Jarðgangagerð á Austurlandi
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega að vonum að það komi fram jákvæð viðbrögð frá þingmönnum Austurlands gagnvart þeim tillöguflutningi sem hv. 5. þm. Austurl. Kristinn Pétursson hefur haft hér í frammi. Ekki þarf ég að taka það fram, svo sjálfsagt sem það er, að auðvitað er ég stuðningsmaður till. Það er góður kostur við þessa till. að þar er fjallað með nokkuð nýlegum hætti um leiðir til þess að fjármagna þessa framkvæmd.
    Það sem gerði það sérstaklega að verkum að ég skundaði hér upp í ræðustólinn var það föðurlega yfirbragð sem var á ræðum þeirra samþingmanna minna af Austurlandi sem styðja núv. ríkisstjórn. Var þó margt vel mælt í máli þeirra sem ég er þeim sammála um.
    Hv. 3. þm. Austurl. Jón Kristjánsson sagði m.a. að það væri mikil ástæða til þess að menn gerðu það vel upp við sig að ef það ætti að auka fé til vegamála þá þyrfti einhvers staðar að skera niður þar á mót. Væri nú ekki betra, hv. þm., að snúa orðalaginu aðeins við og orða þessa föðurlegu áminningu á þann hátt að segja að ef við ættum að ná árangri í vegamálum þá yrði að hætta að skera niður fjárveitingar til þess málaflokks? Og af því að hv. 2. þm. Austurl. komst svo spaklega að orði að tala sérstaklega um frumkvæði núv. samgrh. í jarðgangagerð og nýjum leiðum í vegamálum er ástæða til þess að taka þessar framsetningar í einu lagi hjá þessum hv. tveimur stjórnarþm. og góðum vinum mínum af Austurlandi. Því að mér virðist að það merkasta í forustu núv. samgrh. í vegamálum sé að skera niður framkvæmdir við fjárlagagerð og vegáætlun um nokkurn veginn sömu upphæð og áætlað er að kosti að byggja jarðgöng um Vestfirði. Ég held að ég muni það rétt að sá kostnaður sé áætlaður einhvers staðar í kringum 2,7 milljarða kr. Þegar verður búið að gera upp dæmið fyrir árið í ár hygg ég að á stjórnarferli núv. samgrh. sé búið að skera niður frá vegáætlun og frá fjárlögum upphæð sem nálgast þrjá milljarða. Þetta er náttúrlega mikið frumkvæði og söguleg niðurstaða. Og það er vissulega ekki að ófyrirsynju að menn komi hér í ræðupontu með föðurlegu yfirbragði og segi að það verði að skera niður einhvers staðar annars staðar þegar tekjustofnar til Vegagerðarinnar fá ekki að vera í friði fyrir þeim sem stjórna landinu þessa dagana. Þetta er náttúrlega grundvallaratriði. Ég er alveg sammála því sem fram kemur í þessum efnum að meðan menn eru við þessa iðju þá náttúrlega sýnist það ekki þjóna miklum tilgangi, öðruvísi en þá að þingmenn með því lýsi vilja sínum, að vera að bera fram góð mál varðandi samgöngubætur í þessu blessaða landi okkar.