Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð þeirra sem hafa haldið því fram að þessi umræða sé meira en tímabær. Það er full ástæða til þess að hér sé rætt um aðgerðarleysi hæstv. félmrh. og mistök sem fram hafa komið af hennar hálfu þegar hún hefur haldið á þessum málum í tíð núv. ríkisstjórnar og reyndar í tíð fyrri ríkisstjórnar.
    Ég vil rifja það upp að haustið 1987, þegar við sátum saman í ríkisstjórn, voru þessi mál iðulega til umræðu. Í septembermánuði það ár var það rætt mjög alvarlega í þáv. ríkisstjórn að taka þyrfti á málinu og nefndu menn þá, ekki síður úr flokki hæstv. ráðherra en menn úr Sjálfstfl., að kominn væri tími til þess að hækka vexti, a.m.k. á sumum lánanna, ekki síst vegna þess að raunvextir fóru hækkandi. Frá upphafi eða allt frá því að samningar voru gerðir á almenna vinnumarkaðinum 1986, var ljóst að vaxtastigið á húsnæðislánunum átti að fylgja almenna vaxtastiginu í landinu. Sá munur sem á milli var, sem gat orðið 1,5 -- 2% eða eitthvað um það bil og hæstv. ráðherra var að minnast á áðan, hlaut að lenda á ríkissjóði.
    Hæstv. ráðherra sagði þá að nefnd væri starfandi að málinu. Reiknað væri með að sú nefnd skilaði áliti síðar á því ári, 1987. Það var síðan um vorið 1989 sem Alþingi fjallaði um þær tillögur sem komu frá nefnd sem starfaði undir forustu Kjartans Jóhannssonar, þáv. alþingismanns. Með öðrum orðum, það liðu tæplega tvö ár án þess að nokkuð væri tekið á þessu máli og var þó öllum ljóst að það þurfti að gera og ekki síst hæstv. ráðherra sem lét undir höfuð leggjast að taka á þessu máli. Ég minni á að fyrri partinn á þessu tímabili, þ.e. á árunum 1987 -- 1988, var fjmrh. úr röðum Alþfl. Hæstv. utanrrh. var þá fjmrh.
Það hlaut þess vegna að vera fyrst og fremst á ábyrgð þessara tveggja ráðherra að koma þessum málum heim og saman. En hæstv. ráðherrar létu undir höfuð leggjast að gera það. Það var beðið og beðið og beðið þótt málið væri löngu komið í eindaga. Loksins, vorið 1989, var skipt yfir í húsbréfakerfi sem út af fyrir sig var allt í lagi ef það hefði ekki verið gert með samningum sem eru samningar sem eru dæmi um það hvernig ekki á að gera samninga því það hefur nánast ekkert verið staðið við samningana sem þá voru gerðir á milli hæstv. félmrh. og Kvennalistans. Þessir samningar hafa oft verið til umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi. Þetta voru samningar sem gerðir voru 1. maí 1989 í því skyni að fá Kvennalistann til að fallast á húsbréfakerfið. Kvennalistinn fór fram á að vextir yrðu ekki hækkaðir af lánum sem þegar hefði verið úthlutað úr Byggingarsjóði ríkisins þegar húsbréfakerfið kæmi í framkvæmd.
    Það voru þrír aðrir liðir í þessu samkomulagi og í umræðum sem urðu um þetta mál á síðasta þingi upplýstist að ekki hefði verið staðið við það samkomulag af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég ætla ekki að rifja upp hvaða þættir það eru en ég er með þetta samkomulag hér fyrir framan mig, undirritað 1. maí 1989. Hæstv. ráðherra lagði til fyrir tæpu ári síðan að hækka

vexti af lánum sem þá höfðu ekki verið tekin um 1%, eða úr 3,5% í 4,5%. Þetta gerðist í desemberbyrjun á sl. ári. Rökin voru auðsæ: Raunvextir höfðu hækkað í þjóðfélaginu og það þurfti að vera minni munur á vöxtum húsnæðiskerfisins og þeim vöxtum sem ríktu í þjóðfélaginu, m.a. þeim vöxtum sem lífeyrissjóðirnir lána húsbyggingarsjóðunum á.
    Þegar þetta gerðist varð umræða hér á hinu háa Alþingi og á það bent að auk þess að vera algjörlega siðlaus, sem þessi ákvörðun er, var hún að margra mati löglaus. Hæstv. ráðherra kom þá hér í pontu og sagðist bundinn af samkomulagi við Kvennalistann. Nú hefur það gerst, ef ég hef skilið fréttir frá Hrafnagili rétt, að Kvennalistinn sé tilbúinn til að ræða það hvort hækka skuli vexti af húsnæðislánum allt frá árinu 1984. En frá þeim tíma hafa öll skuldabréf sem gefin hafa verið út af Húsnæðisstofnun ríkisins verið með ákvæði þess efnis að um breytilega vexti sé að ræða. Og það vita allir sem taka lán í bankakerfinu, ef lánið er með breytilegum vöxtum, að fólk verður að sætta sig við þá vexti sem gilda á hverjum tíma. Þetta hefur ekkert með afturvirkni að gera einfaldlega vegna þess að vextirnir eru reiknaðir frá þeim degi sem vaxtabreytingin á sér stað, hvort sem þessi vaxtabreyting er til hækkunar eða lækkunar.
    Hæstv. ráðherra kaus að fara ekki að þessum ráðum þá og benti á að það væri samningur við Kvennalistann. Nú hefur Kvennalistinn, ef ég skil niðurstöðurnar frá Hrafnagili rétt, ákveðið að opna þennan möguleika og þá hlýtur hæstv. ráðherra að eiga leikinn. Hann verður að spyrja sig hvað hann ætli til bragðs að taka, eða hvort hæstv. ráðherra ætlar áfram að sitja aðgerðarlaus í þessu máli og kenna öðrum um. Það verður að segjast eins er, og það hefur valdið mér og mörgum öðrum vonbrigðum, hvernig ráðherra hefur leikið þessi mál. Það er lítill vandi að efna til aðgerða sem kosta peninga og kosta aukin útlát og hæstv. ráðherra hefur ekki sparað það. Enginn hefur oftar og meira en hæstv. ráðherra efnt til aðgerða í húsnæðismálum sem kostað hafa aukin fjárútlát, en þegar kemur að því að gera óvinsælar aðgerðir er sífellt bent á aðra. Síðasta dæmið var hér í dag þegar hæstv. ráðherra var spurður að því hver væri stefna ríkisstjórnarinnar og til hverra aðgerða hæstv. ríkisstjórn ætlaði að grípa nú þegar ljóst er að ekki er ein einasta króna á fjárlögum til Byggingarsjóðs ríkisins. Og hvað sagði hæstv. ráðherra? Tók hann ekki á málinu eins og vera ber og sagði: Hér er ég, ráðherra húsnæðismála og ég er með tillögur í málinu? Nei, hún sagði: Það vita allir hvað ég vil, en það er hæstv. forsrh. sem á að svara, ekki ég því það er óvinsælt. Það er bara ég þegar eitthvað er vinsælt, en það er forsrh. og fjmrh. sem eiga að svara þegar eitthvað er óvinsælt. Þetta er því miður staðreynd í þessu máli.
    Við horfðum reyndar á það í sjónvarpinu ekki alls fyrir löngu á íþróttamóti suður í Hafnarfirði sem kallað er landsþing eða flokksþing Alþfl. og fer þannig fram að fyrst kastar varaformaðurinn skít í formanninn og síðan stendur formaðurinn upp og kastar skít í varaformanninn og svo endar þetta með gífurlega

löngum og skemmtilegum sáttatilraunum, eins konar sáttakossi, og því er lýst yfir að þetta hafi allt verið í gamni og reikningurinn er síðan sendur á Lánasjóð ísl. námsmanna ef maður skilur fréttina rétt. Þetta er það litla sem maður hefur séð að undanförnu um stefnu Alþfl. í húsnæðismálunum.
    Ég held að tími sé kominn til þess, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra manni sig upp í að koma hér upp og segja okkur hvernig eigi að leysa þessi mál. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að segja: Ég er hættur í ríkisstjórn ef ekki verður farið eftir því sem ég segi --- á meðan engin lausn kemur fram. Og það er auðvitað ákaflega ógeðfellt þegar lagt er fram á haustin fjárlagafrv. og hæstv. ráðherra segir: Ég styð ekki þetta fjárlagafrv. og ég ætla að hætta í ríkisstjórninni ef þessu verður ekki breytt. Auðvitað á hæstv. ráðherra að sjá um að fjárlagafrv. sé frá upphafi með þeim hætti að hæstv. ráðherra geti staðið við það. Annars er fjárlagafrumvarpið ekki stjfrv. Hafi hins vegar hæstv. ráðherra fallist á að frv. væri lagt fram sem stjfrv. ber hæstv. ráðherra ábyrgð á hverju einasta orði sem í þessu frumvarpi er. það er bara leikaraskapur gagnvart kjósendum, sem ekki vita betur, að segja annaðhvort í fjölmiðlum eða annars staðar og segja: Ég ber ekki ábyrgð á þessu. Ég ætla bara að bera ábyrgð á því sem er vinsælt, ekki á hinu sem er óvinsælt. Það eru hinir, fjmrh., forsrh. Þessi leikur hefur allt of lengi verið leikinn í þessu máli.
    Það sem hæstv. ráðherra getur hælt sér af er að hafa aukið mismuninn í húsnæðiskerfinu eins og best kemur fram hjá þeim sem hafa fengið mest út úr kerfinu að undanförnu. Ég kýs í því sambandi, virðulegi forseti, að lesa hér nokkur orð eftir Jón Rúnar Sveinsson í blaði sem heitir Búsetinn og er málgagn húsnæðissamvinnufélaga, þetta er 1. tölublað 1990, en þar segir greinarhöfundur þetta orðrétt: ,,Með hinum nýju lögum hafa stjórnvöld markað þá ótvíræðu stefnu að leiguíbúðir skuli framvegis njóta betri kjara en eignaríbúðir. Það sést af því að lán til leiguíbúða eru nú til 50 ára en til félagslegra eignaríbúða [þ.e. verkamannabústaða] er lánstíminn 43 ár. Þá eru lán til þeirra kaupleiguíbúða sem eru í leigu til 50 ára en aðeins til 43 eða 40 ára ef íbúðirnar eru seldar.`` Og síðar segir greinarhöfundur svo, með leyfi forseta: ,,Flest bendir til að dagar einhliða séreignar í húsnæðismálum Íslendinga séu taldir. Hverjar svo sem breytingar verða á skipan ráðherrastóla og ríkisstjórna í framtíðinni, þá mun öflug hreyfing eins og búsetahreyfingin, með þúsundir félagsmanna innan sinna vébanda og fastar rætur um allt land, hafa góða möguleika að standa af sér veðrabrigði í stjórnmálum sem reyndar kunna að vera skammt undan.``
    Að vísu má segja það hv. greinarhöfundi til hróss að hann spáir hruni og falli þessarar hæstv. ríkisstjórnar, hér er verið að þakka hæstv. ráðherra það sem hæstv. ráðherra hefur tekið af skattgreiðendum og afhent sumum þeirra sem hafa aðgang að félagslega kerfinu. Sumum þeirra. Sami hæstv. ráðherra skilur Byggingarsjóð ríkisins eftir með þeim hætti að í honum er eitt stórt núll í fjárlögum fyrir næsta ár. Eitt

stórt núll. Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra, það er algerlega út í hött, að kenna hæstv. forsrh. um eða hæstv. fjmrh. og jafnvel hæstv. utanrrh. vegna þess að hæstv. félmrh. ber ábyrgð á því stjfrv. sem er fjárlagafrv. fyrir íslenska ríkið á næsta ári.
    Staðreyndin sem blasir við eftir þessar umræður er sú að hæstv. ráðherra hefur með aðgerðaleysi sínu og mistökum, því ég ætla ekki að hæstv. ráðherra hafi viljandi gert öll þau mistök sem hafa gerst í þessu kerfi, orðið til þess að nú blasir við slíkur vandi í þessu kerfi að ekki er séð hvernig núv. eða næstu ríkisstjórnir geta leyst þennan vanda. Og það sem verst er er að hæstv. ráðherra heldur áfram að berja höfðinu við steininn og neitar að grípa til aðgerða við hæfi vegna þess að hæstv. ráðherra vill ekki, eða öllu fremur þorir ekki, að koma með tillögur sem duga. En hæstv. ráðherra þorir ekki einu sinni að bera ábyrgð á slíku heldur kennir Kvennalistanum um og segir: Ég get ekki lagt til að vextir hækki af því að Kvennalistinn vildi það ekki þegar ég samdi við hann fyrir einu og hálfu ári síðan. Nú hefur Kvennalistinn opnað þetta mál upp á nýtt og þess vegna hlýtur hv. Alþingi að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar eru nú tillögurnar? Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera?
    Ég minni á í þessu sambandi að hv. þingmenn Borgfl. lýstu því yfir að þeir væru tilbúnir til að hækka vexti af öllum lánum, líka þeim sem tekin voru fyrir 1. des. í fyrra. Ég minni á það að hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson lýsti því yfir að þingmenn úr Framsfl. væru einnig tilbúnir til þess. Með öðrum orðum, það gæti verið meiri hluti á hv. Alþingi fyrir því að reyna að bjarga þessum sjóði ef hæstv. ráðherra þessara mála er tilbúinn til þess að láta bjarga honum. Ég hef hins vegar grun um það, eins og flestir aðrir, að hæstv. ráðherra vilji ekki bjarga þessum sjóði. Og hver skyldi vera ástæðan? Ástæðan er sú að hæstv. ráðherra sagði strax í upphafi síns stjórnartímabils: Þetta kerfi getur ekki gengið upp. Ég er á móti þessu kerfi og þess vegna er um að gera að haga sér þannig að það fari beint lóðrétt á hausinn. Auðvitað hlýtur maður að álykta sem svo fyrst ekki er gripið til neinna aðgerða heldur aðeins öðrum kennt um. Það er auðvitað ekkert skemmtiverk að þurfa að koma eftir fjölmörg ár --- ég skil það vel að hæstv. ráðherra hlaupi hér úr salnum og kjósi að hlusta ekki á það sem hér er sagt --- hvorki stjórnarandstöðuþingmenn né aðra þingmenn, og lýsa skoðunum sínum með þessum hætti. Það er ekki vinsælt að segja að það þurfi að hækka vexti. Og það er ekki vinsælt að þurfa að segja sannleikann í þessu máli.
    Mér þykir nú leitt, virðulegur forseti, að svo sé komið að jafnvel hæstv. félmrh. skuli ekki hlusta. Hér kemur hann þó í gættina. Mér hefði fundist vera viðeigandi líka að hæstv. forsrh. væri hér viðstaddur og reyndar hæstv. fjmrh. því hæstv. félmrh. hefur vísað til þessara hæstv. ráðherra og þó einkum hæstv. forsrh. og sagt að hæstv. forsrh. eigi að svara þeirri spurningu sem til hæstv. félmrh. var beint hér rétt fyrir hlé.
    Ég spyr, virðulegur forseti: Er ekki þess að vænta

að hæstv. forsrh. komi hér í salinn? Hann sat hérna, ef ég má rifja það upp, undir þessum ummælum, sat hér í sínu sæti þegar hæstv. félmrh. benti á hæstv. forsrh. og sagði: Hæstv. forsrh. mun svara þessum spurningum, það á að beina þeim til hans, þ.e. hvað ríkisstjórnin ætlaði sér að gera og hver væri stjórnarstefnan í þessum málum. ( Forseti: Forseti hefur áður í kvöld lýst því að hæstv. forsrh. hafði fyrir löngu ráðstafað þessu kvöldi. Hann skildi hins vegar eftir símanúmer og sagði að leyfilegt væri að ná í sig ef brýn nauðsyn krefði. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji að svo sé og þá mun hæstv. forsrh. verða sóttur.) Ætli það sé ekki best, virðulegur forseti, að ég orði það þannig: Telur hæstv. forseti það vera brýnt að ná í hæstv. forsrh. þegar hæstv. félmrh. hefur sagt að hæstv. forsrh. þurfi að svara hér spurningum sem beint var til hæstv. ríkisstjórnar? Ég vil leggja það í dóm hæstv. forseta hvort það sé brýnt eður ei. En á meðan forseti hugsar sitt ráð ... ( Forseti: Forseti hefur þegar hugsað sitt ráð, hefur áður lýst því í dag að fram undan eru miklar umræður um Húsnæðisstofnun ríkisins og byggingarsjóðina þar sem innan tíðar verða lögð fram frv. þannig að nokkur áhöld voru um hvort ástæða væri til að leyfa þessa löngu umræðu hér í dag. Forseti féllst þó á það og telur raunar að þess gefist nægur kostur að ræða þessi mál nú á allra næstu dögum. Forseti setur það hins vegar í vald hv. 1. þm. Reykv. að ákveða hvort hann óskar eftir að forsrh. verði sóttur.) Virðulegi forseti. Ég þakka það mikla traust sem mér er sýnt með því að það er lagt í mitt vald að ákveða hvort kalla skuli á hæstv. forsrh. Ég heyri það að hæstv. forseti býr yfir þeirri þekkingu að vita að hér verða lögð fram frv., þá væntanlega í þeirri deild sem ræðumaður er í því að það er lítið gagn í því ef málið lendir í Ed. ef ég þarf að eiga orðastað við hæstv. forsrh. En ég mun að sjálfsögðu una því að hæstv. forsrh. verði ekki hér viðstaddur ef gera má ráð fyrir slíkri umræðu í Nd. alveg á næstunni. Ég minni á það, virðulegi forseti, að hv. 1. þm. Vesturl. upplýsti að þingflokkur framsóknarmanna hefði beint fjölmörgum spurningum til Ríkisendurskoðunar og þetta mál er með slíkum ósköpum að það verður að fást úr því skorið hver stjórnarstefnan er og til hvaða aðgerða ríkisstjórnin ætlar að grípa og hvort Framsfl. hafi verið að víkja þessum spurningum til Ríkisendurskoðunar vegna þess að Framsfl. sé óánægður með stjórnarstefnuna undir stjórn hæstv. félmrh. Þessum málum þarf auðvitað að svara og svara sem allra fyrst. ( Forseti: Forseti vill upplýsa eftir viðtal við hæstv. félmrh. um þessa umræðu sem hér fer nú fram að hæstv. félmrh. fullvissaði forseta um að vegna þess að hv. málshefjandi hér í dag er í Nd. munu þessi frv. koma fram í Nd.) Ég þakka fyrir, virðulegi forseti.
    Ég sé ekki ástæðu til að vera að endurtaka það sem hér hefur verið sagt, en það er eitt að lokum sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra og varðaði húsbréfin. Mig langar til þess að geta þess hér af því að ég sit í bankaráði stærsta viðskiptabankans og það virðist ekki hafa komið fram hjá öðrum að til skamms

tíma hefur horft til vandræða með húsbréfin. Ávöxtunarkrafan er rúmlega 7% þannig að það þýðir ekkert að vera að tala um einhverja nafnvexti eða vexti sem eru lægri. Sú ávöxtunarkrafa sem gerð er til þessara bréfa er liðlega 7% og menn verða að átta sig á því að á þessum markaði gerist það að ríkissjóður er mjög stór aðili og það er alveg út í bláinn að vera að tala um einhverja lægri prósentutölu þegar ljóst er að um stórkostleg afföll er að ræða. Menn þurfa því aðeins að hugsa sinn gang. Það er svo komið að ef þessi bréf seljast ekki á næstunni hygg ég að viðskiptabankarnir séu knúnir til þess að snúa sér til hæstv. ríkisstjórnar og biðja um einhverja endurskoðun á þessum málum einfaldlega vegna þess að bréfin eru föst. Ég þekki það í Landsbankanum að þetta er komið yfir þau mörk að til hættu horfir . Vonandi rætist samt úr en þar skiptir auðvitað miklu máli hvernig ríkissjóður stendur og hvernig ríkisstjórnin hæstv. bregst við.
    Þetta vildi ég láta koma fram því það var svo að skilja á máli hæstv. félmrh. að hann hefði ekki hugmynd um þetta og hefði reyndar ekki hugmynd um þá ávöxtunarkröfu sem gerð er til þessara bréfa. A.m.k. endurtók hæstv. ráðherra sífellt vaxtastigið án þess að geta affallanna.
    Í trausti þess, virðulegi forseti, að þetta mál verði áfram til umræðu innan tíðar og þá verði svörin heldur skýrari en þau sem komu frá hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. verði tilbúinn til þess að segja hver stefna ríkisstjórnarinnar sé, en hæstv. félmrh. beindi þeirri spurningu til hæstv. forsrh., sé ég ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, en við munum að sjálfsögðu sjá til þess, þingmenn Sjálfstfl., að það komist botn í þessi mál innan mjög skamms tíma því það má ekki lengur við það una að áfram verði haldið í þessum málum með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert undir forustu hæstv. félmrh. sem er sú leið aðgerðaleysis og mistaka sem hver ræðumaður á fætur öðrum hefur lýst hér í umræðunum í dag.