Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Því miður missti ég af upphafi þessarar umræðu, ég var við önnur störf hér í húsinu, og heyrði því ekki alla umræðuna, en vil samt fá að leggja nokkur orð hér í belg. Ég vil taka til að byrja með undir orð hv. þm. Eiðs Guðnasonar í upphafi ræðu hans hér áðan að miðað við hvernig við höfum starfað í þingmannahópnum í Reykjanesi þá hefði ekki verið óeðlilegt að öðrum þingmönnum kjördæmisins hefði verið boðið að vera með á þessari till. Ég vek athygli á því að þegar þessi mál voru rædd í þinghópnum fyrir sennilega tveimur árum síðan og aftur fyrir liðlega ári náðist samkomulag um það á hvern hátt yrði staðið að viðhaldi brautarinnar og nú er í gangi þriggja ára áætlun um að koma núverandi vegi í betra horf en hann er í í dag. Eins og flestir hér inni vita þá hefur hann verið í mjög slæmu ástandi alveg fram undir þessa viðgerð sem nú er hafin.
Ég held að það hefði út af fyrir sig tryggt öruggari og fjótvirkari framgang málsins. Ég vil eftir sem áður, þó að ég segi þetta, lýsa yfir fullum stuðningi við þessa tillögu að fela samgrh. að hefja nú þegar undirbúning að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.
    Það eru ýmis atriði sem hér hafa verið nefnd til rökstuðnings þess að tvöfalda brautina. Umferðin samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar er ekki talin ná tíu þús. bíla umferð á dag, sem þeir telja skilyrði fyrir því að það þurfi að tvöfalda brautina, fyrr en, ef ég man rétt, árið 2005. Þeir miða það við meðaltal á sólarhring. Þeir sem keyra brautina daglega, eins og ég og fleiri hér inni gera, vita að umferðin skiptist raunverulega á tvo þunga punkta á sólarhring. Það er snemma á morgnana og aftur síðdegis. Þannig að ég held að það verði að taka tillit til þess þegar menn eru að reikna út meðaltal akstursins á sólarhring að það er mjög þung umferð fyrst og fremst á tveimur tímapunktum. Það er vegna flugumferðarinnar á Keflavíkurflugvelli, vegna farþegaflutninganna, og í öðru lagi vegna starfsfólksins sem vinnur hjá verktökum og varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.
    Ég er hins vegar ekki alveg sammála Eiði Guðnasyni í því að álverksmiðjan muni ekki nema fyrst í stað valda mikilli aukningu á umferð. Auðvitað mun umferðin vegna starfsmanna skiptast frá Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. En það er talið að þarna verði liðlega 650 starfsmenn og það er alveg augljóst mál að þeir munu keyra brautina, kannski frá sitt hvorum enda, en umferð um brautina mun aukast mjög verulega.
    Ég held að mjög brýnt sé að hefja þennan undirbúning hið allra fyrsta og gera áætlanir þannig að menn geri sér grein fyrir því í fyrsta lagi hver kostnaður við slíkt verk er og í öðru lagi á hvern hátt er hægt að fjármagna það. Ekki ætla ég að gera lítið úr þeirri vegalagningu sem þörf er á víðs vegar um landið. En menn skulu ekki gleyma því að þetta er ekki bara vegurinn til að komast til Suðurnesja. Þetta er líka þjóðvegurinn til þess að komast á þann eina alþjóðlega flugvöll sem við höfum hér á landi, enn þá

a.m.k. Miklir þungaflutningar fara líka þarna fram og þeir eiga trúlega eftir að aukast mjög mikið á næstu árum.
    Það er eitt atriði sem ég minntist á hér á þinginu fyrir allmörgum árum og þyrfti raunverulega að taka til athugunar, kannski um leið og svona tillaga er könnuð hjá samgrn. Við fluttum tveir þingmenn, ég og Þórarinn Sigurjónsson, fyrrv. þm. Suðurl., þáltill. fyrir nokkrum árum þar sem lagt var til að könnuð yrði hagkvæmni þess að leggja rafknúna járnbraut frá Reykjavík að flugstöðinni og jafnframt frá Reykjavík og austur fyrir fjall. Sú tillaga náði þá ekki fram að ganga og verður að segjast eins og er að ég held að allmörgum þáv. þingmönnum hafi þótt þetta heldur brosleg tillaga um járnbraut hér á landi. Ég held að með Flugstöð Leifs Eiríkssonar væri það mjög til athugunar að skoða þann möguleika. Það er náttúrlega mikill fjöldi farþega sem fer bara á flugstöðina og síðan beint í bæinn og á sama hátt mundu, ef slíkt yrði ofan á og yrði talið hagkvæmt, trúlega farþegar til Suðurnesja taka þessa járnbraut suður eftir og síðan mundi verða útbúið samgöngunet á vegum sérleyfisbifreiða Keflavíkur um Suðurnesin. Kosturinn við þá aðgerð yrði náttúrlega fyrst og fremst sá að slík lest mundi geta farið með slíkum hraða að trúlega þyrfti ekki meira en 20 mínútur til að komast þessa leið. Það þarf að taka endanlega afstöðu til slíkra hugmynda innan skamms tíma þannig að það verði enn þá pláss fyrir endastöð hér á Reykjavíkur-, Kópavogs- og Hafnarfjarðarsvæðinu því að til þess að slík lest sé hagkvæm þarf hún að geta farið frá einum stað og suður eftir, án margra stoppa á leiðinni.
    Það var líka minnst áðan á mismuninn á því að steypa slíkan veg og malbika hann. Ég held að við þurfum ekkert að eyða mörgum orðum í hver mismunur er á því. Það er eitthvað hærri stofnkostnaður við að steypa en ég held að við Suðurnesjamenn höfum kynnst því mjög vel. Kafli af brautinni er malbikaður, gegnum Njarðvíkurnar og upp á Stapann, og ég held að það megi fullyrða að ef vel ætti að vera mætti ekki líða meira en 2 -- 2 1 / 2 ár á milli þess að sá vegarhluti væri malbikaður þó að stundum hafi það kannski dregist í 3 -- 3 1 / 2 ár.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við tillöguna og mun gera mitt til þess að greiða framgang hennar hér í þinginu.