Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rangt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að varpa allri sök á hæstv. félmrh. í þessu máli. Ég held að við séum allir samsekir í því. Ég sem forsrh. nú og hann sem forsrh. 1987 -- 1988 og kannski sem fjmrh. áður. Ég held að staðreyndin sé sú að við færðumst of mikið í fang og réðum ekki við þetta kerfi eins og það var síðan framkvæmt. Ég vek athygli á því að hæstv. félmrh. hefur lagt til nú að lagðar verði fram 1500 millj., sem er nokkurn veginn það sem þarf til þess að halda jafnvægi í kerfinu og rétta eitthvað við. Við höfum ekki treyst okkur til að fallast á þá tillögu. Þetta er út af fyrir sig tillaga, svo að ég vil leiðrétta það þegar hv. þm., eins og hann hefur gjarnan tilhneigingu til, telur að ég hafi verið að varpa allri sök á félmrh. Það er alls ekki. Ég held að þarna eigi allir flokkar sök á og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.
    Um þjóðarsáttina. Sú þjóðarsátt sem nú er gildir fram í september. Sú ríkisstjórn sem nú situr, sem væntanlega situr þá eftir kosningar eins og ég skildi hv. þm., því að hann vildi vita hvort við mundum ekki stuðla að þjóðarsáttinni áfram, mun stuðla að henni, alveg tvímælalaust. En þá verða nýir samningar á hinum almenna markaði og vitanlega verður að byggja þá þjóðarsátt, sem við gerum ráð fyrir að ná þá, á þeirri stöðu sem verður í þjóðarbúinu. Hér verður ekki allt óbreytanlegt. Ég geri ráð fyrir því að þá verði aðrar viðmiðanir hjá aðilunum á hinum almenna vinnumarkaði og tekið inn í það sem þá kann að hafa safnast saman. Við vonum að það verði ekki mjög mikið.
    Það sem ég sagði um BHMR vísar að sjálfsögðu til þess að ef sá samanburður verði gerður sem að er unnið. Geti menn skoðað hann og virt hann fyrir sér og þá geti það orðið liður í þjóðarsátt að leiðrétta, ef hann leiðir í ljós ástæðu til leiðréttingar. Ég get ekki svarað þeirri spurningu nú hvort hann leiðir í ljós ástæðu til leiðréttingar.
    Ég sagði áðan að ég tel sjálfsagt á meðan við erum í þessari þjóðarsátt að ræða við þá aðila sem eru þátttakendur í henni hvort menn geti ekki fallist á að einhver hækkun á vöxtum verði nú þegar. Ef það er ekki, þá verður tvímælalaust að taka það inn í næstu þjóðarsátt.