Samskiptamiðstöð heyrnarlausra
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins fagna því að þetta frv. er komið fram. Táknmál er, að því er fróðir menn segja mér eða réttara sagt frótt heyrnarlaust fólk hefur sagt mér, sú aðferð við að tjá sig og þau samskipti sem því lætur albest.
    Sú stofnun sem verið er að leggja til að sett verði á fót á mjög mikið verk fyrir höndum. Hún á ekki bara fyrir höndum það sem nefnt er hér rannsóknir á íslensku talmáli, kennslu táknmáls og táknmálstúlkun. Hún á líka fyrir höndum mikið verk við að vinna námsgögn og við að kynna táknmálið og vinna því fylgi meðal þjóðarinnar. Það er til fólk núna sem efast um að táknmálið sé hið rétta heldur eigi að kenna fólki að lesa af vörum og tala á þann hátt. Það er kannski engin furða því að það hefur verið iðkað hér og því verið trúað lengi að þetta væri besta aðferðin. Því veit ég að þessi Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra --- ég tel ekki ástæðu til að stytta þetta nafn vegna þess að það er alltaf hægt að deila um hvar mörkin eru á milli heyrnarlauss og heyrnarskerts manns --- á mjög mikið verk fyrir höndum.
    Ég veit að sl. vetur var mjög mikið verk í gangi, tilraun hjá Þroskaþjálfaskólanum. Það var nemandi þar sem fékk sérstaka aðstoð við að kryfja til mergjar mál og tjáningu sína en þessi nemandi er heyrnarlaus stúlka. Það er sem sagt nú þegar byrjað á slíkum rannsóknum sem talað er um hér. Og ég efast ekkert um að þetta er hin rétta leið til að efla táknmálskennsluna og kynna hana. En það þarf ekki síst að kynna hana á milli okkar hinna sem höfum enn sem komið er heyrn og aðra tjáningarmöguleika því að það er ekkki nóg að kenna þeim sem heyrnarskertir eru málið heldur líka okkur hinum til að geta deilt geði og skipst á orðum við þá sem heyrnarskertir eru. En í heild er þetta mál hið besta mál og ég styð það af alhug.