Efling heimilisiðnaðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég hefði kosið að eiga orðastað við einhvern annan hv. þm. Kvennalistans vegna þess að ég þekki ekki svo mjög til skoðana hv. 6. þm. Vesturl. Snjólaugar Guðmundsdóttur. En ég get ekki stillt mig um að fagna nú þeirri hugarfarsbreytingu sem orðin er í herbúðum Kvennalistans varðandi handmennt og heimilisiðnað.
    Sú var tíðin, þegar við sem vorum með heimili og ung börn þegar kvenréttindahreyfingin gekk vaskast fram, að þá varð það fljótlega svo að allt sem hét heimilisiðnaður og handmennt var nánast skammaryrði og beinlínis hlegið að þeim sem lögðu tíma í að sauma og prjóna og vinna önnur slík verk. Þetta viðhorf hefur vitaskuld fylgt öðrum breytingum í þjóðfélaginu.
    Það leiðir af sjálfu að þegar konur fara nánast allar út á vinnumarkaðinn og hætta þar með að verulegu leyti störfum sem stjórnendur heimila og uppalendur barna sinna, þá breytir það auðvitað öllum heimilisiðnaði og handmennt, það leiðir af sjálfu. Og ég get ekki varist því að mér hefur stundum fundist, og ég hef áður sagt það hér í þingsölum, pólitík Kvennalistans vera í dálítið afmörkuðum hólfum þar sem höfuðbaráttumál þeirra hefur verið frelsi kvenna til þess að vera úti á vinnumarkaðinum og gera nánast hvað sem þeim sýndist og skal ég ekkert hafa á móti því. En það hefur vantað í alla þá umræðu: Hvernig breytum við þá þjóðfélaginu í samræmi við það? Við getum náttúrlega ekki bæði setið á vinnustað 8 -- 10 tíma á dag og jafnframt alið upp börnin okkar og stundað handmennt, það segir sig sjálft. Ég er ekki einungis að ásaka þarna kvennalistakonur eða kvenréttindakonur almennt heldur einnig þjóðfélagið allt sem hefur auðvitað hvergi komið til móts við þá umtalsverðu þjóðfélagsbreytingu sem hefur orðið á síðustu áratugum.
    En ýmislegt það, og því verður ekkert neitað, sem kvennalistakonur m.a. hafa barist fyrir hefur haft hliðarverkanir sem hafa reynst ákaflega neikvæðar. Nægir þar t.d. að nefna baráttu sem upp hófst þegar grunnskólalögin voru sett, að vitaskuld skyldi kenna drengjum og stúlkum hið sama. Þar með skyldu drengir prjóna og sauma og stúlkur smíða og annað þess háttar. Síðan hefur það komið í ljós að þessi þróun hefur orðið afar slæm. En það er ekki við þær að sakast hvernig þetta var gert. Drengir og stúlkur fengu jafna kennslu í öllum handmenntum en tímafjöldi var þar með skorinn niður um helming hjá báðum aðilum.
    Í tilefni af þessari þróun bar ég fram till. til þál. á 110. löggjafarþingi um könnun á stöðu handmenntakennslu í grunnskólum eftir gildistöku laga um grunnskóla nr. 63/1974. Þar fór ég fram á að ástand þessara mála yrði skoðað
því ég sá það af eigin reynslu á mínu heimili, og ég býst við að margir foreldrar hafi uppgötvað slíkt hið sama, að stúlkur sem komnar eru næstum því að lokum grunnskóla eru ófærar um að festa á sig tölu, svo vægt sé til orða tekið. Og leiðir af sjálfu hvernig staðan er hjá hinum ungu drengjum. Úr því varð að menntmrn. lét gera könnun sem gerði auðvitað ekkert annað en að staðfesta það sem ég var að segja og ég hafði svo sem haft fregnir af frá handmenntakennurum landsins. M.a. studdist ég við grein eftir Arndísi Jónsdóttur, varaþingmann Sjálfstfl. á Suðurlandi, í því þskj. sem till. mín var í. Síðan átti ég þess kost að sitja marga fundi með handmenntakennurum sem urðu mjög glaðir að einhverjir sinntu þessum málum. Þar töluðu allir í einum kór um að þetta væri í megnasta ólestri og svo er komið því miður handmenntakennslu í grunnskólanum í dag.
    En mér þykir ánægjulegt að fleiri en ég hafa tekið eftir því að þarna sé kannski eitthvað að. Og mér þykir ágætt að sjá það hér í þskj. frá kvennalistakonum að húsmæðraskólarnir hafi einnig unnið gagnmerkt starf. Það eru næstum engir húsmæðraskólar lengur til vegna þess, og það var nú eitt, að það þótti á tímabili hreint ekkert fínt að fara í húsmæðraskóla og orðið húsmóðir varð næstum bannorð. En það er ágætt að hugarfarsbreyting er að verða. Hér segir einnig í greinargerð frá flm., með leyfi hæstv. forseta: ,,Konur hafa gegnt og gegna enn í dag mikilvægu hlutverki við varðveislu menningarinnar. Þær hafa átt stóran þátt í að ferja þjóðlegan fróðleik, þekkingu og verkkunnáttu frá einni kynslóð til annarrar.`` Þetta er aldeilis alveg rétt. Sannleikurinn er bara sá að konur næstum því fyrirurðu sig fyrir að iðka þessa iðju um langt árabil og lögðu litla áherslu á, eðlilega og þar af leiðandi, að færa hana næstu kynslóð. Og ég hika ekki við að leyfa mér að segja að væri könnun gerð meðal ungra stúlkna í dag þá yrði þar skelfileg niðurstaða um kunnáttu í handmennt, bæði vegna þess að skólakerfið hefur brugðist og konurnar, mæðurnar, hafa ekki haft tíma og kannski ekki einu sinni áhuga á að færa þessa kunnáttu milli kynslóða.
    Ég vil taka það strax fram að að mínu viti er nóg til af ljótum minjagripum sem Íslendingar selja, mig langar ekki í meira af því á þann markað. Minjagripi þarf að gera af kunnáttu, í það þarf að fá lærða og menntaða hönnuði, þannig að það er ekki málið sem þetta snýst um. Það er hins vegar eðlilegur þáttur í uppeldi hverrar manneskju að hún sé fær um að nota hendurnar á sér til skapandi starfa. Og ekki síst til þess eins að hafa ofan af fyrir sér. Við eigum öll eftir að verða gömul og börn þurfa að hafa ofan af fyrir sér mikinn tíma þar til þau fara út á vinnumarkað. Það er gleðin í sjálfu sér yfir að búa eitthvað til sem hver einasta manneskja á að geta notið. En í öllum bænum frábið ég mér meira af heimatilbúnum minjagripum á markaðinn, það held ég að sé ekki nauðsynlegt.
    Hitt er svo annað mál að fólk lærir auðvitað ekki hönnun eða neina iðn öðruvísi en að menn hafi alist upp við að rækta formskyn sitt, rækta notkun eigin handa, það er það fyrsta sem börnum er kennt á dagvistarheimilum, og að þekkja efni og form. Það er of seint að byrja að kenna fólki þetta þegar það er harðfullorðið, komið í tækniskóla. Auk þess sem hverri einustu manneskju er eðlislæg löngun, listræn löngun

til að sjá árangur af eigin sköpunarverki. Og þetta var þáttur í skólakerfinu hér á árum áður og á að vera það og miklu sterkari þáttur en hann er nú. Þess vegna lýsi ég svo sannarlega stuðningi mínum við það að heimilisiðnaður verði aukinn og allt gert til þess að hvetja hann. En heimilisiðnaðarráðgjafar, það er mál sem ég hef ekki áhuga á að styðja. Reynsla okkar af iðnráðgjöfum sem hér voru lögskipaðir fyrir nokkrum árum hefur verið, svo vægt sé til orða tekið, afar misjöfn. Það kann vel að vera að einhvers staðar hafi sést einhver árangur af því starfi, ég hef leitað dálítið og ekki orðið margs vísari. Ég held því að þarna þurfi ekki að koma til neinar stöðuskipanir heldur þurfi fyrst og fremst að verða sú hugarfarsbreyting að við viljum ekki of langan vinnutíma, of mikla neyslu, en vinnum að því að konur, og auðvitað karlmenn líka, hafi tíma til að gera eitthvað annað en að stunda launavinnu, að vinnudagur styttist, betur sé búið að börnunum okkar á dagvistarheimilum, í skólakerfinu og að áhugi vakni á því að framleiða í stað þess að kaupa það sem konur framleiða nú í verksmiðjum vegna þess að það er enginn sem framleiðir það sem áður var framleitt á heimilunum. Og ég vil þess vegna einungis segja þetta: Það er ekki hægt að bæta fyrir áratuga misskilning og vanrækslu með því að skipa 5 -- 6 manneskjur til þess að brúa bil sem ég hygg að taki marga áratugi að brúa. Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.