Efling heimilisiðnaðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Flm. (Snjólaug Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. góðar undirtektir við till. og ég þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir hans góðu orð til þessarar till. Það er mjög athugandi að heimilisiðnaðarráðgjafi starfi með búnaðarráðunautunum sem starfa á vegum búnaðarsamtakanna.
    Ég þakka hv. 13. þm. Reykv. fyrir margt af því sem hún sagði og var margt rétt en annað ekki, að mínu mati. Ég vil benda henni á, varðandi gamla fólkið og vinnu þess, að það vinnur vel en hætta er á að verkkunnátta glatist. Í ræðu minni sagði ég, með leyfi forseta: ,,Enn er til fólk sem kann að búa til fallega muni úr beinum, hrosshári, hornum og fleiru. Mikilvægt er að fá þetta fólk til að kenna öðrum áður en það er um seinan.`` Og þá á ég bara einfaldlega við áður en það deyr.
    Varðandi það að ráða heimilisiðnaðarráðgjafa sé ekki það sem við eigum að gera í þessum efnum vil ég bara benda á það mikilvæga starf sem Halldóra Bjarnadóttir vann hér fyrr á öldinni. Ég tel heimilisiðnaðarráðgjafa alveg eins geta unnið að slíkum störfum í dag eins og þá.
    Ég vil svo gera orð þingmanna Kvennalistans, sem hér hafa talað, að mínum orðum og sé ekki ástæðu til að bæta við þau. Svo vil ég leggja frekari áherslu á að það skiptir sköpum um framtíð byggðanna að átak sé gert í málefnum kvenna á landsbyggðinni. Ef konurnar hafa ekki vinnu leita þær annað og karlarnir fylgja á eftir. Þannig hefur þróunin orðið í nágrannalöndunum og hún verður og er nú þegar orðin sú sama hér á landi. Landsbyggðin þarf á allri þeirri atvinnu að halda sem völ er á. Þær hugmyndir sem upp koma um atvinnu, jafnt stórar og smáar, þarf að athuga og reynist hugmynd raunhæf þarf að koma henni í framkvæmd með ráðgjöf og fjármagni.
    Að lokum vil ég ítreka það sem segir í grg. með till.: ,,Kvennalistakonur telja ráðningu heimilisiðnaðarráðgjafa eina af þeim leiðum sem vænlegt er að fara til að virkja sköpunarþrá fólks og leiðbeina því við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd eftir farvegi sem byggir á þjóðlegri verkkunnáttu.``