Umferðarlög
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir kom inn á það að þetta mundi efla löggæslu og eftirlit. Ég sé hreinlega ekki hvernig þetta eflir löggæslu og eftirlit, ( KE: Auðveldar.) alls ekki eftirlitið. Og ég sé ekki hvernig það er auðveldara heldur. Lögreglunni er uppálagt að fylgjast með ökumönnum og gera athugasemdir við þá sem keyra á einhvern hátt þannig að það kallar á að athugasemdir séu gerðar. Þetta hjálpar ekkert við það, ekki á nokkurn einasta hátt, þannig að þessi röksemd í þessu máli er algerlega út í hött.
     Mér þykir leitt að kollegi minn úr Vesturlandi, hv. þm. Friðjón Þórðarson, er farinn því að hann gerði hér að umræðuefni koníaksskolun á munni. Ég er nú sammála flm. þessa frv. að mér finnst illa farið með ágætar veigar að spýta því síðan út úr sér og hvet til þess að slíkt sé ekki gert, sérstaklega kannski í ljósi þess að sjálfur hef ég örlítilla hagsmuna að gæta þar.
    Fyrsti flm. sagðist ekki vera refsiglaður maður. Það er ég ekki heldur. Hann hlýtur að gera sér grein fyrir því alveg eins og ég að það þarf ekki endilega að taka alla þá sem staðnir eru að verki við ölvunarakstur og stinga þeim beint inn á Litla - Hraun, eða inn á níuna á Skólavörðustíg eða einhverja aðra slíka staði. Það eru til aðrar leiðir til að refsa mönnum en að stinga þeim í fangelsi. Það má setja þá hér út á götur að sópa eða eitthvað slíkt, sem þeim þætti sennilega öllu verra en að fara í fangelsi, þannig að það þarf ekki endilega að stinga þeim í félagsskap með forhertustu glæpamönnum þjóðarinnar. Og frelsissvipting er þá ekki til staðar lengur þannig að þegar ég er að tala um að auka refsingar, þá er það ekki endilega í þá veru eins og gamla kerfið býður upp á, eingöngu að stinga mönnum í fangelsi.
    Mér þykir skjóta skökku við þegar flm. þessa frv. eru að reyna að segja það að messuvín sé ekki áfengi. Mér finnst það bara gersamlega út í hött, gersamlega. Fyrir það fyrsta heitir það nú vín, fyrir það annað er það ekki selt gegn lyfseðli gegnum apótek, þetta er ekkert lyf. Það segir enginn að messuvín sé lyf. Fyrir það þriðja er þetta einkasöluvara, seld í ÁTVR og þar með staðfest sem áfengi. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvar eru mörkin? Í einu falli segja: Það má ekki drekka áfengi. Ef þú drekkur áfengi, þá máttu ekki keyra bíl. Næst að segja: Jú, þú mátt drekka ákveðna tegund áfengis. Ákveðna tegund máttu drekka. Þú mátt drekka messuvín. Þetta passar bara engan veginn saman og þá hlýtur maður að segja: Hvar eru mörkin? Má ég drekka svona mikið af sjerrí, eitthvað smávegis? Eða má ég drekka svona mikið? Þetta er alls ekki ljóst þannig að ég ítreka að það verður náttúrlega að fá álit kirkjuþings á þessu. Þetta er mjög alvarlegt mál fyrir kirkjuna í landinu.
    Hv. flm. kom inn á það sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni að mönnum væri það kannski ekki ljóst hvort þeir væru með ólöglegt alkóhólmagn í blóði eða ekki. Auðvitað sneri hann út úr því fyrir mér eða hlustaði ekki, ég veit ekki hvort það var. En ég taldi

mig lýsa því svona þokkalega í fyrri ræðu minni að það sem ég var með í huga var það þegar menn hafa farið á hreinræktað íslenskt fyllerí, svo að maður noti nú bara íslensku, hreinræktað íslenskt fyllerí, eru að sumbli á skemmtistað, sem eru opnir til kl. 3, eru komnir heim við skulum segja fjögur -- hálffimm, sofnaðir, við skulum lofa þeim að sofa dálítið lengi, segjum til hádegis, kl. 1, keyra bílinn sinn kl. 4 -- 5 um eftirmiðdag daginn eftir. Þeir eru ólöglegir. Það er of mikið magn í blóðinu, en þeir gera sér ekki grein fyrir því. Það er þarna sem ég var að segja að ætti að reka beinskeyttari áróður, gera mönnum grein fyrir því hve alkóhól er lengi í blóði einstaklings. Það var þetta sem ég var að tala um, ekki að menn fengju sér í glas og færu síðan að keyra nokkrum tímum seinna. Það er mikill greinarmunur á því.
    Allir sem um þetta mál fjalla vilja að sjálfsögðu draga úr slysum. En ég er ekki sannfærður um það að þetta dragi úr slysum, ég er alls ekki sannfærður um það og til þess að fá þá fullvissu um það mundi ég vilja vita hve margir voru valdir að slysum á þessu bili, frá því að vera með 0,25‰ alkóhólmagn í blóði og upp í 0,5‰ sem verið er að lækka það úr. Ég tel að þær upplýsingar þurfi nauðsynlega að liggja fyrir.
    Sælgæti var tekið hér út úr af flm. áðan. Hér er selt sælgæti með fljótandi vínanda í og það er þekkt að menn sem vakna illa haldnir á sunnudagsmorgnum kaupa sér heilu kassana af þessu og éta þetta til þess að halda sér við, heilu kassana af þessu. Auðvitað verður að taka þetta út, þetta er áfengi og ekkert annað. Menn verða að stíga skrefið til fulls, menn verða að meina það sem þeir eru að segja.