Almannatryggingar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svar hans og vænti þess að það fari svo sem hann sagði, að stjórnarandstaðan fái að sjá þetta nefndarálit, sem hann kýs nú ekki að kalla frv. Þó það kæmi frá nefndinni, að hann segir, sem fullbúið frv. telur hann að ekki sé hægt að leggja það fram í því formi sem það er. En það var að skilja í kynningu að þetta væri fullbúið til framlagningar á þingi og var nokkuð erfitt að skilja þann drátt sem á því er orðinn.
    Ég vil undirstrika það enn að í þessu frv. eru, eftir því sem kom fram í kynningu á því, ýmis ákvæði sem snerta fjárlögin. Mér sýnist að nokkuð erfitt verði að samþykkja fjárlög ef ekki er búið að ákveða hvort af ýmsum ráðstöfunum verður sem þetta frv. ber í sér að því er varðar tekju - og gjaldahlið fjárlagafrv. Hins vegar dettur mér ekki í hug að þetta frv. renni athugasemdalaust í gegnum þingið. Þetta er mál sem allir landsmenn, held ég, hafa sérskoðun á og það kann að verða erfitt að samræma sjónarmið þannig að allir geti á þau sæst.
    En allt um það þá þakka ég ráðherra svör hans og vænti þess að við sjáum þetta frv. fyrr en seinna.