Almenn hegningarlög
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er ekki margt sem ég ætlaði að gera athugasemdir við í þessu frv., sem vafalaust er á flestan hátt til bóta. Þó finnst mér það dálítið skrýtið að það skuli ekki vera ólöglegt að stunda vændi almennt talað á Íslandi en bara ólöglegt að stunda vændi sér til framfærslu. Mér finnst að þetta ,,til framfærslu`` ætti að detta út úr þessari grein. Þetta er 13. gr. á bls. 3 í þessu frv.
    Og í 3. mgr. 13. gr. þar sem segir: ,,Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að útflutningi nokkurs manns úr landi í því skyni að hann hafi ofan af fyrir sér erlendis með lauslæti,`` hefði mér fundist ástæða til að við bættum líka ,,innflutningi í þessu skyni`` í þessi lög. Jafnframt fyndist mér að það ætti ekki að vera löglegt að flytja út fólk í slíkum tilgangi þó viðkomandi sé orðinn 21 árs. Samkvæmt þessu frv. ætti það að vera löglegt að flytja út fólk til vændis ef það er yfir 21 árs aldri. Það finnst mér ekki heldur réttlátt. Mér finnst að það ætti að standa þarna eingöngu að það sé ólöglegt að flytja út eða inn fólk í þessu skyni. Það væri hreinna mál. Jafnvel þó að það sé löglegt í sumum löndum að stunda vændi þá finnst mér að við ættum ekki að hafa það í okkar lögum að það sé löglegt að hjálpa til við slíkt athæfi.