Flm. (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka fyrir þær umræður sem fram fóru um þetta efni hér í dag. Þær voru um margt athygli verðar og einkanlega þó svör hæstv. utanrrh. og formanns þingflokks framsóknarmanna, hv. 1. þm. Norðurl. v.
    Það var mjög athygli vert á hvern veg fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna töluðu í þessu máli. Bæði fulltrúar Alþfl. og Alþb. tóku jákvætt í stuðning við Litáen
og önnur ríki við Eystrasalt, en formaður þingflokks framsóknarmanna var fulltrúi hins svartasta afturhalds í þessu efni.
    Ég kemst ekki hjá því að víkja með fáeinum orðum að makalausum yfirlýsingum formanns þingflokks framsóknarmanna um þetta efni þar sem hann sagði að tillaga sem þessi væri íhlutun sem virkaði eins og olía á eld. Íhlutun í hvað? Íhlutun í hvaða málefni er þessi tillaga? Ekki er hún íhlutun í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Nei. Hún er þáttur í markvissri viðleitni til þess að styðja við bakið á sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Þau hafa öll farið fram á það að hljóta formlega viðurkenningu og að stofnað yrði til stjórnmálasambands. Í hvaða tilgangi? Í þeim tilgangi að styrkja sjálfstæðiskröfurnar í viðræðum við miðstjórnarvaldið í Moskvu. En í hvaða málefni getur þessi tillaga þá verið íhlutun? Hún getur auðvitað verið íhlutun í þá afstöðu miðstjórnarvaldsins í Moskvu að viðhalda ólögmætu hernámi Sovétríkjanna á Eystrasaltsríkjunum. Það eru þeir hagsmunir sem hv. þm. Páll Pétursson er að verja. Hann er að verja ólögmæta hernaðaríhlutun og innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin. Um það atriði má Alþingi Íslendinga ekki íhlutast af því að það getur skaðað hagsmuni Gorbatsjovs. Það getur skaðað hagsmuni Sovétríkjanna sem nú eru í vanda. Þá er ástæða til þess að víkja til hliðar eðlilegu skrefi til stuðnings ríkjum sem hafa að alþjóðalögum fullan rétt til þess að endurheimta sjálfstæði sitt.
    Þegar hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks framsóknarmanna, talar um íhlutun í tengslum við þessa tillögu, þá getur það ekki haft aðra þýðingu en þá að verja hagsmuni þeirra sem hafa með hernaðarlegu ofbeldi innlimað þessi ríki í Sovétríkin og viðhaldið því í 50 ár. Og það er athygli vert að jafnvel fulltrúi Alþb. í þessari umræðu, hv. 2. þm. Austurl., sem ekki hefur verið talinn til frjálslyndustu manna á Alþingi Íslendinga nú um stundir, skuli taka með miklu jákvæðari hætti í þessa tillögu en þingflokksformaður þeirra framsóknarmanna. Það lýsir kannski betur en flest annað þeim raunverulegu aðstæðum sem nú eru í íslenskum stjórnmálum þar sem Framsfl. er í einu og öllu málsvari hins sótsvartasta afturhalds á öllum sviðum, þar á meðal í mikilvægum utanríkismálum eins og þessum.
    Hæstv. utanrrh. vék að nokkrum atriðum sem torvelduðu að slíkt skref yrði stigið sem hér er lagt til. Hann minnti á að ríkin búa enn við hernám. Vegna hernaðaríhlutunar Sovétríkjanna er það erfiðleikum bundið fyrir þessi ríki að framkvæma sjálfstæðisyfirlýsinguna. Ég vil þó minna á að öll ríkin hafa tekið ákvarðanir um að koma upp eigin tollgæslu og hafa þegar komið því að hluta til til framkvæmda og falið mönnum slík störf, þótt tollgæsla miðstjórnarvaldsins í Moskvu sé enn ráðandi.
     Hæstv. ráðherra vék einnig að því skilyrði að sérhver ríkisstjórn yrði að ráða yfir landi. Það er að sönnu rétt. En hvernig var þetta í Austur - Evrópu meðan Brésnev - kenningin var í gildi? Við viðurkenndum þau ríki þó að margsinnis hafi verið sýnt fram á að yfirráðaréttur þeirra var takmarkaður við vilja miðstjórnarvaldsins í Moskvu, eins og atburðirnir sýndu 1956 í Ungverjalandi og aftur 1968 í Tékkóslóvakíu. Og það má enn fremur minna á, ekki síst vegna þess að utanrrh. tók dæmið af Kúvæt sem íbúum Eystrasaltsríkjanna er tamt að vitna til, enda er samanburðurinn alveg augljós, að þau ríki sem höfðu stjórnmálasamband við Kúvæt og höfðu þar sendiráð lyppuðust ekki niður vegna hótana valdhafa í Írak og sögðu: Nú lokum við okkar sendiráðum og leggjum þau niður. Nei, þvert á móti voru viðbrögð þeirra þau: Við áttum að halda okkar sendiráðum. Við viðurkennum þetta ríki sem sjálfstætt og fullvalda ríki, þrátt fyrir ólögmætt hernám. Og á nákvæmlega sama hátt getum við komið á stjórnmálasambandi við ríki sem þannig er ástatt um, svo að við notum nú samjöfnuðinn við Kúvæt sem hæstv. utanrrh. réttilega minnti hér á, vegna þess að hann sker mjög í augum.
    Þegar vikið er að viðurkenningu Dana á sínum tíma á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna kemur það nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar er vitnað í það að þessi aðgerð dönsku ríkisstjórnarinnar á þeim tíma feli í sér að íslenska ríkisstjórnin á þeim tíma hafi þá viðurkennt sjálfstæði þessara ríkja og því þurfi ekki á nýrri viðurkenningu að halda. Samt er í hinu orðinu sagt að það megi ekki viðurkenna þessi ríki vegna hagsmuna Gorbatsjovs og miðstjórnarvaldsins í Moskvu. Ég kem þessari röksemd ekki heim og saman. Augljóst er þegar hæstv. utanrrh. hefur fengið þau svör frá ríkjum sem eins er ástatt um, að ekki þurfi að ítreka slíkar yfirlýsingar, að þá er þar um að ræða ríki sem af efnislegum ástæðum vilja ekki á þessu stigi máls stíga þetta skref og skjóta sér á bak við ákvarðanir af þessu tagi frá löngu liðnum tíma. Fyrir þá sök lít ég svo á að við eigum ekki að skjóta okkur á bak við þessa ákvörðun dönsku ríkisstjórnarinnar á sínum tíma.
    Ég held að við Íslendingar eigum hér eftir sem hingað til í þessum málum að ganga feti framar en aðrar þjóðir. Það ber að virða það sem nú þegar hefur verið gert. En það er ekki nóg að lýsa almennum stuðningi í orðum en hafna síðan að stíga þau skref sem skipta mestu máli fyrir þessar þjóðir til þess að auka styrk þeirra í baráttunni fyrir sjálfstæði sínu. Spurningin er sú: Viljum við leggja eitthvað af mörkum til þess að styrkja baráttu þessara ríkja? Þau biðja um formlega viðurkenningu vegna þess að þau meta það sem stuðning, virkan stuðning.
    Það er ódýrt fyrir hv. 1. þm. Norðurl. v. og formann þingflokks framsóknarmanna að koma hér upp

og segja almennum orðum að hann beri hlýjan hug til þessara ríkja, en hann sé á móti öllum virkum stuðningi við sjálfstæðisbaráttu þeirra af því að taka þurfi fram yfir þann lagalegan rétt hagsmuni miðstjórnarvaldsins í Moskvu. Í þá hagsmuni megi íslensk stjórnvöld ekki blanda sér og þaðan af síður Alþingi Íslendinga. Það er dapurlegt að jafnvel talsmaður Alþb. skuli lýsa frjálslyndari viðhorfum í þessu efni en formaður þingflokks framsóknarmanna.
    Frú forseti. Ég vildi aðeins koma þessum athugasemdum á framfæri vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram. Ég fagna því hins vegar að þrátt fyrir neikvæð viðhorf af hálfu framsóknarmanna hafa talsmenn annarra flokka lýst mjög jákvæðum viðhorfum. Í verki hefur hæstv. utanrrh. stigið mikilvæg skref í þessu efni þó að hann hafi ekki enn fengist til þess að lýsa yfir stuðningi við að Ísland stígi þetta mikilvæga skref til stuðnings þessum ríkjum í mikilvægri baráttu þeirra.
    Ég vænti þess svo að þessi tillaga fái umfjöllun í hv. utanrmn. og skjóta afgreiðslu þannig að Alþingi geti innan tíðar tekið endanlega afstöðu til hennar.