Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Kristín Einarsdóttir :
        Virðulegur forseti. Við ræðum hér vanda byggingarsjóða ríkisins. Ég þakka hv. 17. þm. Reykv. fyrir að kveðja sér hljóðs utan dagskrár um þetta mál. Ég tel mjög nauðsynlegt að ræða vanda byggingarsjóðanna og hefði mátt gera það miklu fyrr. Það mátti auðvitað öllum vera ljóst fyrir lifandi löngu að þessi vandi mundi blasa við og hefur raunar blasað við mjög lengi. Það þarf enga sérfræðinga eða reiknispekinga til að skilja það að ef tekin eru lán með 6 -- 7% vöxtum og þau lánuð aftur með 3,5% vöxtum eins og gert er hjá Byggingarsjóði ríkisins þá verða að koma til fjármunir einhvers staðar frá til þess að greiða þennan vaxtamun. Ég vil benda á það að í athugasemdum með frv. sem var samþykkt sem lög frá Alþingi árið 1986, stendur, með leyfi forseta:
    ,,Niðurgreiðsla vaxtakostnaðar hjá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna hefur viðgengist um langt skeið. Eins og nú háttar eru vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins 3,5% en 1% hjá Byggingarsjóði verkamanna. Vextir af skuldabréfum þeim, sem lífeyrissjóðirnir kaupa af byggingarsjóðunum tveimur, eru nú 6 -- 9%. Vaxtamunurinn er því nú 2,5 -- 5,5% hjá Byggingarsjóði ríkisins og 5 -- 8% hjá Byggingarsjóði verkamanna. Þess ber þó að geta að þessi mikli vaxtamunur hefur staðið í tiltölulega skamman tíma. Á árunum 1980 -- 1981 var vaxtamunurinn hjá Byggingarsjóði ríkisins 1% og um 1,25 -- 1,75% á árunum 1982 -- 1983.
    Síðar stendur: ,,Þeir útreikningar sem gerðir hafa verið á vegum nefndarinnar, sem vann að máli þessu, benda til að verði mismunurinn á vöxtum á teknum málum og veittum hjá Byggingarsjóði ríkisins meiri en 2 -- 3% til lengdar muni lánakerfið sligast. Þannig sýna dæmi sem tekin hafa verið um 5 -- 6% vaxtamun til langs tíma að slík niðurgreiðsla krefðist sífellt meiri ríkisframlaga og lántöku hjá lífeyrissjóðum. Þetta gæti aðeins staðið mjög skamma hríð og hlyti að kalla á gagngera endurskoðun þessara mála og breytingu á lögum.``
    Þetta stóð í athugasemdum með þessu frv. þannig að ég á erfitt með að átta mig á því hvers vegna talað er um að þetta sé óvænt og að ekki hafi legið fyrir frá upphafi að þetta gengi ekki upp. Það gengur ekki upp nema að til komi ríkisframlag sem nemi þessum vaxtamun. Þetta bentu kvennalistakonur á þegar fjallað var um þetta frv. á sínum tíma og m.a. þáv. þingmaður Kristín Halldórsdóttir sem vakti athygli á þessu atriði í umræðum um þetta mál. Ég á því ákaflega erfitt með að átta mig á allri umræðu um að þetta hafi ekki verið ljóst, því þetta kom greinilega fram í athugasemdum með þessu frv.
    En einmitt um þetta atriði var ekki staðið við það sem lofað hafði verið, þ.e. ríkisframlagið kom ekki. Strax fyrsta árið, þegar fjárlög fyrir árið 1987 voru lögð fram, var byrjað að svíkja loforð um það ríkisframlag sem þurfti að koma til sjóðanna til þess að þeir gætu staðið við það að hafa aðeins 3,5% vexti. Þannig að auðvitað hefur sú ríkisstjórn sem fór frá

árið 1987 líka svikið loforðin sem fólust í því samkomulagi sem þarna var gert við aðila vinnumarkaðarins, að ríkisframlagið ætti að standa undir þessum vaxtamun.
    Ríkisstjórnir sem síðan hafa setið, sem eru orðnar einar þrjár frá þessum tíma, hafa allar svikið meira og minna að standa við að ríkisframlagið stæði undir þessum mismun á vöxtum byggingarsjóðanna. Og síðustu tvö árin hefur alveg keyrt um þverbak. Á fjárlögum þessa árs t.d. eru eftir því sem mér sýnist einungis 45 millj. sem fara til Byggingarsjóðs ríkisins og í frv. til fjárlaga fyrir árið 1991 er ekki króna. Hæstv. félmrh. hefur upplýst að þetta sé til umræðu í ríkisstjórninni en ekkert annað liggur fyrir en það að ekki ein einasta króna eigi að fara til Byggingarsjóðs ríkisins. Þetta þýðir einungis að verið er að ýta vandanum á undan sér.
    Það er líka talað um það í skýrslu frá Ríkisendurskoðun að þó svo að sjóðirnir hætti útlánastarfsemi sinni strax og framlag ríkissjóðs félli alveg niður, eins og virðist eiga að gera samkvæmt fjárlagafrv., þá muni þurfa árið 2028 að leggja byggingarsjóðunum um 62 milljarða kr. Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni. Við getum ekki borið ábyrgð á því að ýta þessum vanda, sem er uppsafnaður vandi frá 1986, áfram til þeirra sem eftir okkur koma. Og þá er spurning: Frammi fyrir hverju stöndum við og hvað getum við gert? Jú, það er hægt að grípa til ýmissa ráða. Það mætti svo sem láta sér detta í hug að hækka enn vexti á þeim sem eru að taka lán núna. Það getur varla verið að nokkur einasti maður geti samþykkt að það eigi að hækka vexti almennt í þjóðfélaginu. Ekki þarf annað en að vitna til þeirra mótmæla sem koma fram nýlega hjá verkalýðshreyfingunni, það hljóta allir að vera á móti því að hækka vexti almennt. Enda kemur það auðvitað ekki til greina og ekkert réttlæti að fólk sem nú er að taka lán eigi að greiða hærri vexti til þess að þeir sem hafa tekið lán áður greiði lægri vexti. Það er hægt að ýta vandanum á undan sér, eins og gert hefur verið hingað, en það er auðvitað allsendis óviðunandi. Auðvitað er hægt að hækka framlag ríkissjóðs og vonandi verður það gert. Síðan er hægt að samræma vexti á lánum frá Byggingarsjóði ríkisins, þ.e. að hækka vexti frá því 1984, þar sem það stendur í skuldabréfum sem fólk hefur skrifað undir að það sé leyfilegt. Ég lýsi því yfir að ég tel fyllilega koma til greina að það verði gert ásamt því að hækka framlag ríkissjóðs. Það gengur auðvitað ekki að það verði ekki ein einasta króna, eins og gert er ráð fyrir í frv til fjárlaga eins og það liggur á borðum þingmanna nú.
    Þeir sem hafa tekið lán frá miðju ári 1984 muni þá greiða sömu vexti og aðrir frá næsta ári, frá 1991. Þetta er leið sem ég tel fyllilega koma til greina því aðstoð ríkisins til húsnæðiskaupenda á fyrst og fremst að koma til þeirra sem minna mega sín en ekki með því að greiða niður vexti eins og gert er jafnt til allra. Þá fá þeir sem hafa háar tekjur og eiga meiri eignir jafnmikið og aðrir sem eru með meðaltekjur og lágar. En þeir síðarnefndu þurfa auðvitað frekar á aðstoð að halda en hinir við að koma sér upp þaki yfir höfuðið.
    Auðvitað á meginreglan að vera sú að kjörum sé ekki breytt þegar fólk hefur gert sínar áætlanir og að forsendum sé ekki breytt eftir á. Þess vegna er mjög mikilvægt að ef þessi leið verður valin, þ.e. að hækka vexti, þá muni þeir sem eru með meðaltekjur og lægri fá vaxtabætur sem svari þeirri hækkun sem verður á lánum þeirra eða þeim afborgunum sem þeir þurfa að greiða af lánum frá Húsnæðisstofnun. Með vaxtabótum er tekið tillit til bæði tekna og eigna og þannig er hægt að láta aðstoð ríkisins koma beint til þeirra sem helst þurfa á henni að halda.
    Vaxtabætur voru teknar upp á þessu ári. Það hefur ekki legið fyrir hvernig þær hafa dreifst á tekjuhópa. Ég hef lagt fyrirspurn fyrir hæstv. fjmrh. um þessar vaxtabætur sem liggur hér á borðum þingmanna á þskj. 97. Einnig hef ég óskað eftir því að reiknað verði ákveðið dæmi, þ.e. að athugað verði hve miklar vaxtabætur fólk, sem var með hámarkslán frá Húsnæðisstofnun ríkisins frá árinu 1984, hefur fengið í ár og hversu miklar vaxtabætur það fólk fengi ef lán þess bæru, ég tók sem dæmi 5% vexti frá árinu 1991. Ég valdi 5% vexti vegna þess að talað hefur verið um að það muni duga til að forðast gjaldþrot byggingarsjóðanna ef vextir af þessum lánum hækkuðu upp í 5%. Við kvennalistakonur teljum það mjög mikilvægt að ef farin verður sú leið að hækka vexti, sem ég segi að við teljum fyllilega koma til greina, þá lendi það ekki á þeim sem eru í lægri tekjuhópunum. Þess vegna finnst okkur mikilvægt að vaxtabætur komi þar upp á móti.
    Það kom fram í máli hæstv. félmrh. að greiðslubyrðin hækkaði um 51 þús. kr. á ári hjá lántakendum með hámarkslán. En það kom ekki fram hversu mikið vaxtabætur mundu aukast við þessa auknu greiðslubyrði, sem skiptir auðvitað mjög miklu máli. Þetta þarf allt að vega og meta þegar teknar eru ákvarðanir og það er ekki hægt að taka ákvarðanir alveg án tillits til þess hvaða áhrif það hefur á einstaklingana.
    Á síðasta ári var tekið upp nýtt húsnæðislánakerfi, svokallað húsbréfakerfi. Þótt ekki sé búið að taka ákvörðun um það hér á Alþingi þá er í raun búið að loka kerfinu frá 1986. Húsnæðisstofnun hefur ekki gefið út nein lánsloforð undanfarna mánuði enda er það ekki hægt þar sem ekkert fé kemur úr ríkissjóði til að hægt sé að lána fólki. En til þess að allt þetta gangi upp verður að efla félagslega húsnæðislánakerfið. Það þýðir ekki að hætta allri aðstoð ríkisins í gegnum almenn húsnæðislán nema efla um leið félagslega íbúðalánakerfið. Eins og við höfum svo margoft sagt þá verður að gefa fólki tækifæri til að velja um það hvort það býr í eigin húsnæði eða vill leigja. Það eru nefnilega ekki allir sem vilja leggja það á sig að koma sér upp eigin húsnæði, þeir vilja gjarnan fá að leigja. Þess vegna þarf auðvitað að fjölga leiguíbúðum og taka upp húsnæðisframlag til þeirra sem leigja, ekkert síður en til hinna sem eru að kaupa.
    Meginatriðið í öllu þessu máli er það að tekið sé á þeim vanda sem við blasir varðandi byggingarsjóðina. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir því að þetta er mikill vandi og það er ekki hægt að láta eins og vandinn sé ekki til. En við lausn á vandanum verður að gæta þess að taka tillit til allra þátta málsins. Ekki taka ákvarðanir sem augljóslega ganga hvorki upp fyrir fjölskyldurnar í landinu né heldur fyrir ríkissjóð.