Páll Pétursson :
    Frú forseti. Nú er ég ekki að draga það í efa að hv. 1. þm. Suðurl. er frelsisunnandi mannvinur og vill vel. Og í þeim anda hefur hann sennilega flutt þessa tillögu sína. Hann telur að það sé eðlilegt skref sem þar er lagt til að stíga. Ég held því hins vegar fram að það væri víxlspor.
    Ég er ekki hér að verja hagsmuni Sovétríkjanna sér á parti. Ég þykist einnig og ekki síður vera að verja hagsmuni Eystrasaltsríkjanna sem ég ber mjög hlýjan hug til. Ég held að við Íslendingar eigum ekki að hlutast til um í þessari deilu á neinn þann hátt sem yki á spennu eða bætti á vandræði við austanvert Eystrasalt. Ég tel að við eigum að aðstoða Eystrasaltsþjóðirnar á hvern þann hátt sem þeim má að gagni koma. Og ég tók það reyndar fram í fáum orðum sem ég sagði fyrr í þessari umræðu. Ég tel hins vegar að sú tillaga sem hér er til umræðu komi þeim ekki að gagni þó samþykkt yrði.
    Ég leiði hjá mér að svara hnýfilyrðum hv. 1. þm. Suðurl. Hann blés sig hér út áðan og skammaðist yfir afstöðu minni en hann var ekki bara að skamma mig, hann var að skamma allan hinn vestræna heim. Afstaða mín er svipuð og afstaða ríkisstjórna Norðurlanda og ég get ágætlega tekið undir sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherra Norðurlanda. Afstaða mín er svipuð og Bandaríkjamanna og annarra NATO - þjóða þannig að hv. 1. þm. Suðurl. er ekki einasta að skamma mig heldur er hann að skammast yfir þessum þjóðum öllum sem honum hefur þótt býsna góðar fram að þessu.
    Ég held að við Íslendingar eigum að stuðla með öllum ráðum sem við höfum tiltæk að friðsamlegri lausn þeirra ágreiningsmála sem eru á milli Sovétríkjanna og Eystrasaltsríkjanna, sem ég tel að séu alvarleg, mjög alvarleg, bæði stjórnmálalega og efnahagslega. Við eigum að reyna að aðstoða og stuðla að friðsamlegri lausn þessara mála þannig að niðurstaðan verði ásættanleg og fullnægjandi. Ég tel hins vegar að þessi tillaga, þó samþykkt yrði, stuðli ekki að lýðræðislegri þróun við austanvert Eystrasalt. Í besta falli er hún gagnslaus. Í versta falli gæti hún orðið til ills. Og mér finnst hún lykta töluvert meira af sýndarmennsku heldur en alvöru í utanríkismálum.