Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í orðum hv. fyrirspyrjanda hygg ég að allir flokkar hafi verið nokkuð sammála um að innleiða þetta kerfi 1986. Það var liður í kjarasamningum. Í mars 1987 kom fram greinargerð frá forstjóra Hagstofu Íslands þar sem vakin var athygli á því að til að þetta kerfi gæti með nokkru móti gengið upp yrði framlag ríkissjóðs að vera að lágmarki 1 milljarður á ári og raunar heldur meira, líklega nær 1300 millj. kr. --- þá var eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins orðið neikvætt um 600 millj. --- og/eða hækka vexti eða takmarka þann fjölda sem ætti rétt á láni úr Byggingarsjóði ríkisins meira en gert hafði verið ráð fyrir. Það verður bara að segjast eins og er að aldrei hefur náðst samstaða um þessa hluti. Þess vegna er það hárrétt sem kemur fram í orðum hv. fyrirspyrjanda að málefni byggingarsjóðanna eru í hinum mestu erfiðleikum, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
     Að sjálfsögðu hefur ríkisstjórnin fjallað um þessi mál. Þau eru nú í meðferð hjá þingflokkunum, m.a. þingflokki framsóknarmanna sem hefur beðið um athugun á húsbréfakerfinu, vill hafa það með í því mati sem fram þarf að fara. Á sl. vetri var gerð tilraun til að rétta lítillega við með því að hækka vexti. Þá náðist ekki samstaða um að hækka vexti á öllum lánum sem heimilt var að hækka vexti á og var að sjálfsögðu sú vaxtahækkun því hvergi nærri nóg.
    Tillaga hefur legið fyrir frá hæstv. félmrh. um að veita í byggingarsjóðina 1,5 milljörðum kr. Ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til þess að fallast á það. Slík fjárveiting þýðir ekkert annað en meiri halla á ríkissjóð. Og þó ekki sé gott að safna skuldum í byggingarsjóðunum er ekkert betra að safna skuldum með halla á ríkissjóð. Það er í raun og veru að fara úr einum vasanum í annan með þetta dæmi. Þetta mál verður að leysa á annan veg. Þótt ekki sé komin niðurstaða í þeirri athugun sem núna fer fram, þá er það mín skoðun, og ég er að lýsa henni sem minni persónulegu skoðun, að ekki er um neitt annað að ræða en að hækka vexti á öllum þeim lánum sem heimilt er að hækka vexti á. En það þarf samt að koma til nokkur fjárveiting til að brúa bilið á skikkanlegum tíma.
    Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að vera með tvö kerfi. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að leggja niður hið gamla kerfi, Byggingarsjóð ríkisins. En ég tek fram að þessi mál eru nú til meðferðar í þingflokkunum og hjá ríkisstjórn og endanleg niðurstaða er ekki fengin.
    Það er eflaust hárrétt sem hæstv. félmrh. hefur vakið athygli á í þessari umræðu, að það kann að vera erfiðleikum háð að hækka vexti nú vegna þjóðarsáttar. Ég tel að það mál eigi að ræða við aðila vinnumarkaðarins, sem hlýtur að vera jafnljós og öðrum sá mikli vandi sem er hjá þessum byggingarsjóðum. Svo ef það hefur falist í þeirri umræðu sem hér hefur verið, sem ég gat ekki hlustað á nema lítinn hluta af, að það verði að taka á þessu vandamáli þá tek ég undir það. Og það verður áreiðanlega gert að einhverju leyti en það verður ekki leyst á 1 -- 2 eða 3 árum. Það mun taka lengri tíma.