Sumarvegur um Sprengisand
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda lá ekkert fyrir um það og var reyndar ekki á áætlun af hálfu Landsvirkjunar að leggja þessa línu með tilheyrandi vegagerð fyrr en um miðjan síðasta áratug aldarinnar. Þegar skýrsla kom út um hálendisvegi haustið 1988, unnin af Trausta Valssyni í samráði við samgrn., Vegagerð og Landsvirkjun, töldu menn því allnokkurn tíma til stefnu til þess að vinna úr þeirri skýrslu og fylgjast með framvindu málsins og það var reyndar gert og rætt, t.d. milli Vegagerðar og ráðuneytis og við fleiri aðila. Þegar síðan kom í ljós á þessu ári að áform um virkjanir gætu breytt verulega tímaáætlun í þessum efnum var málið tekið upp á nýjan leik og samstarfshópur um þessa vegarlagningu hefur hist og fundað og ritað ráðuneytinu bréf, eða ráðuneytum og ráðherrum því að hér koma að sjálfsögðu fleiri við sögu en samgrn. eitt. Þannig fengum við 24. okt. sl. erindi frá þessum starfshópi, forsrh., samgrh., iðnrh. og umhvrh., þar sem þessum hugmyndum er fylgt eftir og minnt á nauðsyn þess að taka þær nú upp á borðið ef af áformum um að hraða línulögn og vegarlagningu norður yfir hálendið verði. Í framhaldi af þessu var haldinn fundur í samgrn. í síðasta mánuði með ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra, sérfræðingum frá Vegagerð og verkfræðingi frá Landsvirkjun og Trausta Valssyni skipulagsfræðingi. Þar var rætt um nauðsyn þess að koma strax á samstarfi þeirra aðila sem hlut eiga að máli þannig að í allri undirbúningsvinnu og hönnunarvinnu, sem kynni þá að hefjast undir lok þessa árs, yrði sá möguleiki hafður í huga að Vegagerð ríkisins kæmi inn í framkvæmdaáform Landsvirkjunar og þar yrði því um að ræða eitthvað vandaðri og betur skipulagðan veg en einfaldan línuveg, eins og það er kallað.
    Það lítur út fyrir að unnt sé að ná með tiltölulega litlu viðbótarfjármagni, sem þá kæmi frá Vegagerðinni, talsverðum árangri í því að gera slíkan veg betur úr garði. Þá erum við sérstaklega að hugsa um að vegarstæðið sjálft sé valið með það í huga að þar geti í framtíðinni byggst upp öflugri vegur. Það liggur í hlutarins eðli að það er af praktískum ástæðum, hvað kostnað snertir, æskilegt að haga því þannig, en það er líka að okkar mati umhverfisverndarmál að ekki sé byrjað á því að leggja ófullkominn, krókóttan veg sem síðan þurfi e.t.v. að afleggja og leggja nýjan og beinni veg í landinu. Þarna eru menn ekki síst að hugsa um vegarstæðið niður Bleiksmýrardal svonefndan, ef hann yrði fyrir valinu sem aðaltenging af hálendinu sunnan lands, eða miðhálendinu, niður til Norðurlands samsíða þá raflínulögn niður þann sama dal sem er einna lengstur og fegurstur allra norðlenskra dala, eins og kunnugir menn þekkja, og teygir sig langleiðina inn undir Fjórðungsöldu.
    Ég vona að það svari fyrirspurninni að það eru þegar í gangi aðgerðir til þess að reyna að tengja þessa aðila saman ef af því verður að hraða svo þessum áformum að ekki er góður tími til stefnu til þess

að menn hefðu þá möguleika á því að undirbúa slíkt samstarf í rólegheitum á næstu árum ef framkvæmdin kæmi ekki til sögunnar fyrr en að nokkrum árum liðnum.
    En ég legg á það áherslu að hér er fyrst og fremst verið að ræða um að koma þessu samstarfi á í sambandi við hönnun og skipulagningu á fyrsta stigi. Hvað úr framkvæmdum af hálfu hins opinbera, þ.e. Vegagerðar ríkisins, verður er svo að sjálfsögðu sjálfstætt ákvörðunaratriði í tengslum við afgreiðslu vegáætlunar og fjárlaga.