Umferðarlög
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Flm. (Árni Gunnarsson) :
    Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja hér frv. til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987, með síðari breytingum, ásamt þeim hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, Geir Gunnarssyni, Kristínu Einarsdóttur og Jóni Kristjánssyni.
    Í frv. er gert ráð fyrir að 1. gr. í núgildandi umferðarlögum breytist allnokkuð. Tillaga er um að 2. mgr. 45. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 0,25‰ eða meira telst hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega.``
    2. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1991.``
    Greinargerð er stutt en segir í raun megnið af því sem segja þarf um þetta frv. Ég ætla að lesa greinargerðina, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. þessu er lagt til að leyfilegt vínandamagn í blóði ökumanns verði lækkað úr 0,50‰ í 0,25‰. Flutningsmenn telja eðlilegt að skekkjumörk við mælingu verði 0,05‰.
    Tilgangurinn með flutningi frv. er að eyða þeirri óvissu sem ríkt hefur um áfengisneyslu og akstur bifreiða. Verði þessi breyting að lögum þarf enginn að velkjast í vafa um að ekki má aka bifreið eftir að hafa drukkið áfengi, hversu lítil sem neyslan hefur verið.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um nauðsyn þessarar breytingar. Umferðarslysum af völdum ölvunaraksturs hefur farið fjölgandi. Núgildandi umferðarlög valda því að ökumaður verður hverju sinni að meta sjálfur, eftir að hafa neytt áfengis, hvort hann er hæfur til að aka bifreið eða ekki. Þetta mat varð mun erfiðara eftir að bruggun áfengs öls var leyfð hér á landi. Með þessari breytingu verður eftirlit með framkvæmd laganna mun auðveldara en áður.
    Sú lækkun á vínandamagni í blóði, sem hér er lögð til, kemur ekki í veg fyrir að almenningur geti notað lyf með vínanda í eða drukkið léttan pilsner.
    Ölvunarakstur er nú orðinn þvílíkt vandamál í mörgum löndum, ekki síður en á Íslandi, að víða hefur leyfilegt vínandamagn í blóði verið lækkað og tekin upp ný viðmiðun 0,0‰.
    Með þessu frv. er á afdráttarlausan hátt staðfest að neysla áfengis og akstur fer ekki saman.
    Í fylgiskjali með þessu frv. eru kaflar úr bók sem kom út í maí á þessu ári og er eftir Árna Einarsson. Bókin nefnist ,,Eftir einn ... ei aki neinn``. Útgefandi er Bindindisfélag ökumanna.``
    Varðandi ýmislegt sem fram kemur í þessari greinargerð vil ég nefna sem dæmi að flm. telja eðlilegt að skekkjumörk við mælingu verði 0,05‰. Þetta er gert í þeim tilgangi, og í samráði raunar við þá vísindamenn sem gerst þekkja til þessa málaflokks og telja að mæling verði ekki örugg nema við 0,30‰. Eigi að fara neðar í mælingu muni það kosta mikla fjármuni og tækni sem við ráðum yfir að mjög litlu leyti. Þess vegna eru þessi skekkjumörk komin þarna inn og í raun er hér verið að ræða um 0,30‰ sem yrði þá

leyfilegt áfengismagn í blóði.
    Ég vil geta þess, vegna umræðu sem hefur orðið vegna sjónvarpsþáttar á Stöð 2 í gær þar sem sýnt var að með því að drekka úr hálfri dós af maltöli mundi mælast áfengismagn --- ekki í blóði heldur í andardrætti manna. Það er ekki refsivert að vera með vínandamagn í andardrætti heldur er það blóðsýnið sem gildir, þannig að ef viðkomandi maður hefði verið tekinn og úr honum tekið blóðsýni og það rannsakað þá hefði hann ekki mælst yfir mörkum þó að blástursaðferðin hefði sýnt svo vera.
    Herra forseti. Mig langar til að nefna nokkur atriði varðandi ölvunarakstur hér á landi. Á árabilinu 1978 -- 1987 slösuðust 1100 manns í umferðarslysum á Íslandi sem beint má tengja áfengisneyslu. Ég endurtek, 1100 manns. Þar af létust 66 í umferðarslysum sem tengja má áfengisneyslu. Þetta er óstjórnlegur tollur og enda þótt tryggingarfélög bæti tjón á eignum manna eftir slík slys verður aldrei bætt um vegna þeirra sem látast.
    Ég vil einnig geta þess að árlega eru teknir hér á landi 2400 -- 2500 ökumenn grunaðir um ölvun við akstur. Mikill meiri hluti þeirra, eða rösklega 2000, missir ökuréttindi vegna ölvunar við akstur. Þess ber að geta að það er almenn skoðun meðal löggæslumanna og þeirra sem eru sérfróðir á þessum vettvangi að þetta sé aðeins brot af ísjakanum, þetta sé aðeins örlítið brot af þeim fjölda manna sem aka undir áhrifum áfengis. Stundum er talað um að það séu þrefalt fleiri sem aka ölvaðir eða undir áhrifum áfengis en þeir sem nást.
    Ég vil láta það koma alveg skýrt fram í þessari umræðu að hér er ekki um það að ræða að flm. séu að hvetja til þess að fólk dragi almennt úr áfengisneyslu. Það á ekkert skylt við þetta mál, ekki neitt. Það eina sem hér er í raun gert er að draga mjög skarpa markalínu á milli áfengisneyslu og aksturs hvers konar ökutækja. Það á auðvitað að vera regla hjá hverjum einasta hugsandi manni að hann hreyfi ekki ökutæki eftir að hann hefur neytt áfengis, nákvæmlega sama hve magnið er lítið sem viðkomandi drekkur.
    Með þessu frv. er heldur ekki verið að skerða rétt einstaklinga til þess að meta og vega sjálfir hvort þeir eru færir um að aka bifreið eftir að hafa neytt áfengis. Einstaklingnum er einfaldlega gert ljóst að hann má ekki aka bifreið eftir að hafa neytt áfengis. Það verður að segja hins vegar að sjálfsmatið er frá honum tekið með þessu frv., ef það verður að lögum, enda held ég að leiða megi að því mjög gild rök að sjálfsmat einstaklinga hlýtur að skerðast verulega við neyslu áfengis, sjálfsmatið gagnvart því hvort viðkomandi er fær um að aka bifreið eða ekki.
    Með þessu frv. er heldur ekki verið að skerða rétt einstaklinga til að bera ábyrgð á sjálfum sér og eigin gerðum. Á þessum vettvangi ber hann ekki aðeins ábyrgð á sjálfum sér, einstaklingurinn sem neytir áfengis og ekur bifreið, heldur tugum og hundruðum annarra einstaklinga í umferðinni. Þetta vil ég að komi mjög skýrt fram hjá flm. þessa frv. og menn skilji

það að hér er ekki verið að leggja hömlur af neinu tagi á einstaklingana. Það er hins vegar verið að gera mönnum ljóst að áfengisneysla og akstur bifreiðar eða hvers konar ökutækis getur aldrei farið saman, má ekki fara saman og á ekki að fara saman. Það er alveg ljóst af könnunum sem gerðar hafa verið að mikill meiri hluti almennings í þessu landi telur að áfengisneysla og akstur ökutækja fari ekki saman.
    Mig langar, herra forseti, í örstuttu máli að fara yfir nokkrar staðreyndir sem ég held að sé nauðsynlegt að komi fram áður en þetta mál verður rætt frekar og tekið til skoðunar í nefnd. Það eru til tölur um ölvaða ökumenn síðan 1968. Þar kemur fram að skráður ölvunarakstur á Íslandi er hlutfallslega tíðari en á hinum Norðurlöndunum. Það kann hins vegar að stafa af því að eftirlit með ölvunarakstri sé betra hér en yfirleitt á hinum Norðurlöndunum og að við séum betur á varðbergi gagnvart þessum þætti mannlífsins en frændur okkar á hinum Norðurlöndunum.
Það kemur í ljós í þessari könnun að 16% Íslendinga hafa ekið undir áhrifum áfengis á móti 6 -- 7% á hinum Norðurlöndunum. Það má ráða af tölum um fjölda þeirra sem teknir eru árlega vegna ölvunaraksturs að um 1% þjóðarinnar sé kært fyrir meintan ölvunarakstur á hverju ári, en þetta er þrisvar til fjórum sinnum hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum. Það er erfitt að skýra af hverju þetta er svo, en nefnt hefur verið að okkar ágæta land sé strjálbýlt, samgöngur strjálar. En á það ber hins vegar að líta að mun fleiri eru teknir ölvaðir við akstur hlutfallslega í Reykjavík en annars staðar á landinu.
    Önnur leið til þess að meta og kanna hversu algengur ölvunarakstur er er að kynna sér hve oft fólk hefur verið í bíl með ölvuðum ökumanni. Í könnun nefndar um átak í áfengisvörnum og heilbrrn. í janúar 1989 sem endurtekin var í október sama ár segjast tæp 10% aðspurðra hafa verið í bíl með ölvuðum ökumanni einhvern tímann síðustu 12 mánuði.
    Í könnun sem Hagvangur gerði 1989 fyrir Umferðarráð var m.a. spurt hvort fólk hefði einhvern tímann setið í bíl með ölvuðum ökumanni. Þar svöruðu 29,5% játandi, 69% neituðu og 1,6% töldu sig ekki vita hvort svo væri.
    Samkvæmt skýrslum Umferðarráðs um þá sem aka ölvaðir eru um 85% karlar og 15% konur. Það er sem sagt mjög áberandi hversu karlar aka miklu oftar undir áhrifum áfengis en konur. Og yngri ökumenn eru í miklum meiri hluta þeirra sem aka ölvaðir.
    Einnig er áberandi hve margir þeirra sem teknir eru hafa mikinn vínanda í blóði. Á árunum 1985 til 1988 voru að meðaltali 420 ökumenn með 2 -- 2,49‰ vínanda í blóði og 180 með 2,5‰ eða meira.
    Þess ber einnig að geta, herra forseti, að hlutfall áfengistengdra dauðaslysa, eins og það er orðað á fagmannamáli, í umferðinni er um 25% og um 18% af slysum með miklum meiðslum. Hér er um lágmarkstölu að ræða því ekki eru gerð ölvunarpróf á ökumönnum sem lenda í slysum nema grunur leiki á að þeir séu ölvaðir.
    Það er líka fróðlegt að nefna afstöðu almennings til

ölvunaraksturs, en í þeirri könnun sem ég hef nú vitnað til var spurt um afstöðu fólks til reglna um leyfilegt vínandamagn í blóði ökumanna. Í janúarkönnun svöruðu 47% því til að reglurnar ættu að vera strangari en um 43% í októberkönnuninni.
    Í könnun sem ég hygg að Bindindisfélag ökumanna hafi gert á ölvunarakstri var m.a. spurt hve mikið áfengi ætti að leyfa ökumönnum að drekka. 52,4% sögðu að ekki ætti að leyfa neitt áfengi, 31,8% töldu að leyfa ætti áfengismagn sem næmi áfengismagni í einum bjór og 9,4% áfengismagn í tveimur bjórum.
    Það er sem fyrr ljóst að konur eru miklu ákveðnari fylgjendur algers áfengisbanns stjórnenda ökutækja en karlar. Þannig kemur í ljós að 62,3% kvenna vilja að menn hafi ekki heimild til að neyta áfengis af nokkru tagi, en 46,5% karla.
    Í annarri könnun sem gerð var kemur fram hvað margir segjast hafa ekið ölvaðir án þess að vera stöðvaðir. Þannig segjast 12,74% hafa ekið ölvuð einu sinni og 14,29% tvisvar eða oftar án þess að hafa verið teknir. Þetta gefur til kynna, herra forseti, að þetta vandamál sé miklu víðtækara en okkur grunar og tölur um töku manna sem aka ölvaðir gefa til kynna. Flestir þeirra sem teknir eru eru að koma af veitingastöðum eða 48% en 40% eru að koma úr heimahúsum. 5% eru þó á leið úr vinnu.
    Flestir þeirra sem setjast ölvaðir undir stýri virðast treysta því að lenda ekki í klóm lögreglu. Þrjátíu og sex gefa þá skýringu á ölvunarakstri sínum, en 32% telja sig hafa verið undir löglegum mörkum. Þarna kemur þetta stóra vafaatriði. 32% halda að þeir hafi verið undir leyfilegum mörkum sem segir mér a.m.k. þá sögu að það þurfi að draga þarna miklu, miklu skarpari markalínu þannig að aldrei sé vafi á því, þegar maður stígur upp í bifreið eftir að hafa neytt áfengis, að hann er að brjóta lög. Það þarf að vera mjög ákveðin og skörp regla um það.
    Í þessari könnun sem ég er nú að fjalla um er niðurstaðan sú að tæpur helmingur fólks sem tók þátt í könnuninni hafði ekið bíl undir áhrifum áfengis. Þetta er auðvitað mjög umhugsunarverð niðurstaða ef hún gefur mynd af því hvernig ástandið er í þessum efnum í þjóðfélaginu almennt.
    Þátttakendur í þessari könnun voru líka beðnir um að taka afstöðu til fullyrðingarinnar ,,Ölvaður ökumaður er hættulegur í umferðinni``. Rösklega 89% voru mjög sammála þessari fullyrðingu og 8,9% sammála. Það skiptist þarna í mjög sammála og sammála, eða samtals 98%.
    Það er mjög eftirtektarvert einnig í þeim könnunum sem gerðar hafa verið, þar sem fólk hefur verið spurt að því hvort herða ætti reglur varðandi ölvunarakstur, að það er unga fólkið sem er miklu ákveðnara í því að reglurnar eigi að vera strangari en þær eru nú en hinir fullorðnu. Þetta segir mér einfaldlega þá sögu að unga fólkið tekur á þessum málum á miklu raunsærri hátt en margir hinna fullorðnu sem eiga kannski að baki langa sögu í neyslu áfengis og líta á áfengi sem sjálfsagðan hluta af hinu daglega lífi

og jafnvel svo sjálfsagðan að þeir megi aka undir áhrifum áfengis.
    Herra forseti. Ég hirði ekki um að hafa mikið fleiri orð um þetta. Ég ítreka og endurtek það sem ég sagði í upphafi, að hér er fyrst og fremst verið að draga skarpa markalínu, gera öllum ljóst, það sem ég hygg að langflestum sé í raun ljóst, að áfengisneysla og akstur ökutækja fer ekki saman. Hér er verið að reka endahnút á tilraunir löggjafans til að gera almenningi ljósa grein fyrir því að akstur eftir neyslu áfengis er ólögmætur, óskynsamlegur, ábyrgðarlaus og veldur stórfelldri hættu úti í umferðinni, og hvar sem er, og hefur sannanlega valdið þessu þjóðfélagi feiknalegu tjóni, bæði í mannslífum og eignalega séð.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.