Vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Flm. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir hans undirtektir við þetta mál og vinsamleg orð sem hann lét falla um nauðsyn þessara framkvæmda. Það er mér og vafalaust öllum þingmönnum og íbúum þessara héraða, bæði Barðastrandarmegin sem Dalasýslumegin, mikil ánægja að heyra jafnvelviljaðar undirtektir.
    Sömuleiðis vil ég þakka hv. 3. þm. Vesturl. fyrir þau orð sem hann lét hér falla og tek undir allt það sem hann sagði í þessu sambandi og þann fund sem hann vitnaði í. Seinna um veturinn varð fundur aftur, í febrúar eða mars, með þingmönnum úr báðum þessum kjördæmum. Ég vitna til þess í greinargerð að á sl. vetri var haldinn fundur með alþingismönnum þessara tveggja kjördæma og fulltrúum heimamanna sem þá knúðu á þingmenn um framkvæmdir í þessu mikilvæga samgöngumáli. Á þeim fundi kom skýrt fram að allir þingmenn vildu hraða framkvæmd þessari en töldu litlar líkur á að fjármagn fengist fyrr en vegar- og brúargerð yfir Dýrafjörð væri um það bil að ljúka. Síðan er sagt frá því að sú langþráða framkvæmd sé komin á fullt og vonir standi til að henni ljúki á næsta hausti að því undanskildu að slitlag verður ekki komið á fyrr en 1992.
    Ég vil aðeins benda á það til viðbótar því sem ég sagði áðan um ástand vega í Gilsfirði að þarna er mikil snjóflóðahætta og skriðuföll sem hafa oft nærri valdið stórslysum. Fólk segir: Af hverju er ekki farið í framkvæmd eins og þessa fyrr? Af hverju er henni ekki lokið? Það er þetta sama svar að við höfum ekki þá peninga, þessi þjóð.
        Ég tek undir það sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði að áhugi manna og skilningur er að aukast á því að samgöngumál, og þá sér í lagi vegamál, eru byggðamál og jafnvel meiri byggðamál en nokkuð annað. Og ég held að framtíð byggðar í Reykhólahreppi eða í hinni gömlu Austur - Barðastrandarsýslu, og framtíð byggðar á norðanverðum Vestfjörðum sé komin fyrst og fremst undir þessum tveimur framkvæmdum, framkvæmdum fyrir Gilsfjörð og jarðgöngum gegnum Breiðadals - og Botnsheiði. Ég held að þegar fólkið sér ekki og finnur ekki að neitt eigi að gera, þá gefist það upp og þá þurfi menn ekki að hafa áhyggjur af þessum byggðum lengur. Þetta vona ég að þingmenn, hvaðan sem þeir eru af landinu, komi til með að skilja mun betur en gert hefur verið og mér finnst einhvern veginn það liggja í loftinu að þessi skilningur sé mikið að aukast.