Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Ellert Eiríksson :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins leggja nokkur orð í belg um þáltill. sem hv. 11. þm. Reykn. mælti hér fyrir um tvöföldun Reykjanesbrautar. Hann gerði hér glögga grein, eins og gert er í greinargerð sem fylgir þáltill., fyrir þeirri þörf sem er á tvöföldun þessa þjóðvegar. Ég vil aðeins, með leyfi forseta, lesa hér örstutt úr greinargerðinni sem ég tel vera mikinn og mikilvægan punkt í því að þetta verk nái fram að ganga. Þar segir:
    ,,Reykjanesbrautin í núverandi mynd fullnægir hvergi nærri þeim kröfum sem verður að gera til höfuðsamgönguæðar milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Akstursskilyrði á Reykjanesbrautinni eru oft mjög slæm. Í rigningu og þoku eru umferðaróhöpp tíð. Á veturna myndast oft mikil hálka á örfáum mínútum. Umferðarslys orsakast þá af framúrakstri og útafakstri vegna þess að á veginum er umferð í báðar áttir. Með vaxandi umferð hefur umferðarslysum farið mjög fjölgandi. Á þessum 50 km af 8.300 km þjóðvegakerfi landsins verða 12,3% allra umferðarslysa.``
    Því miður hefur þessi slysatíðni orðið til þess að það orðspor sem fer af Reykjanesbrautinni sem samgönguæð er ekki nægilega gott. Margir vegfarendur, og þá sérstaklega konur, bera kvíðboga fyrir því þegar haustar að aka Reykjanesbrautina frá Keflavík til Reykjavíkur og öfugt og draga það við sig að fara eða leita annarra leiða. Það má kannski segja að það sé gott mál fyrir sérleyfishafa og aðra að slíkt ástand komi upp að einhver vegur sé svo hættulegur að hann þarfnist sérstakra umferðarfarartækja svo að menn geti komist leiðar sinnar. En það er rétt að ítreka það að þau slys sem verða oftast á Reykjanesbrautinni, eða mjög oft, eru útafakstur í hálku. Menn fara út af út í hraun. Það er öðruvísi umhverfi við Reykjanesbraut en t.d. á Suðurlandsvegi. Þarna er mikið af úfnu hrauni þannig að þau slys sem verða, þessi 12,3%, verða oft miklu alvarlegri en prósentuhlutfallið gefur til kynna.
    Annar þáttur er að ferðamönnum sem koma til Íslands á reiðhjólum og koma með flugi hefur fjölgað stórlega hin seinni ár. Og við sem ökum þennan veg daglega eða oft á dag lendum í því jafnt þegar við erum að mæta löngum bílalestum að annaðhvort mætum við löngum lestum reiðhjólamanna sem eru að koma til landsins eða fara af landi brott. Eitt af því sem vekur ótta margra við að lenda í umferðarslysum eru þessir ágætu hjólreiðamenn. Að sjálfsögðu eru þeir velkomnir en það er ekki heppilegt að þeir þurfa að fara þennan eina veg til þess að komast á eitthvert annað horn landsins til að skoða, sú gífurlega umferð sem þarna á sér stað. Þá eru álagspunktar í umferðinni. Hún er að jafnaði kannski 6, 7 -- 8 þús. bílar á sólarhring, en það koma álagspunktar á morgni og síðdegis þar sem umferðin fer upp í 30 -- 40 þús. bíla. Það eru hinar stanslausu lestir sem ganga á milli Keflavíkur og Reykjavíkur.
    Það er réttilega bent á það að verði álver byggt á Keilisnesi muni álag aukast enn þá meir á Reykjanesbraut sem umferðaræð frá aðaluppskipunarhöfnum hér

á höfuðborgarsvæðinu, sem byggingarefnið verður sjálfsagt flutt um að hluta eða önnur vara sem til álversins þarf. Þar að auki, ef byggingartími þessa álvers verður styttur eins og nú stendur til, úr þremur árum í tvö þá fjölgar að sjálfsögðu þeim starfsmönnum sem þurfa að vera samtímis við vinnu. Það er talið að það þurfi allt að 2500 starfsmenn samtímis til að koma þessu álveri af á tveimur árum í staðinn fyrir áætlaðan tíma áður, þremur.
    Hæstv. forseti. Ég tel tvöföldun Reykjanesbrautarinnar vera núna komna í brennidepil og framkvæmdir þar séu þjóðhagslega hagkvæmar, hvort sem litið er til umferðaröryggis eða flutningsgetu. Það er von flm. að hæstv. samgrh. hrindi verkinu í framkvæmd af fullri festu og sem fyrst.