeim árum þegar lífeyrisgreiðslurnar eru raunverulega inntar af hendi?
    Þetta er allt hin skemmtilegasta umræða sem ég kýs nú frekar að hafa hjá þeim sérfræðingum sem eru meistarar í þessum fræðum og una sér við það eins og prófessorar í guðfræðideildum að ræða testamentin fram og aftur, en breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að þegar við erum að ræða við þjóðina og þingið og okkur sjálfa um halla á ríkissjóði og ekki halla,

hvað hann er mikill, þá eigum við nú venjulegast við þær greiðslur sem út úr ríkissjóði fara á því ári og þær tekjur sem inn í ríkissjóð koma á því ári. Og ekki má rugla þá mynd með tilviljanakenndum færslum langtímaskuldbindinga á það ár þegar þær eru gerðar samkvæmt þeirri kenningu sem hér var haldið fram. Segjum að ríkissjóður ákvæði á næsta ári að taka lán upp á 10 milljarða til langtímaverkefnis og greiða af því láni á árunum 2000 -- 2010, þá ætti samkvæmt þessum kenningum að færa þá 10 milljarða alla sem útgjöld ríkissjóðs á árinu 1991 þótt greiðslurnar kæmu ekki fyrr en á næstu öld. Ég vona þess vegna að við förum ekki að standa í löngum umræðum hér á þingi um þetta atriði því að ég tel skynsamlegast að um þessi bókfærsluatriði sé rætt í ríkisreikningsnefndinni og af þeim sérfræðingum sem að þessu máli koma, sérfræðingum fjmrn., sérfræðingum Ríkisendurskoðunar, sérfræðingum ríkisbókhalds, sérfræðingum Seðlabankans, hagstofustjóra og öðrum þeim embættismönnum sem að þessu verki eru að vinna.
    Hv. 5. þm. Austurl. Kristinn Pétursson vék að þessu sama máli en var með aðra kenningu. Hans kenning var sú að þetta hefði allt átt að færast á árinu 1988 og við allir hér á Alþingi og Ríkisendurskoðun og fjmrn. og allir aðrir heiðursmenn hefðum falsað ríkisreikninginn vegna þess að þetta hefði ekki allt verið fært á árinu 1988. Ég tel þess vegna þetta vera tæknilegan ágreining um það hvenær hlutirnir séu færðir og hvenær ekki sem ég ætla í sjálfu sér ekki að tjá mig meira um á þessu stigi en er hluti af miklu víðtækari umræðu um eðli ríkisreikninga í endanlegri gerð í samræmi við ýmsar kenningar í bókhaldsfræðum. Ég kýs að halda mig við heimilisbókhaldið og tala um útgjöld sem raunveruleg útgjöld og tekjur sem raunverulegar tekjur á því ári sem þær eiga sér stað.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson spurði hér um Leikfélag Akureyrar. Af því máli er það að segja að það er rétt hjá hv. þm. að það er eins með Leikfélag Akureyrar og nokkrar aðrar menningarstofnanir að þær eiga í miklum fjárhagsörðugleikum. Leikfélag Akureyrar hefur reyndar eins og ýmsir aðrir leyst rekstrarvanda sinn með því að greiða fyrst og fremst önnur gjöld heldur en opinber gjöld. (Gripið fram í.) Ég sagði önnur gjöld en opinber gjöld, í trausti þess að það væri þá hægt að fá peninga frá hinu opinbera á móti opinberu gjöldunum. Þetta er auðvitað ekki góður siður, að safna bara skuldunum á opinberu gjöldin í trausti þess að það sé bara hjá hinu opinbera sem séu ekki viðbótarútgjöld, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson kallaði það. Hins vegar er þetta ekkert einsdæmi fyrir Leikfélag Akureyrar. Þetta á við um ýmsa aðra sem grípa til þessa ráðs í erfiðri stöðu. Þessi mál eru til umfjöllunar milli bæjarstjórnar Akureyrar, Leikfélags Akureyrar, fjmrn. og menntmrn. Í þeirri umfjöllun er verið að reyna að koma viðunandi framtíðarskipan á þessi mál og ég reikna með að áður en þetta ár er á enda verði komin einhver niðurstaða í því. En það er mjög mikilvægt að hún sé skýr vegna þess að það eru fleiri aðilar sem leita eftir því við ríkið að það greiði úr rekstrarvanda þeirra með þessum hætti

og það verður að vera ákveðin samkvæmni milli þess sem gert er fyrir einn aðila og þess sem gert er fyrir aðra. Þessi mál eru þess vegna til umfjöllunar og ég átti fund með fulltrúum bæjarstjórnar Akureyrar um síðustu helgi þar sem þetta mál var eitt af mörgum sem þar bar á góma. Ég vona að á næstu vikum muni það skýrast nánar.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, endurtaka þakkir mínar fyrir þær almennu og góðu viðtökur sem þetta frv. hefur fengið hvað snertir form þess og venju, sem nú er að skapast, að leggja það hér fram. Ég bæði vona og veit að virðuleg fjvn. mun afgreiða það vel og fljótt í samræmi við þann vilja sem fram hefur komið.