Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Um miðjan síðasta mánuð barst samgrn. bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga þar sem sú ályktun, sem fyrirspyrjandi vitnaði í, var send um að flugfélaginu Erni hf. yrði auðveldað að koma á fót póstflugi á leiðinni Ísafjörður - Hólmavík - Reykhólar. Í bréfinu sagði að þess væri vænst að ráðuneytið stuðlaði að því að komið yrði á viðræðum milli flugfélagsins Ernis og póstmálayfirvalda og eftir atvikum yrði unnið að því að koma á umgetnu póstflugi. Þetta bréf sendi ráðuneytið ásamt ályktun þingsins Póst - og símamálastofnuninni til umsagnar. Í svari stofnunarinnar segir svo:
    ,,Með skírskotun til bréfs ráðuneytisins dags. 15 þ.m.``, þ.e. októbermánaðar, ,,og þar greindra fylgiskjala skal upplýst að af hálfu Póst - og símamálastofnunarinnar hefur ávallt verið áhugi á því að reglulegu póstflugi yrði komið á milli Ísafjarðar, Hólmavíkur og Reykhóla. Um þennan áhuga er flugfélaginu Erni hf. fullkunnugt. Með hliðsjón af þessu skal tekið fram að Póst - og símamálastofnunin er reiðubúin að greiða fyrir póstflutninga til þessara staða með sama hætti og gert er á öðrum leiðum félagsins innan Vestfjarða og er reiðubúin til viðræðna við það um þetta efni. Greiðslur fyrir póstflutninga munu þó aldrei geta numið nema hluta af kostnaði við slíkar ferðir``, segir í bréfi Póst - og símamálastofnunar. Þessi umsögn Póst - og símamálastofnunar er nýkomin til samgrn. og mun ráðuneytið taka þetta mál upp við flugfélagið og koma í framhaldinu af því á þessum viðræðum milli flugfélagsins og fulltrúa Póst - og símamálastofnunar.
    Hins vegar er alveg ljóst að hér er um að ræða það litla flutninga miðað við kostnað við flugrekstur á leiðinni að núverandi greiðslur Póst - og símamálastofnunar fyrir þessa þjónustu munu ekki duga til þess að halda þarna uppi, að því er virðist, ábatasömum eða lífvænlegum rekstri. Þess er og að geta að umrætt flugfélag á í vissum erfiðleikum sem komið hefur fram. Svipað má reyndar segja um fleiri landsbyggðarflugfélög. Þar er við erfiðar aðstæður haldið úti rekstri sem er gríðarlega mikilvægur fyrir samgöngur á viðkomandi svæðum en rekstrarlegur grundvöllur er mjög tæpur. Ráðuneytið hefur þess vegna verið að skoða stöðu svæðisflugfélaganna út frá þjónustu við fámennustu og afskekktustu staðina sérstaklega. Það eru fordæmi fyrir vissum stuðningi frá hinu opinbera, t.d. til flugs til Grímseyjar eftir að ferjusamgöngur lögðust þar af á sínum tíma og til flugfélagsins Ernis, en samvinnunefnd samgöngumála úthlutaði nokkurri fjárhæð á fjárlögum þessa árs sem að mestu leyti hefur verið varið til að styrkja loftflutninga til einangraðra staða á Vestfjörðum. Vissulega getur því komið til greina að horfa á þetta í því ljósi og að til viðbótar því sem Póst - og símamálastofnun getur greitt í gegnum venjulega gjaldskrá fyrir slíka flutninga kæmi til einhver beinn stuðningur hins opinbera ef það er af samgöngupólitískum ástæðum metið svo mikilvægt að koma á eða viðhalda slíkum samgöngum.
    Ég vil þess vegna segja að lokum að ég tel að áður en endanleg ákvörðun er tekin í þessu tilviki, sem og öðrum sambærilegum, þurfi að meta þörfina eftir bestu getu, hve mikið þurfi til að þær samgöngur sem þarna um ræðir komist á og sá rekstur geti gengið eðlilega fyrir sig. Menn verða líka að hafa í huga þegar póstsamgöngurnar sjálfar eru ræddar að tæknin kann að breyta ýmsu, og er reyndar þegar farin að breyta ýmsu, í þessum efnum. Tilkoma myndsendinga af ýmsu tagi um þráð eða með örbylgjum hefur gert bréfleg samskipti möguleg með áður ókleifum hætti milli staða. Þess vegna þarf að sjálfsögðu, ekki síður en að horfa á ástandið eins og það er í dag, að reyna að meta hvernig aðstæður verða í framtíðinni og það erum við að sjálfsögðu tilbúnir til að gera. En áhugi bæði ráðuneytis og Póst - og símamálastofnunar liggur fyrir og spurningin um það hvort þetta reynist kleift eða ekki snýr miklu frekar að því hvort unnt verður að brúa það bil sem virðist vera á milli sjáanlegra tekna af flugrekstrinum og óhjákvæmilegs kostnaðar.