Vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að vekja hér máls á þessu mikilvæga samgöngumáli. Þetta mál hefur, eins og hann réttilega sagði, verið lengi til umræðu og íbúar beggja vegna Gilsfjarðar hafa lagt á það þunga áherslu að þessi samgöngubót næði fram að ganga og yrði að veruleika.
    Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni var í fyrra haldinn fundur í Króksfjarðarnesi sem m.a. hæstv. samgrh. sótti. Þann fund sóttu allir þingmenn Vesturl. en því miður voru forföll, af fullkomlega eðlilegum ástæðum að sjálfsögðu, hjá þingmönnum Vestfjarða þannig að aðeins einn þeirra kom því við að sækja fundinn. Það var heldur óheppilegt en við því var auðvitað ekkert að segja.
    Á þessum fundi kom fram mjög eindreginn vilji og mjög eindregin samstaða hjá þeim sem þar voru um nauðsyn þessarar framkvæmdar. Því eins og hv. flm., 1. þm. Vestf., réttilega rakti í sinni ræðu, þar sem hann gerði góða grein fyrir forsendum málsins, er fjörðurinn farartálmi hinn versti. Vegurinn um Gilsfjörð er beinlínis mjög hættulegur á vetrum og segja má að það sé mesta mildi að þar skuli ekki hafa orðið slys. Þessi framkvæmd er í rauninni forsenda byggðar á þessu svæði. Þetta er jaðarsvæði sem nú á í vök að verjast af ýmsum ástæðum og þetta er forsenda þess að fólk haldi áfram búsetu á þessum slóðum.
    Við getum talað endalaust um byggðastefnu og nauðsyn þess að þar sé skynsamlega á málum haldið, en þegar öllu er á botninn hvolft og allt kemur til alls þá eru það samgöngurnar sem eru undirstaða byggðastefnunnar. Góðar og greiðar samgöngur eru undirstaða búsetu á þessum stöðum. Og þær eru ekki bara undirstaða búsetu, þær eru undirstaða búrekstrar, sem er aðalatvinnugreinin á þessum slóðum, og þær eru undirstaða allrar annarrar starfsemi á sviði þjónustu og iðnaðar eða annars rekstrar.
    Ég held að menn hafi mjög til þessa vanmetið samgönguþáttinn í byggðastefnunni. Ég held að menn séu fyrst núna að vakna til vitundar um það að engri byggðastefnu verður fylgt af neinu viti nema samgöngur séu í góðu lagi. Þær eru forsenda alls annars sem á eftir kemur. Ég held að við höfum of seint gert okkur grein fyrir þessu og þess vegna vanrækt samgönguþáttinn, varið fjármunum til ýmissa annarra hluta sem ekki hafa skilað sér sem skyldi vegna þess að samgönguþátturinn var ekki í nægilega góðu lagi.
    Ég lýsti á fundinum í Króksfjarðarnesi stuðningi við að haldið yrði á málum með mjög svipuðum hætti og þessi tillaga gerir ráð fyrir, þ.e. að framkvæmdir gætu hafist á þeim tíma eða þar um bil, ef ekkert annað hindrar, sem þessi tillaga gerir ráð fyrir. Ég veit að íbúar þessara svæða treysta þeim loforðum sem á þessum fundi voru gefin. Ég mun a.m.k. gera mitt hér á hinu háa Alþingi til þess að við það verði staðið.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð fleiri, en ítreka þakkir til flm., 1. þm. Vestf., fyrir að hafa tekið málið hér upp og þykir aðeins miður að

ekki skuli fleiri af félögum mínum úr Vesturlandskjördæmi vera hér til að taka undir í þessu máli.