Flugmálaáætlun
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson) :     
    Virðulegi forseti. Í svari hæstv. samgrh. fólst ein mikilvæg niðurstaða þar sem ráðherrann segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um þær breytingar sem Flugmálastjórn leggur til í bréfi fjvn. Nú er mér hins vegar fullkunnugt um að sumum þeim framkvæmdum sem ekki voru inni á flugmálaáætlun í ár er búið að ljúka eða er verið að vinna að. Hvernig má það vera að hæstv. samgrh. komi hér upp og segi það eitt að ekki sé búið að taka ákvarðanir þegar jafnvel er búið að vinna framkvæmdirnar? Og ráðherrann segir enn fremur að það sé þá ástæða til þess að líta eftir því hvort afla eigi heimilda til þess að gera þær breytingar sem til þarf.
    Það er alveg augljóst af þessu svari að málið er í miklu erfiðari stöðu en ætla mátti því ráðherrann sjálfur virðist ekki hafa fallist á að gerðar yrðu þær breytingar sem hér um ræðir, og spurt er um, og að hér hafi verið um einhendis ákvarðanir Flugmálastjórnar að ræða. Þá fer nú málið að líta virkilega alvarlega út ef embættismenn gera þær breytingar á ákvörðun Alþingis sem hér liggur fyrir að gerðar hafa verið. Og það er alveg augljóst að slíkar ákvarðanir hafa verið teknar mjög fljótlega eftir að Alþingi afgreiddi flugmálaáætlun á sl. vori. Það hlýtur því að koma til álita og ákvörðunar þessa þings hvort hér verður látið staðar numið eða þær breytingar gerðar og ákvarðanir teknar sem eru í samræmi við þær venjur og þær reglur sem gilda um ákvarðanir Alþingis, um framkvæmdaáætlanir, t.d. vegáætlun og flugmálaáætlun.