Bætur vegna afturvirkni skattalaga
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Svar fjmrh. einkenndist venju samkvæmt æði mikið af útúrsnúningum og skítkasti í garð þeirra sem hafa gagnrýnt hann í þessu máli. Það liggur alveg fyrir að það er ekkert verið að deila hér um mismuninn annars vegar á vaxtabótakerfi og húsnæðisbótakerfi. Málið snýst ekkert um það. Það snýst einfaldlega um það að lögin um að breyta úr húsnæðisbótum yfir í vaxtabætur voru sett með afturvirkum hætti. Það var fullt af fólki á árinu 1988 og fyrri hluta árs 1989 sem gerði ráðstafanir til húsnæðisöflunar í þeirri góðu trú að lögin, sem þá giltu, héldu gildi sínu áfram.
    Sama er að segja um þá sem gerðu ráðstafanir með tilliti til ákvæða um skilgreiningu á vaxtagjöldum, eins og ráðherrann útskýrði hér áðan. Ég vil nota tækifærið og fagna því að hann hefur séð að sér varðandi þetta tiltekna atriði og ætlar að breyta gildistöku þeirra ákvæða og bæta fólki þar með upp það tjón sem það varð fyrir þegar sett voru í desember á síðasta ári, að hans undirlagi, lög sem giltu fyrir allt árið í fyrra. Ef þetta er ekki afturvirkni skattalaga og ef það þarf að fara hér í einhverjar orðskýringar og viðhafa einhverja orðaleppa um það hvað orðið afturvirkni þýði þá held ég að fjmrh. standi höllum fæti í slíkri umræðu.
    Ég held að það sé ástæða til að benda á að vegna þeirrar deilu sem upp kom í sumar og vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið þá hefur a.m.k. tekist að fá ráðherrann til þess að leiðrétta þetta mál að hluta til þó þar sé auðvitað ekki nærri nógu langt gengið. Ég býð honum enn á ný til samstarfs um að afgreiða það frv. sem nú liggur fyrir á borðum manna frá þeim sem hér stendur um að afgreiða þessa afturvirkni og leiðrétta hana gagnvart öllum, en ekki bara sumum.