Efling heimilisiðnaðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Flm. (Snjólaug Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 91, um heimilisiðnaðarráðgjafa. Flm. ásamt mér eru þingkonur Kvennalistans Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún J. Halldórsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsrh. að stofna embætti heimilisiðnaðarráðgjafa til starfa á landsbyggðinni. Laun og annar kostnaður vegna starfsins verði greiddur úr ríkissjóði.
     Helstu verkefni heimilisiðnaðarráðgjafa verði eftirfarandi:
    1. Að kanna stöðu heimilisiðnaðar og minjagripagerðar á landsbyggðinni.
    2. Að leita uppi gamlan fróðleik um gerð ýmissa þjóðlegra muna með það að markmiði að þjóðleg handíð varðveitist og þróist áfram.
    3. Að veita faglega ráðgjöf með því að efna til námskeiða þar sem kunnáttufólk leiðbeinir um rétt vinnubrögð og handtök við gamla heimilisiðnaðinn og mikilvægi þess að nota hráefni sem er sérstakt fyrir Ísland.
    4. Að leggja sérstaka áherslu á vinnslu íslensku ullarinnar með því að standa fyrir tóvinnunámskeiðum.
    5. Að sækja aðstoð til hönnuða og hugmyndasmiða í leit að nýsköpun í heimilisiðnaði.
    6. Að aðstoða fólk við fjármögnun og markaðssetningu.
    7. Að hafa samstarf við atvinnumálaráðgjafa þar sem þeir eru starfandi.``
    Tillagan sem hér er mælt fyrir er eitt af því sem hægt er að gera til að efla atvinnu á landsbyggðinni. Markmiðið með flutningi hennar er að sjá til þess að þeir sem fást við heimilisiðnað og minjagripagerð fái markvissa og faglega aðstoð og að sá handiðnaður og minjagripir sem seldir eru ferðamönnum séu þjóðlegir og Íslendingum til sóma.
    Forsenda fyrir sjálfstæði hverrar þjóðar er að hún varðveiti þá menningu sem þróast hefur með henni. Íslendingar státa af glæstum bókmenntaarfi sem þeir hafa lagt mikla rækt við. Það gleymist hins vegar oft að þjóðin byggir menningu sína ekki síður á þeirri verkmennt sem hefur þróast í aldanna rás og að mikilvægt er að hlúa að hinum verklega þætti menningarinnar og varðveita hann. Konur hafa gegnt og gegna enn í dag mikilvægu hlutverki við varðveislu menningarinnar. Þær hafa átt stóran þátt í að ferja þjóðlegan fróðleik, þekkingu og verkkunnáttu frá einni kynslóð til annarrar.
    Um árabil starfaði heimilisiðnaðarráðunautur á vegum Búnaðarfélags Íslands sem vann ómetanlegt starf. Það var Halldóra Bjarnadóttir sem ferðaðist um landið sem ráðunautur almennings í heimilisiðnaðarmálum og safnaði fróðleik um vinnubrögð og gerð heimilisiðnaðar frá því um aldamót og nokkuð fram eftir 20. öldinni. Einkum voru það ullarvinnubrögðin og handofnir munir sem Halldóra lagði áherslu á að varðveita ásamt fjölmörgu öðru. Einnig ferðuðust handmenntakennarar á vegum Kvenfélagasambands Íslands um landið og veittu tilsögn í mörgum greinum handmennta.
    Handíðaskólinn var settur á stofn árið 1940, en eitt af höfuðmarkmiðum hans var að bjarga því sem bjargað yrði úr fornu listhandverki okkar, auka við það og færa til samræmis við nútímaþarfir. Þróun hans varð reyndar önnur í þessum efnum en ætlað var í upphafi. Hann þróaðist í það að verða myndlistarskóli og var það út af fyrir sig mjög gott. En við það dreifðist sú kennsla sem Handíðaskólinn veitti nemendum sínum í nánast öllum greinum handmennta á aðra staði eins og til hinna ýmsu iðngreina og handavinnudeildir skólans fluttust til Kennaraskóla Íslands, nú Kennaraháskóla Íslands. Þannig dreifðust greinarnar á fleiri en einn stað og markmið menntunarinnar varð annað.
    Húsmæðraskólarnir unnu einnig gagnmerkt starf við handmenntir en síðan flestir þeirra voru lagðir af er engin stofnun á vegum hins opinbera sem sinnir þessu starfi sem skyldi. Heimilisiðnaðarskóli Íslands er sá skóli sem aðallega sinnir nú gamalli íslenskri handmennt, svo sem vefnaði, tóvinnu, útskurði, baldýringu og fleiru. En þar sem skólinn berst í bökkum fjárhagslega er oft erfitt að borga leiðbeinendum, kennurum og skólastjóra laun sem skyldi. Námskeiðagjöld hafa verið það há að margar konur sem gjarnan vildu læra það sem þarna er kennt hafa orðið frá að hverfa af þeim sökum. Einnig hefur orðið erfitt að kosta námskeið á landsbyggðinni og sjaldnast hægt. Þessi fjárskortur veldur því að skólinn á í miklum erfiðleikum með að ná markmiðum sínum.
    Í fjárlagaumræðunni í janúar 1989 lögðu kvennalistakonur til að Heimilisiðnaðarskóli Íslands fengi 2 millj. kr. til viðbótar við þær 370 þús. kr. sem honum voru ætlaðar á fjárlögum þess árs. Sú tillaga var ekki samþykkt. Ekki er vitað hvaða fjármuni Heimilisiðnaðarskóli Íslands fær á fjárlögum næsta árs en óskandi er að Alþingi verði rausnarlegra nú en áður.
    Eins og ég sagði áðan sinnir Heimilisiðnaðarskóli Íslands nú gamalli íslenskri handmennt við bág kjör. Myndlista - og handíðaskóli Íslands starfrækir nú textíldeild. Kennaraháskóli Íslands sinnir vissulega handmennt og útskrifar handavinnukennara sem starfa á grunnskólastiginu. Nauðsynlegt er að ofangreindir aðilar taki höndum saman og vinni að því markmiði að samræma menntun kennara á sviði heimilisiðnaðar og ættu stjórnvöld að hafa frumkvæði að slíkri samvinnu.
    Nú eru orðin þau þáttaskil vegna breyttra heimilishátta og fólksfæðar á heimilum að verkkunnáttan berst ekki lengur sjálfkrafa milli kynslóða. Það skiptir því sköpum að þessi þáttur menningarinnar glatist ekki og einhver aðili hafi það hlutverk að sjá um að hann varðveitist og þróist áfram. Kvennalistinn vill með þessari tillögu benda á mikilvægi þessa þáttar en ekki síður hitt að þessa þekkingu og kunnáttu má nýta til atvinnusköpunar um land allt. Vegna samdráttar í landbúnaði er nú þegar umtalsvert atvinnuleysi í sveitum og fyrirsjáanlegt að það muni enn aukast ef ekki

verða fundnar nýjar leiðir til atvinnusköpunar.
    Kannanir hafa sýnt að margar konur í sveitum komast oft ekki frá heimilum sínum til vinnu en þær vilja og þurfa atvinnu sem styrkir tekjuöflun fjölskyldunnar, atvinnu sem þær geta stundað heima og gefur möguleika á sveigjanlegum vinnutíma. Heimilisiðnaður sem atvinnugrein uppfyllir mætavel þessar þarfir sveitakvenna.
    Mig langar að vitna í könnun sem Halla Aðalsteinsdóttir, Elín Líndal og Lísa Thomsen unnu í maí 1989 á vegum landbrn. og heitir ,,Konur í landbúnaði``, með leyfi forseta:
    ,,Það er einróma álit nefndarinnar að atvinnuleysi meðal kvenna í landinu er mun meira en opinberar skýrslur og atvinnuleysisskrár gefa til kynna. Margháttaðar breytingar í þjóðlífi okkar, erfiðleikar og samdráttur í atvinnulífinu eru aðalástæður fyrir þessari stöðu kvenna í dag.`` Síðar í nefndaráliti kvennanna þriggja segir m.a.: ,,Af svörum þeirra kvenna sem tóku þátt í umræddri könnun er ljóst að áhugi þeirra fyrir eflingu atvinnulífsins er verulegur. Af 701 þátttakanda voru það 87,5% sem annaðhvort höfðu áhuga fyrir vinnu eða töldu nauðsyn að efla atvinnu, eigi byggðin að standa.``
    Athyglisvert er að margar kvennanna sem rætt var við í fyrrgreindri könnun bentu á í svörum sínum að smáiðnaður ýmiss konar, eins og handavinna, minjagripagerð, matargerð og saumaskapur, væri æskileg leið til atvinnusköpunar fyrir konur. Í leitinni að nýjum störfum hefur Kvennalistinn einmitt margoft bent á að smáiðnaður af ýmsu tagi er vænlegur kostur, ekki síst fyrir konur. Ein tegund smáiðnaðar er heimilisiðnaður sem byggir bæði á íslenskri verkmennt og hráefni sem til fellur á heimilum eða finnst úti í nátturunni. Í þessu sambandi langar mig til að minna á íslensku ullina sem er að margra mati eitt besta handiðnaðarhráefnið sem völ er á. Með leyfi forseta vil ég lesa úr grein sem Karl Sigurgeirsson, verkefnastjóri átaksverkefnis Vestur - Húnvetninga, skrifaði í blaðið ,,Hugur og hönd``:
    ,,Nú í haust kom nokkur hópur bænda saman í héraðinu og ákváðu þeir að hefja markvissa söfnun á haustull og koma henni í markaðshæft form, þvo hana og pakka í sölupakkningar. Búa á til litakort fyrir mislita ull þannig að kaupendur geti valið sauðalit eftir númerum. Einnig kemur til greina að bjóða þel og tog í söluumbúðum.
    Þá er í athugun í héraðinu sá möguleiki að framleiða handiðnaðarband sem byggði sérstöðu sína á ullargæðum, sauðalitum og mildum þvotti.``
    Síðar í greininni segir: ,,Til að hefja ullina aftur til vegs og virðingar þurfa bæði framleiðendur ullar, sauðfjárbændur og söluaðilar að taka höndum saman því enginn hlekkur framleiðslunnar má bregðast. Þá munu aðrir sækjast eftir ullinni til hvers kyns úrvinnslu.``
    Flest bendir því til þess að hægt verði að fá úrvalsullarband til handiðnaðar innan tíðar og því mikilvægt að fólk hafi aðgang að ráðgjafa sem leiðbeint getur við gerð handunninna muna úr íslenskri ull.

    Enn er til fólk sem kann að búa til fallega muni úr beinum, hornum, hrosshári og fleiru. Mikilvægt er að fá þetta fólk til að kenna öðrum áður en það er um seinan. Margt fallegt er hægt að gera úr steinum og hrauni. Benda má á að í Þjóðminjasafninu og byggðasöfnum víða um land er varðveittur gamall heimilisiðnaður, menningararfur, sem sækja má hugmyndir til og taka mið af þegar leitað er hönnunar og nýsköpunar því mikilvægt er að þeir munir sem framleiddir eru til sölu handa erlendum ferðamönnum séu þjóðlegir og úr íslensku hráefni.
    Víða er autt húsnæði í sveitum þar sem fólk getur fengið aðstöðu til að vinna við handavinnu og minjagripagerð og komið á fót eins konar verkstæði handverksmanna. Í húsmæðraskólum, þar sem vefstólar og áhöld til vefnaðar eru fyrir hendi, væri hægt að starfrækja vefstofur sem tækju að sér að vefa áklæði og fleira í ýmsar opinberar stofnanir og kirkjur þar sem handofnir munir eiga vel við.
    Á síðasta ári komu 131.000 útlendingar hingað til lands sem er 82% aukning frá árinu 1981. Allt bendir til þess að um 5% aukning verði svo á þessu ári að því ógleymdu, sem ekki er síður mikils virði, að Íslendingar sjálfir ferðast æ meira um eigið land. Með þessum aukna straumi ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra, skapast enn stærri markaður og þörfin eykst fyrir vandaða handunna muni og minjagripi.
    Til útskýringar á liðum 6 og 7 í tillögunni vil ég segja að okkur flm. finnst eðlilegt að heimilisiðnaðarráðgjafi hafi samvinnu við atvinnumálaráðgjafa og búnaðarráðunauta þar sem þeir eru til staðar um leiðir til fjármögnunar og markaðssetningar. Verkefni af því tagi eru fremur í þeirra verkahring og rétt að þessir aðilar hafi með sér samvinnu ef verkast vill.
    Virðulegi forseti. Ég tel mig nú hafa gert grein fyrir tilgangi og markmiði þessarar tillögu og legg til að henni verði vísað til atvmn. að lokinni þessari umræðu.