Efling heimilisiðnaðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hv. 13. þm. Reykv. mælti margt viturlegt hér áðan um hvernig hefur verið staðið að útrýmingu handavinnukennslu í skólum og skilningi okkar á mikilvægi heimilisiðnaðar. Margt af því sem hún sagði var rétt. Hitt er annað mál að ýmislegt voru furðulega miklar rangfærslur, eða rangur skilningur ætti ég kannski frekar að segja. Mér er ekki kunnugt um að Kvennalistinn hafi gert lítið úr heimilisiðnaði. Ég geri ráð fyrir að hv. 13. þm. Reykv. hafi ekki verið á fundum hjá Kvennalistanum og þar af leiðandi ekki séð þær sitja að handavinnu eins og oft sést á fundum hjá okkur.
    Hitt er annað mál að það var til mikils vansa þegar því var breytt með nýjum grunnskólalögum að sess handavinnunnar skertist mjög. Ég vil halda því fastlega fram að það sé ekki fyrir áhrif kvenréttindahreyfinga eða kvenna almennt að það gerðist. Á hinn bóginn veit ég ekki betur en að piltar hafi um langan aldur á Íslandi lært ýmsa handavinnu kvenna, a.m.k. var það svo í minni sveit fyrir norðan að þeir lærðu að prjóna og sauma út svo að það voru engin nýmæli þó það hafi kannski verið nýmæli hér á Reykjavíkursvæðinu að þeir fengju slíka kennslu.
    Ég vil líka bera það af mér að við höfum vanmetið húsmæðraskólana og þeirra störf. Ég hef í starfi mínu sem fullorðinsfræðslumanneskja oft þurft að halda fyrirlestra um sögu fullorðinsfræðslunnar á Íslandi. Eitt af því sem hefur verið aðalpósturinn í því sem ég hef sagt hefur einmitt verið mikilvægi kvennaskólanna hér áður fyrr. Það verður aldrei ofmetið. Það hef ég svo margsinnis sagt að ég hlýt að geta fundið marga sem mundu vitna um það. Enda er það sannleikur.
    Mig langar að víkja aftur að því máli sem hér var lagt fyrir, þáltill. um heimilisiðnaðarráðgjafa. Það er langt síðan að íslenskur heimilisiðnaður, þ.e. aðallega ullariðnaður, var ein aðalstoðin undir útflutningi okkar Íslendinga. Á meðan við fluttum út prjónles og vaðmál og það var eftirsótt um víða Evrópu, þá var heimilisiðnaðurinn mjög mikilvægur fyrir okkur. Hann var það síðan lengi vel og rætur íslensks heimilisiðnaðar eru bæði langar og sterkar. Það er alrangt að nú sé svo slitið á þau tengsl að það sé ekki hægt að hnýta þau áfram. Ég held að það sé rangur skilningur hjá hv. 13. þm. Reykv.
    Einmitt þetta, að við skulum eiga þessar rætur, að við skulum eiga þessa arfleifð að byggja á, gerir það að verkum að það skiptir máli fyrir okkur að fá heimilisiðnaðarráðgjafa. Ræturnar eru ekki slitnar og við getum haldið áfram. Fagrir minjagripir frá ýmsum heimilum víða um heim sjást í minjagripabúðum. Það er ekki bara hér á Íslandi sem fólk hugsar sér að gera slíkt og gerir slíkt, að framleiða minjagripi á heimilum. Kannski má segja að fegurstu minjagripirnir séu einmitt unnir heima. Það held ég að þingmenn hér inni viti afskaplega vel. Það eru einmitt þeir minjagripir sem unnir eru hér t.d. á norðurhveli jarðar heima hjá því fólki sem hefur ekki týnt sjálfu sér í

iðu stórborganna. Það að vinna minjagripi í verksmiðjum einhvers staðar eða flytja þá inn frá Hong Kong er ekki framtíð íslensks minjagripaiðnaðar. ( GHelg: Við eigum að hafa listamenn til þess.) Ég álít að hér sé þörfu máli hleypt af stokkum. Ég álít að ef við ætlum að halda áfram að vera menningarþjóð, verkmenningarþjóð, þá eigum við einmitt að hlúa að íslenskum heimilisiðnaði og nýta hann þar sem við á.
    Það er mikilvægt að þessi heimilisiðnaður sé góður. Þar er ég algerlega sammála hv. 13. þm. Reykv. En ég held að það sé ekki rétt að við getum ekki framleitt slíkan iðnað, síður en svo, vegna þess að sá iðnaður sem nú er til og mikið af því skársta sem er framleitt í íslenskum minjagripaiðnaði í dag er einmitt unnið á heimilum. En við erum ekki eingöngu að tala um minjagripi, við erum að tala um ýmsa nytjahluti líka. Það er ekki eingöngu verið að hugsa um minjagripagerð heldur hluti sem geta nýst til gagns en ekki bara gleði og skemmtunar fyrir augað. Íslenskur heimilisiðnaður á framtíð fyrir sér ef rétt er á haldið og við skulum ekki draga úr því.