Efling heimilisiðnaðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það vekur satt að segja undrun að hv. 13. þm. Reykv., sem svo sannarlega hefur oft látið málefni kvenna duglega til sín taka og lagt þeim málum lið á margvíslegan hátt, skuli gera sig uppvísa að því að hafa ekki fylgst betur með í íslenskri kvennabaráttu en það að hún hafi ekki tekið eftir umtalsverðum stefnubreytingum í þeirri baráttu.
    Hún sagði hér í upphafi máls síns að það hefði orðið hugarfarsbreyting hjá Kvennalistanum, nú vildu þær sinna kvenlegri menningu og því sem konur hefðu sinnt hingað til og það væri hugarfarsbreyting sem hún fagnaði, ég hygg að þarna sé verið að rugla saman tvennu. Hafi einhver kvennahreyfing haft það á sinni stefnuskrá að gera sem minnst úr kvennamenningu þá var það forveri Kvennalistans, þ.e. rauðsokkahreyfingin.
    Nú ætla ég ekki endilega að sakast við þær, það er eðlilegt að þegar verið er að reyna að ryðja nýjar brautir gæti oft ýmiss konar öfga. Við í Kvennalistanum höfum oft skilgreint það sem svo að rauðsokkahreyfingin hafi tekið upp þau sjónarmið að á þann einn máta gætu konur náð jafnrétti í þjóðfélaginu að þær hegðuðu sér sem karlmenn gera í einu og öllu.
    Það vita allir sem vilja vita eða hafa kynnt sér það að þegar Kvennalistinn var stofnaður var lögð áhersla á einmitt hið gagnstæða, að jafnrétti ætti ekki að vera á forsendum annars kynsins heldur skyldu bæði kynin lögð að jöfnu. Ég vil fá að lesa fyrstu setninguna í stefnuskrá Kvennalistans máli mínu til sönnunar. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Markmið Kvennalistans er að gera viðhorf, reynslu og menningu kvenna að stefnumótandi afli í samfélaginu, ekki síður en reynslu, menningu og viðhorf karla.`` Þetta felur auðvitað í sér að allt það sem konur hafa verið að gera, öll þau störf sem þær hafa sinnt, allar þær skyldur sem þær hafa axlað sé hluti af þessum menningarheimi sem beri að meta og gera sýnilegan. Að draga þá ályktun að Kvennalistinn hafi haft það markmið að útrýma öllum kvenlegum dyggðum er misskilningur. Ég vona að hann stafi af því að hv. þm. hafi hreinlega ekki kynnt sér það nóg og að hún tali ekki þarna þvert á betri vitund.
    Við höfum flutt fjölmargar till. sem hafa gengið einmitt í þá átt sem hv. þm. talaði um, þ.e. að styðja við ýmislegt sem okkur finnst vera að týnast af menningu kvenna. Ég vil minna á það að á næstsíðasta þingi var lögð fram till. til þál. um heimilisrekstrarbrautir í framhaldsskólum. Við kvennalistakonur höfum marggagnrýnt það að húsmæðraskólar skyldu lagðir niður í stað þess að breyta innihaldi þeirra þannig að þeir yrðu skólar sem gæfu réttindi. En okkur fannst einmitt harla lítið gert úr þeirri iðju sem þar var kennd og hún öll gerð ómerk með því að lýsa því beinlínis yfir að það þyrfti enginn að læra hana.
    Í þessari till. segir m.a., með leyfi forseta: ,,Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu örar og gagngerar breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu varðandi fjölskyldur og heimili á síðustu áratugum. Þessar breytingar koma m.a. fram í því að nú er minna um það en áður var að börn og unglingar læri á heimilunum þau störf sem þar eru unnin, þ.e. heimilisstörf.`` Seinna segir: ,,Hússtjórnarskólarnir voru einu skólarnir þar sem var samfellt nám í hússtjórn og heimilisrekstri. Nú eru þeir flestir aflagðir. Orsakir þess verða ekki raktar hér en þörfin fyrir það nám, sem þar fór fram, er og verður ávallt fyrir hendi. Þegar húsmæðraskólarnir voru lagðir niður voru gefin fyrirheit um að námsefni þeirra yrði flutt inn í framhaldsskólana. Sú hefur þó ekki orðið raunin. Því er þessi þáltill. flutt og jafnframt gerð tillaga að innihaldi og skipulagi námsins,`` sem síðan er gert í fjölmörgum liðum sem ég ætla ekki að eyða tíma núna í að telja upp.
    Ég vil líka minna á það að við höfum lagt á það ríka áherslu að list - og verkmenntakennsla í skólum verði stóraukin og flutt margvíslegar tillögur í því
sambandi. Það er því mjög ómaklegt og úr lausu lofti gripið að við höfum ekki sinnt þeim málefnum og höfum sýnt þeim nánast fyrirlitningu. Við höfum gert það sem við höfum getað til þess að hefja þessi störf aftur til virðingar. Ég minni á, eins og reyndar hv. 18. þm. Reykv. benti hér á á undan mér, að það hefur löngum þótt aðhlátursefni að á myndum sem birtast frá fundum Kvennalistans sitja konur oft við saumaskap eða prjónles. Það hefur nú þótt heldur broslegt og eiga lítið skylt við opinbert og pólitískt líf. En við fyrirlítum það þó ekki meira en svo að við teljum okkur fullsæmdar af því að stunda handiðn á fundum okkar meðan við hlustum á aðrar konur.
    Það er alveg rétt að vissulega hafa orðið miklar breytingar á heimili og fjölskyldulífi í kjölfar þess að konur eru í æ ríkari mæli úti á vinnumarkaði. Við kvennalistakonur höfum viljað vísa því að hluta til til þjóðfélagsins að bregðast við breyttum aðstæðum. Við höfum líka viljað höfða til karlmanna um að þeir öxluðu þá aukna ábyrgð á heimilisstörfum og heimilishaldi, barnauppeldi og öðru slíku, en höfum ekki viljað viðurkenna að það væru einungis konur sem hefðu svikið og hlaupist undan ábyrgð og þeirra væri að fara til baka og axla hana aftur. Ég hygg að flestar konur reyni að gera það meðfram sinni vinnu, en auðvitað megna þær ekki að gera það einar og óstuddar eftir langan vinnudag. Það væri óskandi að hv. þm. tæki frekar undir kröfu um breytt gildismat í þjóðfélaginu og breytt viðhorf þjóðfélagsins til barna og uppeldis þeirra og umönnunar og þeirra starfa sem fram fara inni á heimilinu. Nú ætla ég ekki að saka hv. þm. um að hafa ekki lagt málinu lið. Ég byrjaði mál mitt á því að lýsa því yfir að það hefði hún margoft gert en þess vegna einmitt er ég undrandi á því að hún skuli opinbera svo --- ég vil leyfa mér að segja --- fáfræði sína um stefnuskrá og öll helstu mál Kvennalistans.
    Hvað því viðkemur að minjagripaframleiðsla inni á heimilum sé nokkuð sem við séum búin að fá nóg af, þá get ég ekki stillt mig um að lýsa því yfir að mér finnst gæta nokkurrar fyrirlitningar þar einmitt í garð þeirra kvenna sem hafa verið að stunda þetta. Í

till., sem hér er til umræðu, er lögð áhersla á að kunnáttufólk leiðbeini einmitt til þess að bæta þessa framleiðslu, auka hana og bæta. Hér er talað um að veita faglega ráðgjöf, efna til námskeiða þar sem kunnáttufólk leiðbeini. Það er talað um að sækja aðstoð til hönnuða og hugmyndasmiða í leit að nýsköpun í heimilisiðnaði. Það er einmitt verið að leggja áherslu á það hér að reyna að hefja þessi verk til vegs og virðingar og bæta þá framleiðslu sem þarna er fyrir hendi og auka hana. Það væri fróðlegt að vita hvort hv. þm. hefur aðrar tillögur betri til þess að bæta úr því atvinnuleysi sem konur í sveitum búa við. Það er ekki auðvelt fyrir þær að stunda atvinnu sem þær þurfa að sækja langt frá heimili. Hv. flm. till. benti einmitt á að oft væri ónotað húsnæði í sveitum sem væri þá í nágrenni heimila þessara kvenna. Þangað gætu þær farið en ekki kannski mikið lengra.
    Vissulega væri fagnaðarefni ef það væru fleiri góðar tillögur um hvernig hægt væri að draga úr þessu atvinnuleysi. Það er þegar byrjað í smáum stíl sums staðar um landið, og m.a. í heimasveit hv. flm. Konur hafa þar tekið upp ýmsan heimilisiðnað sem þær síðan selja í kaupfélagi staðarins. Ég veit ekki betur en það hafi mælst mjög vel fyrir og það er auðvitað að halda áfram á þeirri braut og gera það markvissara sem inntak þessarar tillögu er. Ég skora nú á hv. 13. þm. Reykv. að taka höndum saman við aðrar konur því að vissulega eigum við allar, hvar sem við stöndum í flokki, að reyna að sameinast um þau mál sem geta bætt hag kvenna, bætt hag barna og um það eigum við að standa saman, ekki bítast þar um smáatriði.
     Stefán Valgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég held að þessi tillaga, ef samþykkt verður, geti gert verulegt gagn. Ég þekki til þess, t.d. í Norður - Þingeyjarsýslu, að þar hafa kvenfélögin staðið fyrir námskeiðahaldi einmitt til þess að reyna að kenna og halda við þessum gamla iðnaði okkar með ágætis árangri. Ég á t.d. muni frá þessum konum sem ég tel að mjög gaman sé að eiga og þær hafi fulla sæmd af að hafa gert.
    Það er nú svo með þetta eins og annað að við þurfum öll að læra og við þurfum að fá tilsögn. Það er líklegt að þetta geti orðið einmitt til þess að auka tekjur þeirra heimila sem hafa of litlar tekjur vegna þess að aðstaðan er orðin þannig að þau hafa ekki rétt til þess að framleiða til þess að það dugi fyrir framfærslu fjölskyldunnar. Hins vegar er ég í vafa um að það sé endilega rétt að það sé forsrh. að stofna þetta embætti, en auðvitað þarf ríkisstjórn og Alþingi að styðja að því. En ég varpa því fram til umhugsunar, ég ætla ekki að koma með neina tillögu, hvort ekki væri eðlilegra að hafa þetta embætti á vegum Búnaðarfélags Íslands, vegna þess að þá hefði þessi fulltrúi, eða fulltrúar, ég held að einn sé ekki nóg ef þetta ætti að koma að gagni, aðstoð þar að ýmsu leyti og hægt að ná sambandi við þær --- ég segi þær því að ég álít að það verði fyrst og fremst konur sem muni sinna þessu verki. Það er reynsla fyrir þessu. Það hefur orðið til þess að ýmsar, sem annars hefðu farið úr sveit,

hafa fengið þarna atvinnu og þetta er ein leið til þess að afla tekna og halda við okkar menningararfleifð.