Umferðarlög
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég þarf kannski ekki að taka það fram að ég styð þetta frv. þar sem ég er einn af flm. En ég má til að vekja athygli á nokkrum atriðum sem fram hafa komið hér í máli manna. Það fyrsta sem mig langar að segja er að auðvitað er ég viss um að allir flm. þessa frv. mundu sjálfsagt vilja draga almennt úr notkun áfengis þó þetta frv. sé alls ekki um það. Þarna er fyrst og fremst verið að tala um að leyfilegt vínandamagn í blóði ökumanns verði lækkað. Það þýðir að fólk þarf ekki að velkjast neitt í vafa, það veit að ekki er um að ræða að drekka hvorki einn bjór, eitt vínglas eða neitt og fara svo út að keyra. Það er einmitt það sem fólk hefur alltaf verið að velta fyrir sér. --- Ég get örugglega tekið einn bjór, það gerir ekkert til og svo get ég keyrt. --- En nú þarf ekki að vera vafi í huga fólks.
    Ef mörkin væru 0‰ gæti fólk ekki einu sinni tekið lyf sem alkóhól væri í, það gæti ekki drukkið malt eða pilsner. Aðaláherslan sem við leggjum á hér er að akstur og áfengi fer ekki saman og fólk á ekki að þurfa að velta því fyrir sér.
    Vegna orða hv. 2. þm. Vesturl. Friðjóns Þórðarsonar vil ég segja að ég er viss um að löggæslan yrði ódýrari og miklu auðveldara fyrir löggæslumenn vegna þess að núna er fólk að taka áhættuna. Það er miklu erfiðara fyrir fólk að meta það hvort það getur keyrt eða ekki keyrt en það á að vita að um leið og það ákveður að drekka áfengi þá á það ekki að keyra.
    Vegna messuvínsins sem hv. 5. þm. Vesturl. var að tala um áðan gildir að sjálfsögðu það sama og með lyf að það er allt í lagi þó fólk taki einn lítinn sopa eða eina teskeið af messuvíni, það hækkar ekki vínandamagnið í blóðinu. Það er nákvæmlega það sama og lyf eða pilsner eða malt sem ekki hækkar vínandamagnið í blóði upp fyrir það mark sem hér er gert ráð fyrir. Það hlýtur að vera greinilegt og stendur í greinargerðinni, með leyfi forseta: ,,Sú lækkun á vínandamagni í blóði, sem hér er lögð til, kemur ekki í veg fyrir að almenningur geti notað lyf með vínanda í eða drukkið léttan pilsner.`` Þetta hlýtur hv. þm. að geta skilið og þarf ekkert að vera að hártoga það sem hér stendur. Ég tel það vera langt frá því að vera neitt út í öfgar að leggja til að lækka þau vínandamörk sem mega vera í blóði ökumanna sem þarna er um að ræða.