Vegakerfið milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Hér er hreyft einu af mörgum, stórum og mikilvægum málum á sviði samgangna og vegagerðar. Það er nú reyndar svo, sem eðlilegt má kallast með tilliti til mikilvægis samgangnanna, að fyrir þessu Alþingi, sem enn hefur ekki starfað nema þrjár vikur réttar, liggja nú fyrir allmargar tillögur um samgöngumál á landi í mismunandi landshlutum.
    Hér er 43. mál um vegakerfið milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Í morgun var svarað fyrirspurn um gerð sumarvegar yfir Sprengisand. 45. mál er um stefnumörkun um jarðgangagerð á Austurlandi og heildarútboð framkvæmda. 52. mál er tvöföldun Reykjanesbrautar, 62. mál er könnun á gerð jarðganga og vegarlagningu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, 24. mál er um vegar - og brúargerð yfir Gilsfjörð, 71. mál er um brúarframkvæmdir á Suðurlandi og kann vel að vera að mér hafi yfirsést eitthvað í bunkanum þegar ég hljóp í gegnum hann áðan.
    Þetta segi ég ekki til að draga athyglina frá þessu þarfa og ágæta máli sem hér er verið að víkja að og ég hef sjálfur hugleitt, heldur til þess að minna menn á hversu víða samgöngurnar koma við og margir eiga þar mikilla hagsmuna að gæta. Ég held að það sé alveg hárrétt metið hjá flm. að það er eðlilegt að horfa með nokkuð nýjum hætti til skipulags framtíðarsamgangna á Vestfjarðasvæðinu núna í kjölfar ákvarðana um að hefja og hraða jarðgangaframkvæmdum á norðanverðum Vestfjörðum með tilkomu brúar yfir Dýrafjörð og vonandi vegtengingu um utanverðan Gilsfjörð innan tíðar. Með tilkomu ferju yfir Breiðafjörð hafa ýmsar aðstæður breyst eða munu breytast á næstu árum. Og hér er bætt við upplýsingum um fleiri vegamál sem mætti telja, svo sem í Árneshreppi norður.
    Með þessum breytingum sem ég var að nefna held ég að sé komið tilefni til þess að líta á nýjan leik á Vestfjarðasvæðið og þá ekki síst hvar aðaltenging norðanverðra Vestfjarða inn á þjóðvegakerfi landsins og til höfuðborgarsvæðisins eigi að liggja. Ef tækist að tengja norðursvæðið með auðveldum hætti, t.d. með jarðgangagerð milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og vegabótum áfram suður, mundi það að sjálfsögðu stytta leiðir og greiða mjög samgöngur norðursvæðisins hingað suður á bóginn.
    Hér er á ferðinni, eins og reyndar kom fram hjá flm., framtíðarverkefni sem ekki verður ráðist í á næstunni heldur fyrst og fremst þarf að skoða og marka stefnu um þannig að menn viti á hvað á að
stefna í þessum efnum.
    Reyndar er ýmiss konar starf í gangi á vegum samgrn. sem miðar einmitt að því að líta til lengri framtíðar þegar verkefni í samgöngumálum almennt eru lögð niður, hvort sem það er í vegagerð, hafnagerð, flugmálum, á sviði fjarskipta eða annars staðar. Um þetta hefur talsvert verið rætt á undanförnum árum og ég get upplýst það hér að ég á von á nú í haust eða snemma þessa vetrar áfangaskýrslu eða niðurstöðu frá nefnd sem vinnur að því að skoða allt samgöngusviðið með það í huga að leggja niður einhverja heildstæða stefnumörkun á því sviði fram til aldamóta a.m.k. Og þetta er einmitt mál af því tagi sem þarf að takast þeim tökum að með góðum fyrirvara séu aðstæður skoðaðar og stefna mörkuð um það hvert beri að halda.
    Það ber reyndar vel í veiði þar sem svo stendur á að á þessu þingi, á þessum vetri eiga að koma hér til endurskoðunar bæði vegáætlun til næstu fjögurra ára og sömuleiðis er verið að vinna að gerð nýrrar langtímaáætlunar um vegagerð og vegamál sem mundi þá endast eitthvað inn á næstu öld. Að sjálfsögðu tel ég það rétt og skylt að allar tillögur sem þessi verði teknar til skoðunar í tengslum við þá vinnu sem væntanlega fer hér fram á þinginu í vetur um stefnumörkun í vegáætlun, bæði til næstu fjögurra ára og líka langtímaáætlun í vegagerð. Þá á ég til að mynda við að menn reyni að gera sér grein fyrir því hversu mikil verkefnin eru sem fram undan bíða á þessu sviði, þá er ég að tala um vegamálin í heild, og Alþingi hafi þar af leiðandi eins traustar forsendur og hægt er þegar það ákveður hve stórum hluta þjóðarteknanna er rétt og nauðsynlegt að ráðstafa til þessa málaflokks á næstu árum. Það er kannski sú stærsta ákvörðun sem þarf að taka þegar forsendur nýrrar langtímaáætlunar um vegagerð verða markaðar, hversu mikið fé, hversu stóran hlut af okkar þjóðartekjum og þjóðarverðmætum á næstu árum er hægt að setja í þennan málaflokk því ég held að enginn deili um að verkefnin eru næg og þörfin er ærin.
    Ég vildi koma þessum almennu athugasemdum hér á framfæri í tengslum við þessa umræðu sem eru að hluta til þær sömu og ég gerði þegar annað dagskrármál var rætt hér fyrr á fundinum.