Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mjög. Þær hafa um margt verið athygli verðar en varpa fyrst og fremst ljósi á þann mikla skoðanaágreining sem er á milli stjórnarflokkanna um úrlausn í þessu máli. Ég hygg að ekki fari á milli mála að þessar umræður hafa leitt í ljós að vandi byggingarsjóðanna stafar fyrst og fremst af því að hæstv. núv. félmrh. hefur frá öndverðu neitað að horfast í augu við staðreyndir mála, neitað að framfylgja gildandi lögum á þann veg að vaxtamunur yrði ekki óhæfilegur. Hæstv. ráðherra ber þess vegna ábyrgð fyrst og fremst á þeirri löngu og miklu biðröð með því að hafa viðhaldið óhæfilega miklum vaxtamismun í kerfinu. Jafnframt ber hæstv. ráðherra ábyrgð á því að í fjárlögum þessa árs og aftur í fjárlagafrv. fyrir næsta ár eru allsendis ófullnægjandi fjárveitingar til þess að standa undir lágmarksskuldbindingum, þó ekki sé talað um annað en að fullnægja þeim skuldbindingum sem þegar er búið að ákveða. Og reyndar hefur það komið nú í ljós að hæstv. forsrh. tekur undir þessa gagnrýni á hæstv. félmrh. með mjög afgerandi yfirlýsingum hér í þinginu. Sætir kannski mestum tíðindum í þessari umræðu sú ofanígjöf sem hæstv. félmrh. fær nú í þeirri ræðu sem hæstv. forsrh. hefur nýflutt. Það hefur líka komið fram að hæstv. félmrh. hefur ráðist á þingflokk Framsfl. fyrir að óska eftir sérstakri úttekt Ríkisendurskoðunar sem hæstv. forsrh. hefur nú lýst að Framsfl. í heild telji nauðsynlegt að gerð verði áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar.
    Þannig hefur umræðan varpað ljósi á þá miklu pólitísku erfiðleika sem eru í málinu vegna mismunandi skoðana a.m.k. tveggja þeirra flokka sem aðild eiga að hæstv. ríkisstjórn. Það er ástæða til þess að ítreka þá spurningu, eftir að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að málið verði ekki leyst á annan veg en með að hækka vexti og þar á meðal á lánum aftur í tímann, hvort hæstv. félmrh. ætli enn að berja höfðinu við steininn og neita slíkri aðgerð sem þátt í nauðsynlegri úrlausn. Er óhjálkvæmilegt að ítreka þá spurningu eftir að þau ummæli hafa fallið sem hv. þm. heyrðu í ræðu hæstv. forsrh.
    Ég vildi, og það var nú aðalerindi mitt upp í ræðustólinn, víkja aðeins að þeim ummælum hæstv. félmrh. sem lutu að þjóðarsáttinni. Hæstv. félmrh. hefur borið fyrir sig ýmislegt þann tíma sem ráðherrann hefur setið að völdum til þess að komast hjá því að taka á þessu viðfangsefni. Afsakanirnar eru breytilegar frá einum tíma til annars. Sú afsökun sem nú er í gildi er svokölluð þjóðarsátt. Hæstv. ráðherra segir: Á meðan þjóðarsáttin gildir --- ef ég hef skilið ráðherrann rétt --- er ekki hægt að taka á þessu viðfangsefni.
    Ég skildi hæstv. forsrh. á þann veg að kjarasamningarnir sem kenndir eru við þjóðarsátt ættu ekki að vera í vegi fyrir því að vandi byggingarsjóðanna yrði leystur. En hann vék þó að því að það kynni að vera erfiðleikum háð af þeim sökum. Hæstv. forsrh. hefur við ýmis önnur tækifæri, m.a. í umræðum um launamál háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, vikið að því

að þegar þjóðarsátt ljúki megi hugsanlega líta á þeirra launamál með öðrum hætti en núverandi bráðabirgðalög gera ráð fyrir.
    Að gefnum þessum ummælum frá þessum tveimur hæstv. ráðherrum tel ég nauðsynlegt að fá svör við því hvort hæstv. ríkisstjórn lítur svo á að þjóðarsátt aðila vinnumarkaðarins, sem tryggði lægri verðbólgu á þessu ári en stefndi í samkvæmt efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, sé aðeins bráðabirgðafyrirbæri fram yfir kosningar, fram í september á næsta ári og síðan sé það ætlun hæstv. ríkisstjórnar að láta allt fara lönd og leið. Stendur hæstv. ríkisstjórn nákvæmlega á sama um það hvernig hlutir þróast að loknum þessum kjarasamningum? Mín skoðun er sú að það sé allsendis ófullnægjandi að búa við einhverja tímabundna þjóðarsátt um þetta efni. Lág verðbólga verður að vera varanlegur veruleiki hér á næstu árum. Í mínum huga er ekkert sem heitir að þjóðarsátt ljúki á næsta ári, að kosningum loknum. Þjóðarsátt um lága verðbólgu verður að standa. Þess vegna vil ég inna eftir því hvort þessi ummæli og þessar afsakanir í hverju málinu á fætur öðru um að slaka megi á þegar þjóðarsátt lýkur þýði það að hæstv. ríkisstjórn líti aðeins á þetta sem bráðabirgðafyrirbæri. Ég vona að svo sé ekki, en þá hlýtur maður að ætlast til þess að ummæli hæstv. ráðherra falli á annan veg en þennan.