Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í ræðu hæstv. samgrh. þegar var verið að fjalla um þáltill. um samgöngubætur á Vestfjörðum er stór hluti þeirra mála sem nú eru lögð fyrir hv. Alþingi mál sem fjalla um samgöngubætur og þá fyrst og fremst um vegamál. Þingmenn kjördæma, oft sameinaður hópur allra þingmanna kjördæma og í öðrum tilfellum eins og hér blandaður hópur, með í hópnum þingmaður utan kjördæmisins eins og hv. 5. þm. Vesturl., og svo á hinn veginn einnig að þingmenn eru að bera fram málefni einir eins og það mál sem ég nefndi hér áðan sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson flutti í sambandi við vegamál á Vestfjörðum. Allt bendir þetta til þeirrar áttar að staðan í þessum málaflokki sé ekki alveg sem skyldi og vandamálin vítt og breitt um landið mikil.
    Ég tel að tími sé kominn til þess að fjalla um efni þeirrar tillögu sem hér er til umræðu og taka um það ákvörðun að leggja í framkvæmdir til þess að bæta vegaástandið á Suðurnesjum, eða leiðina Keflavík - Reykjavík. En staðreyndin er sú að þetta er líka hægt að segja um þá tillögu sem ég nefndi hér áðan, tillögu Þorvaldar Garðars um vegabætur á Vestfjörðum. Og órædd er hér á dagskrá tillaga hv. þm. Kristins Péturssonar um vegabætur á Austfjörðum. Alls staðar er það á þann veg að verkefnin eru það stór að við sjáum ekki út fyrir þau með því fjármagni sem er skammtað til þessara hluta, ekki í ár og ekki á næsta ári. Tillögur í fjárlagafrv. eru ekki það háar að það séu líkur fyrir því að farið verði inn á nein ný verkefni umfram það sem er í vegáætlun. Má gott heita, ef sú upphæð sem nú er í fjárlögum verður ekki hækkuð, að staðið verði við vegáætlun á næsta ári. Þetta leiðir hugann að því hvernig hefur verið staðið að þessum málum á síðustu árum.
    Eins og kemur hér fram og við vitum var Reykjanesbrautin lögð á árunum 1963 -- 1965. Síðan liðu 20 ár án þess að verulegar framkvæmdir væru gerðar í vegamálum. Reyndar mun það hafa verið á árunum 1972 -- 1974 sem vegurinn um Skeiðarársand var lagður, Suðurlandsvegur.
Síðan kom samtenging hringvegarins og svo var í tiltölulega litlum áföngum lagður vegur austur yfir fjall. Reyndar mun ekki hafa verið komin samtenging að Selfossi fyrr en í kringum 1980. En 1981 er samþykkt á hv. Alþingi till. um langtímaáætlun í vegagerð og það er gerð langtímaáætlun í vegagerð á árunum 1982 -- 1983. Eftir þeirri langtímaáætlun hefur verið farið að miklu leyti, eða hún hefur verið ramminn í kringum framkvæmdirnar.
    Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir til vegaframkvæmda 2,24% af vergri þjóðarframleiðslu. Það var þó ekki eins mikið og hafði verið lagt til þessara framkvæmda á tímabilinu þegar var verið að leggja veginn um Skeiðarársand. Þá mun hafa verið farið upp í 2,3% af vergri þjóðarframleiðslu í 2 -- 3 ár.
    En þrátt fyrir að hv. Alþingi hafi gengið út frá því að þessir fjármunir skyldu lagðir til vegagerðar hefur aldrei verið staðið við þá áætlun. Á síðustu árum hefur þetta framlag farið allt niður í 1,16% af vergri þjóðarframleiðslu. Hv. þm. og framkvæmdarvaldið hafa ekki treyst sér til að standa við það fyrirheit sem sett var upp með langtímaáætlun 1983. Vitaskuld erum við að súpa seyðið af þessu núna og allar þessar till. sem hér eru lagðar fram í dag, í aðfarandi kosningum, eru áminning um að hér hefur ekki verið staðið við hlutina á þann veg sem þjóðin ætlaðist til og jafnvel eins og þingmenn ætluðust til og þótti ekkert mikið þegar var verið að ræða um þessi mál hér á hv. Alþingi 1983.
    Það er greinilegt að það verkefni sem hér er til umræðu þolir ekki langa bið, að farið verði í það verkefni að tvöfalda Reykjanesbraut. Og ekki kannski síst ef af því verður að byggð verði álverksmiðja á Keilisnesi, sem allt virðist nú stefna í. En hvað gerist ef við þurfum kannski eftir eitt eða tvö ár að fara að byggja upp þá vegi sem byrjað var á í upphafi uppbyggingar vega á landinu? Það getur varla þýtt annað en það að þær framkvæmdir sem þegar eru komnar inn á vegáætlun, eða a.m.k. í hugum manna að eigi að gera á næstu kannski fimm árum eða næsta áratug, hljóta að dragast nema gerð verði gangskör að því að auka það fjármagn sem lagt er til vegagerðar á landinu. Það eru fleiri verkefni hér í kringum Reykjavík, hér á þéttbýlissvæðunum, sem bíða þess að hafist verði handa um framkvæmdir. Það eru allar líkur á því að ekki líði á löngu þar til við tölum um t.d. að byggja þurfi aðra akrein austur fyrir fjall, eða a.m.k. á ákveðnum hluta þeirrar leiðar. Þá stöndum við frammi fyrir því að ekki er einu sinni búið með hringveginn. Og stórir hlutar þjóðbrauta, sem eru með yfir 100 bíla umferð á dag, eru þannig að þeim verður ekki við haldið nema með bundnu slitlagi, meginhluti þess akvegakerfis er óunninn enn þá, eða um 70% þjóðbrauta.
    Ég tel að núna á þessu þingi þurfi að verða stefnubreyting, hvað sem stendur í fjárlagafrv. Hv. þm. eiga að sýna það að við búum ekki við þá stöðu sem hefur verið í vegamálum. Við getum ekki búið við annað en að þar verði á breyting. Miðað við að við ættum að vera með 2,24%, eins og áður var útreikningur, af vergri þjóðarframleiðslu þá þyrftum við að vera með 6,6 milljarða til vegamála. Í fjárlagafrv. eru þetta rúmlega 4,6 milljarðar, þ.e. við erum 2 milljörðum undir áætluninni sem við gerðum okkur 1983. Við þingmenn ættum nú að sameinast um að lyfta þessari tölu og að á kosningaári verði nú í fyrsta skipti framkvæmt fyrir þá fjárhæð sem áætluð var á árinu 1983 til vegagerðar á Íslandi.