Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef hér leyft mér að gera fyrirspurn til hæstv. samgrh. um póstflug frá Ísafirði til Hólmavíkur og Reykhóla. Með fyrirspurn þessari er leitað svara hæstv. samgrh. um hvað gert hafi verið til að komið verði á póstflugi frá Ísafirði til Hólmavíkur og Reykhóla. Hér er um að ræða mál sem varðar samgöngur innan Vestfjarðakjördæmis og er því mikilvægt þeim sem það varðar.
    Nú er haldið uppi póstflugi frá Ísafirði til allra þéttbýlisstaða á Vestfjörðum nema Hólmavíkur. Ekki er heldur um að ræða póstflug til Reykhóla, en þar er miðstöð byggðarlaganna í Reykhólahreppi og Austur - Barðastrandarsýslu svo sem kunnugt er. Og á Reykhólum er fyrir hendi flugvöllur sem gerir mögulegt að þangað verði um að ræða póstflug eins og til þéttbýlisstaðanna.
    Það þarf ekki hér að fjölyrða um mikilvægi þessa máls fyrir greiðar póstsamgöngur og enn fremur á að geta fylgt þessu póstflugi einhver þjónusta við flutning vöru og farþega.
    Á þingi fjórðungsþings Vestfjarða var samþykkt 1. sept. sl. svohljóðandi ályktun, með leyfi forseta:
    ,,Þingið ályktar að komið verði á fót póstflugi frá Ísafirði til Hólmavíkur og Reykhóla með svipuðum hætti og er til annarra þéttbýlisstaða á Vestfjörðum.``
    Tilvitnun er lokið en það er óskað svars hæstv. ráðherra um hvað þessu máli líði.