Vegakerfið milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Vegna misskilnings var ég ekki viðstaddur í morgun þegar umræða fór fram um vegar - og brúargerð yfir Gilsfjörð, enda munu þá aðeins hafa verið þrír í salnum að mér er tjáð. Ég átti ekki von á því að það mál yrði tekið fyrir fyrr en eftir kl. 2 samkvæmt upplýsingum sem mér voru gefnar. En það kemur nokkuð í einn stað niður því að hér er fjallað um vegamál á allbreiðum grunni og bæði hv. 4. þm. Vestf. og hæstv. ráðherra hafa einmitt vikið að því máli, vegar - og brúargerð yfir Gilsfjörð. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að minnast á það mál í þessari umræðu.
    Satt að segja finnst mér að því máli hafi nokkuð verið vikið til hliðar á síðari árum og það dregist úr hömlu því það er ekki nýtt af nálinni. Ég minni á tillögu sem flutt var um það efni á 105. löggjafarþingi 1982 -- 1983, það var 165. mál. Þar var flutt till. til þál. um vegar - og brúargerð yfir Gilsfjörð. Flm. þá voru hv. alþm. Sigurlaug Bjarnadóttir, Alexander Stefánsson, Sighvatur Björgvinsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Skúli Alexandersson og Friðjón Þórðarson. En þetta mál hefur verið mjög mikið rætt núna að undanförnu og það ekki að ástæðulausu.
    Hæstv. samgrh. er vel kunnugt um þetta mál, m.a. frá fundum og umræðum um það fyrir vestan á sl. sumri. Sjálfur minntist hann í ræðu sinni hér áðan á að innan tíðar yrði hugað að vegartengingu við utanverðan Gilsfjörð. Þótti mér þetta nú ekki fast að orði kveðið og get ég vitnað til samtala við hæstv. ráðherra fyrr og síðar um þetta efni. ( Landbrh.: Þú áttir að ræða þetta í morgun.) Það er satt. En ég greindi frá því áðan hvers vegna það hefði því miður ekki orðið.
    Ég ætla ekki að fara að telja upp rök í þessu Gilsfjarðarmáli, sem svo má nefna, en þau eru mörg og sterk og þung þegar til þess er tekið að það er búið að tengja Vestfirði með nýrri ferju suður yfir Breiðafjörð, það er búið að gera mikinn og góðan veg yfir Steingrímsfjarðarheiði og nú hefur verið ákveðið að flýta jarðgangagerð á Vestfjörðum eins og öllum þingheimi er kunnugt. Ég ætla að allir þingmenn Vestfjarða og Vesturlands standi saman um Gilsfjarðarmálið. Ég efast ekki um það. Ég ætla aðeins að minna á einn fund í því sambandi sem við héldum sameiginlega um það efni í Þórshamri 9. mars sl. Gestir þess fundar voru úr Dala - og Austur - Barðastrandarsýslum. Þar samþykktu allir viðstaddir og voru á einu máli um að Gilsfjarðarverkefnið yrði tekið inn á vegáætlun við endurskoðun hennar árið 1991. Og við í fjvn. sem fórum um Vestfjörðu á sl. sumri sáum gjörla að Dýrafjarðarbrúnni miðar góðu heilli vel áfram. Því verki verður jafnvel lokið á undan áætlun, þ.e. á næsta ári, og þá er komið að því að hefja framkvæmdir við Gilsfjörðinn á árinu 1992, eins og segir í þeirri tillögu sem rædd var hér í morgun.
    En ég vil ítreka það að á þessum fundi í Þórshamri, sameiginlegum fundi þingmanna Vestfirðinga og Vesturlands, var ítrekað og bókað að Gilsfjarðarvegur og brú eigi að koma umsvifalaust á eftir Dýrafjarðarbrú, eins og það er orðað. Og nú skulum við athuga hvað orðið ,,umsvifalaust`` merkir samkvæmt Íslenskri samheitaorðabók. Það merkir gagngert, hiklaust, krókalaust, orðalaust, strax, tafarlaust, án tafar, umbúðalaust, umyrðalaust, undir eins, vafningalaust, viðstöðulaust, vífilengjulaust. Og þarna er að verki hinn ágæti, orðhagi rithöfundur sem allir kannast við, Þórbergur Þórðarson. Þess vegna vænti ég þess að allir skilji, eins og raunar allir vita, að íslenskan er orðafrjósöm móðir. Og orð skulu standa, þingmenn góðir. Þetta vænti ég að hæstv. ráðherra og allir þingmenn hafi í huga.