Bætur vegna afturvirkni skattalaga
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að það er sérkennileg notkun á þingsköpunum að flytja fsp. sem svarað er sæmilega fljótt, en vera svo búinn að flytja frv. um málið áður en fsp. er svarað. Við hefðum því kannski getað sparað okkur þessa umræðu, hv. þm., og rætt um málið þegar mælt verður fyrir frv. En látum það vera þó að þetta sé tekið fyrir svona með þessum hætti. Ég skal á fimm mínútum reyna að svara þeirri spurningu sem hér er borin fram.
    Lögin um vaxtabætur voru samþykkt á Alþingi 31. maí 1989. Í tengslum við þau og framkvæmd þeirra hafa menn leikið sér að því að toga hugtakið afturvirkni yfir á alveg nýtt merkingarstig. Auðvitað er hægt að rugla málin þannig því afturvirkni er frekar neikvætt orð og því er gefin ný merking sem með engum hætti samræmist þeirri almennu venju sem tíðkast hefur hér á landi varðandi lagasetningu. Það er alveg ljóst að með þessum lögum var með engum hætti brotið gegn þeim almennu venjum sem hér hafa tíðkast um áratugi varðandi lög og réttarfar.
    Í lögunum voru felld ur gildi ákvæði eldri laga um vaxtaafslátt og húsnæðisbætur. Þó var kveðið á um það í þessum lögum að allir þeir sem fengið hefðu úrskurð um húsnæðisbætur fyrir gildistöku laganna skyldu halda þeim rétti að fullu í þau sex ár sem hann gilti. Þessum aðilum var hins vegar gefinn kostur á að koma inn í vaxtabótakerfið við álagninguna árið 1990, enda ljóst að það nýja kerfi mundi koma mun betur út fyrir einstaklinga með þunga vaxtabyrði og miklar skuldir. Einnig var í því nýja kerfi ekki um að ræða tímamörk á réttindunum eins og var í eldri lögum. Það er því alveg ljóst, ef kerfin tvö eru borin saman, að það nýja kerfi sem tekið var upp með lögunum frá því í fyrra er mun hagstæðara fyrir einstaklinga sem hafa raunverulega þunga vaxtabyrði samanborið við þeirra tekjur. Hjá þeim einstaklingum sem hugsanlega kunna að fara verr út úr vaxtabótakerfinu en húsnæðisbótakerfinu, þegar þessi tvö kerfi eru borin saman, er ástæðan annaðhvort sú að vaxtagjöld einstaklinganna ná ekki lágmarksviðmiðun, þ.e. 6% af tekjum, eða vaxtagjöldin eru kannski engin --- það er auðvitað mjög sérkennilegt þegar verið er að tala um afturvirkni gagnvart einstaklingum sem hafa engin vaxtagjöld --- eða þá að skuldlausar eignir eru umfram lágmarksviðmiðun.
    Það er auðvitað rétt að menn átti sig á því þegar verið er að tala um eitthvert misrétti í þessum samanburði að annaðhvort eru menn þá að tala um einstaklinga sem hafa lítil eða jafnvel engin vaxtagjöld eða þá að skuldlausar eignir eru umfram lágmarksviðmiðun. Hins vegar má segja að við þessa breytingu, eins og ýmsar aðrar breytingar, geti komið fram tilvik, einhver fáein, gagnvart einstaklingum sem hægt er að líta á.
    Rétt er þó að vekja athygli á því að um áraraðir hafa verið gerðar breytingar á skattalögum, varðandi skatthlutfall, barnabætur, vaxtaendurgreiðslu og annað, og hefur iðulega verið gert þegar viðkomandi

tekjuári er lokið. Að þessu leyti er enginn munur á þeim lögum sem sett voru hér í fyrra og skattalögum sem sett hafa verið á Alþingi um langt árabil, enda sérfræðingar samdóma í þeim efnum.
    En eins og ég var að víkja að hér, virðulegi forseti, þá er rétt að vekja athygli á því að með lögum nr. 117/1989 var gerð breyting á því hvaða vextir teldust til vaxtagjalda og var þar um þrengingu að ræða. Þá var ákveðið að hvorki teljist til vaxtagjalda hjá seljanda áfallnar, uppsafnaðar verðbætur á lánum sem kaupandi yfirtekur við sölu íbúðar né heldur uppsafnaðar, áfallnar verðbætur á lán skuldara sem hann greiðir á lánstíma umfram ákvæði viðkomandi skuldabréfs. Ákveðið var að þessi breyting tæki til vaxta sem greiddir voru á árinu 1989. Þetta getur hafa haft það í för með sér að einstakir menn hafa fengið lægri vaxtabætur á árinu 1990 en verið hefði ef umrædd breyting hefði ekki gilt frá 1. jan. 1989. Þess vegna má telja að sanngjarnt hefði verið að umrædd breyting hefði ekki komið til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1990. Ég hef því ákveðið að leggja fyrir hv. Alþingi frv. þar sem kveðið verður á um það að framangreind breyting öðlist ekki gildi fyrr en 1. jan. 1990 og að heimilt verði að hækka vaxtabætur á árinu 1990 vegna vaxta sem greiddir voru á árinu 1989, í þeim tilvikum þar sem það á við.