Meðferð opinberra mála
Þriðjudaginn 06. nóvember 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um meðferð opinberra mála sem flutt er á þskj. 101. Frv. fjallar um réttarreglur í refsimálum.
    Á síðasta þingi var frv. þetta lagt fram til kynningar en varð að sjálfsögðu ekki útrætt. Frv. var sent nokkrum aðilum til umsagnar á sl. sumri. Umsagnir bárust frá rannsóknarlögreglustjóra ríkisins, yfirsakadómaranum í Reykjavík, Lögmannafélagi Íslands og Sýslumannafélagi Íslands. Umsagnir þessar voru sendar réttarfarsnefnd til athugunar. Smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á fyrri gerð frv. og var að nokkru tekið tillit til framkominna umsagna.
    Endurskoðun þessara laga er liður í þeirri heildarendurskoðun á dómstólakerfi landsins og réttarfarsreglum sem grundvöllur hefur verið lagður að með lögunum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92/1989, er kemur til framkvæmda 1. júlí 1992.
    Frv. er ætlað að koma í stað laga um meðferð opinberra mála nr. 74/1974, en þau lög eru að stofni til lög nr. 27/1951, sem sætt hafa nokkrum breytingum, og þrívegis hafa verið gefin út ný lög, síðast 1974.
    Fyrir gildistöku laga nr. 27/1951 gilti hér á landi í öllum meginatriðum svokallað rannsóknarréttarfar. Megineinkenni þess er að ekki er greint svo skýrt sé á milli ákæruvalds og dómsvalds. Með lögum nr. 27/1951 voru gerðar allveigamiklar breytingar á réttarfari í opinberum málum, m.a. dregið úr ákæruvaldi dómara og ákvörðun um saksókn færð að mestu leyti til dómsmrh., auk ýmissa annarra réttarbóta. Með lögum nr. 57/1961 var gerð sú breyting að ákæruvaldið var fært til sérstaks opinbers ákæranda, saksóknara ríkisins.
    Eftir sem áður var ekki skilið að fullu milli ákæruvalds og dómsvalds þar sem dómarar höfðu stjórn lögreglu með höndum og hófu eða létu hefja rannsókn af sjálfsdáðum. Í flestum málum var enginn til þess að flytja málið af hálfu ákæruvaldsins heldur ákváðu dómarar sjálfir hvaða gögn yrðu færð fram í máli og önnuðust öflun þeirra.
    Með stofnun Rannsóknarlögreglu ríkisins, samkvæmt lögum nr. 108/1976, fékkst veruleg réttarbót. Var með því stigið skref í átt að svokölluðu ákæruréttarfari. Þrátt fyrir þessa breytingu stóðu eftir leifar hins gamla rannsóknarréttarfars, einkum utan Reykjavíkur, þar sem dómari fór jafnframt með stjórn lögreglu.
    Á vegum réttarfarsnefndar hófst á árinu 1979 vinna að nýjum reglum um meðferð refsimála og voru fyrstu drög að frv. þegar tilbúin á því ári. Í þeim var að sjálfsögðu miðað við núgildandi dómaskipan. Á næstu árum var nokkuð unnið að því að fullgera drög þessi en ekki kom þó til þess að frv. yrði lagt fyrir Alþingi. Eftir að sú stefna var tekin að gerbreyta dómaskipan á landinu var á ný tekið til við að vinna að nýju frv. til laga um meðferð opinberra mála sem væri í samræmi við hina nýju skipun og er árangur þess starfs frv. það sem nú er hér mælt fyrir.
    Í frv. er að finna margvíslegar breytingar á gildandi lögum um meðferð opinberra mála. Veigamestu breytingarnar eru þó þessar:
    1. Skilið er að fullu milli ákæruvalds og dómsvalds.
    2. Reglum um ákæruvald er breytt. Lögreglustjórum er veitt heimild til höfðunar máls í smærri málum. Gert er ráð fyrir að ríkissaksóknari geti falið lögreglustjóra ríkisins að annast flutning mála er hann hefur höfðað. Áfram er ríkissaksóknari þó æðsti handhafi ákæruvalds.
    3. Rýmkuð er heimild lögreglustjóra til þess að ljúka máli með sátt þar sem játning sakbornings liggur fyrir.
    4. Málsmeðferð fyrir héraðsdómi er breytt að ýmsu leyti. Gert er ráð fyrir að fulltrúi ákæruvalds mæti í dómi nær undantekningarlaust. Málsmeðferð yrði meira í höndum ákæruvalds og verjanda sakbornings og dómari yrði hlutlausari í meðferð málsins. Tekin er upp svokölluð aðalmeðferð máls líkt og í einkamálum, þ.e. að lokinni gagnaöflun komi vitni fyrir í einu þinghaldi og málflutningur fari fram í beinu framhaldi.
    5. Reglur um réttarstöðu sakbornings og um vörn hans og um þvingunarúrræði undir rannsókn máls eru gerðar skýrari.
    6. Reglum um málskot til Hæstaréttar er breytt, bæði um kæru og áfrýjun.
    Verður nú gerð nánari grein fyrir efni frv., niðurröðun efnis og kaflaskiptingu og vakin athygli á helstu nýmælum.
    Í I. kafla er greint frá því til hvaða mála lögin taka. Í fyrsta lagi taka þau til eiginlegra opinberra mála, þ.e. mála sem höfðuð eru til þess að koma fram refsingu á hendur manni fyrir afbrot, svo og mála til að koma fram refsikenndum viðurlögum þótt ekki sé krafist refsingar. Í 2. gr. eru auk þess taldir upp nokkrir málaflokkar sem rétt þykir að fari eftir reglum laganna eftir því sem við á þótt ekki sé um eiginleg opinber mál að ræða.
    Í II. kafla frv. er fjallað um dómendur í héraði. Er efni hans í samræmi við ákvæði laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
    III. kaflinn fjallar um þinghöld, birtingar og fleira. Engar verulegar breytingar eru gerðar á umræddum atriðum frá gildandi lögum. Nefna má þó að hér er gert ráð fyrir að dómstólar nýti sér tækni, tölvur o.fl. Gert er ráð fyrir að skráning mála verði færð í tölvum sem auðveldar að fá ýmsar tölfræðilegar upplýsingar, svo og eykur það möguleika á betra eftirliti. Einnig er gert ráð fyrir að nota tölvu að einhverju leyti í stað þingbóka er leiða ætti til hagræðis.
    IV. kaflinn fjallar um varnarþing. Hér er fjallað um það hvar opinber mál skuli höfða. Höfða má mál þar sem brot er framið, á brotavarnarþingi. Ef hentugra þykir er þó heimilt að höfða mál á varnarþingi þar sem brotamaður er búsettur eða þar sem hann dvelur, heimilis - og dvalarvarnarþingi.
    Í V. kafla frv. er fjallað um ákæruvaldið. Hér er um nokkrar veigamiklar breytingar að ræða frá gildandi lögum. Skv. lögum um meðferð opinberra mála

fer ríkissaksóknari fyrst og fremst með ákæruvaldið. Hann gefur út ákærur. Það sérkenni hefur verið á skipan ákæruvalds hér á landi að saksóknarar hafa eigi haft afskipti af rekstri opinberra mála í héraði nema í viðameiri málum. Hefur héraðsdómari, sakadómari, átt að gæta hagsmuna ákæruvaldsins, m.a. með því að taka ákvörðun um hvaða gögn skuli færð fram o.s.frv. Þessi skipan hefur og tengst því að saksóknarar hafa aðeins setið í Reykjavík og þykir ekki við komið nema í hinum stærstu málum að þing sé sótt af hálfu ákæruvalds.
    Í þeim réttarfarsbreytingum, sem í lögum nr. 92/1989 felast, er m.a. stefnt að því að dómarar fari alls ekki með ákæruvald og að ákærandi fylgi ákæru sinni eftir við meðferð málsins. Sú breyting er lögð til að lögreglustjórum sé falið ákæruvald, hverjum í sínu umdæmi. Málshöfðunarvald þeirra er takmarkað við mál er rísa af brotum gegn umferðarlögum og áfengislögum, svo og brotum gegn öðrum lögum, nema almennum hegningarlögum, þar sem eigi er lögð þyngri refsing við broti en sektir eða varðhald. Af þeim málum sem hér koma til greina skipta umferðarlagabrotin mestu máli, þar á meðal ölvunarakstur, en slík mál eru mjög verulegur hluti þeirra opinberu mála sem koma til kasta dómstóla. Mál þau sem lögreglustjórar höfða eiga þeir sjálfir að flytja í héraði. Ríkissaksóknari getur einnig falið þeim flutning annarra mála í héraði. Heimildar þessarar mundi sjálfsagt einkum verða neytt í umdæmum sem liggja fjarri Reykjavík. Um framkvæmd ákæruvalds getur ríkissaksóknari sett reglur en einnig gefið fyrirmæli um einstök mál eða tekið mál sjálfur í sínar hendur.
    Ríkissaksóknari er eftir sem áður æðsti handhafi ákæruvalds, en honum til aðstoðar eru vararíkissaksóknari, saksóknarar og fulltrúar á sama hátt og nú tíðkast. Dómsmrh. hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds og getur krafið ríkissaksóknara skýrslna um einstök mál en hann getur ekki gefið ríkissaksóknara fyrirmæli um einstök mál.
    Það nýmæli er sett í 2. mgr. 26. gr. að þyki ákvörðun ríkissaksóknara um niðurfellingu máls fjarstæð eða löglaus getur ráðherra lagt til við forseta Íslands að ákvörðunin verði felld úr gildi og mál höfðað. Þessi heimild nær hins vegar ekki til þess að fella úr gildi ákvörðun ríkissaksóknara um að mál skuli höfðað.
    Í VI. kafla er fjallað um sakborning og verjanda. Í kafla þessum er leitast við að safna í einn stað almennum reglum um sakborning og réttarstöðu hans, þar á meðal rétt hans til málsvara. Að ýmsu leyti er hér um ítarlegri reglur að ræða en eru skv. gildandi lögum, einkum er varðar réttarstöðu sakbornings. Um málsvara sakbornings eru reglur í 34. -- 44. gr. Er hér greint á milli verjanda, sem dómari skipar, réttargæslumanns handtekins manns, sem rannsóknari tilnefnir, og talsmanns, sem sakborningur ræður á eigin kostnað.
    Í 41. gr. frv. segir svo um hlutverk verjanda að það sé að færa fram í máli hvað það sem verða megi sakborningi til sýknu eða hagsbóta og gæta réttar hans

í hvívetna.
    VII. kaflinn fjallar um sönnun og er hann í samræmi við XIII. kafla núgildandi laga. Koma hér fram grundvallarreglurnar um að sönnunarbyrðin hvílir á ákæruvaldinu og um frjálst mat sönnunargagna.
    VIII. kaflinn fjallar um vitni, mat og skoðun. Kafli þessi svarar til XII. kafla gildandi laga. Nefna má að sú breyting er lögð til að eið - og heitfestingar skuli ekki fara fram nema í undantekningartilvikum.
    Í IX. kafla er að finna almennar reglur um rannsókn máls. Með rannsókn er hér átt við þær aðgerðir sem miða að því að gera ákæranda fært að ákveða hvort mál skuli höfðað og að því að afla nauðsynlegra gagna til þess að undirbúa málsmeðferð fyrir dómi. Gert er ráð fyrir að rannsókn verði að öllu leyti í höndum lögreglu og ákæruvalds, en dómsrannsóknir skv. gildandi lögum verði lagðar niður. Þótt rannsókn að þessu leyti verði ekki í höndum dómara framvegis er þó nauðsynlegt að atbeini dómara komi til í vissum tilvikum. Koma hér fyrst og fremst til greina ummæli um að tilteknar aðgerðir megi ekki fara fram nema skv. dómsúrskurði, t.d. leit og gæsluvarðhald. Í undantekningartilvikum geta yfirheyrslur fyrir dómi á rannsóknarstigi verið nauðsynlegar eða heppilegar, sbr. 74. gr.
    Leitast er við að setja nokkru skýrari ákvæði um rannsókn á geðhögum sakbornings. Er gert ráð fyrir að gagnger geðheilbrigðisrannsókn verði því aðeins látin fara fram að sérstakur grunur leiki á því að sakborningur sé ósakhæfur, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga, eða að svo standi á sem 16. gr. sömu laga segir. Geðheilbrigðisrannsóknir hafa hingað til verið tíðkaðar í miklu fleiri tilvikum og verður að telja æskilegt að dregið verði úr þeim. Gert er ráð fyrir að þegar ástæða er til fari fram einföld athugun læknis eða sálfræðings á sakborningi og ætti þá í flestum tilfellum að vera hægt að gera sér ljóst hvort þörf er á eiginlegri geðrannsókn.
    X. kaflinn fjallar um hald á munum o.fl. Ekki verða raktar hér í einstökum atriðum breytingar sem felast í ákvæðum þessa kafla. Aðeins skal þó bent á ákvæði 36. gr. um hlustun síma og aðrar skyldar ráðstafanir. Umrædd ákvæði eru að verulegu leyti sniðin eftir 71. kafla dönsku réttarfarslaganna.
    XI. kaflinn fjallar um leit. Kafli þessi kemur í stað VII. kafla núgildandi laga, en ekki er um verulegar efnisbreytingar frá ákvæðum þess kafla að ræða.
    XII. kafli fjallar um handtöku. Reglur núgildandi laga eru miðaðar við það að dómarar fari með rannsókn mála. Í frv. eru því gerðar ýmsar breytingar á reglum um handtöku í samræmi við það að dómarar eiga ekki að stýra rannsókn, heldur lögregla og ákæruvald.
    XIII. kafli fjallar um gæsluvarðhald. Reglur um þetta efni eru að verulegu leyti í samræmi við VIII. kafla gildandi laga um meðferð opinberra mála. Að ýmsu leyti er þó hér um skýrari reglur að ræða. Reglur 108. gr. frv. um framkvæmd gæsluvarðhalds koma í stað 70. gr. núgildandi laga og eru töluvert breyttar. Ekki er gert ráð fyrir að gæslufangar hafi verið í

einrúmi nema þegar rannsóknarnauðsynjar krefjast þess. Þá eru reglur skýrari um rétt til þess að fá heimsóknir, til þess að taka við bréfum og skjölum og hafa aðgang að fjölmiðlum. Einungis má takmarka þessi réttindi ef nauðsyn er vegna rannsóknarinnar og er það sá sem rannsókn stýrir sem slíkar takmarkanir setur, en ekki dómari eins og gert er ráð fyrir í 70. gr. núgildandi laga, enda stýra dómarar ekki lengur rannsóknum.
    109. gr. kemur í stað 71. gr. núgildandi laga um tryggingu í stað gæsluvarðhalds. 110. gr. mælir fyrir um ferðabann sem dómari getur lagt á sakborning, sbr. upphafsákvæði 72. gr. núgildandi laga, enn fremur um vistun sakbornings á sjúkrahúsi eða annarri viðeigandi stofnun ef heilsu eða högum sakbornings er svo háttað að gæsluvarðhaldi verður ekki við komið.
    Í XIV. kafla ræðir um saksókn og undirbúning málsmeðferðar þegar mál er höfðað með ákæru, en einnig um það hvenær máli verði lokið án málshöfðunar. Rýmkaðar eru heimildir lögreglustjóra til þess að ljúka máli með sektarákvörðun. Nær heimild lögreglustjóra til sektarákvörðunar, fallist sakborningur á það, vegna brots er lögreglustjóri fer með ákværuvaldið í og ef viðurlög við broti fara ekki fram úr sviptingu ökuleyfis allt að einu ári, upptöku eigna, eða sekt af tiltekinni fjárhæð sem dómsmrh. ákveður í reglugerð eftir tillögu ríkissaksóknara. Þessi rýmkun ætti að geta orðið til þess að álag á dómstóla léttist töluvert.
    Í 3. mgr. 115. gr. frv. er það nýmæli að lögreglustjóri getur valið um það ef sakborningur greiðir ekki sekt, sem hann hefur undirgengist skriflega, að ákveða saksókn fyrir dómi (gefa út ákæru og leggja fyrir viðeigandi dómara) eða þá að krefjast fullnustu sektarinnar með aðför.
    Í 116. gr. er mælt fyrir um hina eiginlegu saksókn, þ.e. þegar ákæruvald leggur mál fyrir dóm til úrlausnar. Um form ákæru eru svipaðar reglur og ákvæði í 115. gr. í gildandi lögum.
    Í 120. gr. er það nýmæli að dómari ákveði fyrirtöku máls, sem fyrir hann hefur verið lagt, með útgáfu fyrirkalls. Fyrirkallið er yfirlýsing dómara um að málið verði tekið fyrir á tilteknum stað og tíma. Það kemur í stað áritunar þeirrar ákæru sem gert er ráð fyrir í 4. mgr. 115. gr. núgildandi laga. Ef gallar eru á málatilbúnaði má dómari synja um útgáfu fyrirkalls skv. 3. mgr. 119. gr. Getur ákærandi þá bætt úr þeim ágöllum sem dómari telur vera á undirbúningi máls eða krafist úrskurðar dómara um synjunina, en synjunarúrskurð gæti hann kært til æðra dóms skv. 142. gr. Dómari gefur út fyrirkall en lögreglustjóri sér um birtingu þess, sbr. 2. mgr. 120. gr. Gert er ráð fyrir að sakborningur beri fram ósk um verjanda við birtingu fyrirkalls ef því er að skipta. Þetta getur leitt til hagræðingar og flýtisauka. Dómari skipar verjanda, sbr. 121. gr.
    Í XV. kafla er að finna reglur um meðferð mála í héraði og er um veruleg nýmæli að ræða. Í 122. gr. frv. segir um upphaf málsmeðferðar. Í fyrsta þinghaldi er mál þingfest með framlagningu ákæru og annarra gagna. Mál má eigi taka fyrir nema fyrirkall hafi verið birt ákærða en undantekning er þó gerð ef hann sækir þing. Skylt er að þing sé sótt af hálfu ákæruvaldsins sbr. 123. gr. Ef það er ekki gert mundi þingfesting að vísu fara fram en málinu yrði ekki lokið, heldur yrði að fresta því.
    Í þessu fyrsta þinghaldi ber fyrst að athuga hvort fram kemur krafa um frávísun máls. Dómari getur einnig vísað máli frá af sjálfsdáðum. Ef til frávísunar kemur ber að ákveða hana með úrskurði en ekki dómi eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Þá verður með þingfestingu gengið úr skugga um það hvort máli megi ljúka þá þegar skv. 124. -- 126. gr., en þær greinar geyma ákvæði um sérstaklega hraða meðferð. Ef ákærði sækir þing og játar brot ótvírætt, og brot varðar að mati dómara ekki þyngri refsingu en sekt, má gefa sakborningi kost á að ljúka máli með því að hann skuldbindi sig skriflega til greiðslu sektar og ákveður dómari þá að ljúka máli með þeim hætti, sbr. 124. gr. frv. Úr kröfu um sviptingu ökuleyfis og um upptöku má leysa með sama hætti. Ákærandi getur þó synjað um slíka afgreiðslu og krafist þess að dómur gangi. Þessi ákvörðun dómara um viðurlög svarar til dómsáttar samkvæmt gildandi lögum. Er þetta fljótvirk leið til þess að fá niðurstöðu í minni háttar málum.
    Ef ákærði sækir þing og játar brot skýlaust og hvorki dómari né aðilar telja þörf á sönnunarfærslu má dómari þegar leggja dóm á málið, enda liggi ekki í lögum þyngri refsing við broti en átta ára fangelsi, sbr. 125. gr. frv. Í þeim tilfellum er gert ráð fyrir að dómar verði mjög stuttir.
    Í 126. gr. frv. er heimilað að dæma tiltekin mál að sakborningi fjarstöddum. Hér er í verulegum atriðum um nýmæli að ræða, sem miðar að greiðari afgreiðslu einfaldari mála. Þessi heimild nær í fyrsta lagi til mála þar sem einungis kemur til greina að dæma mann í sekt, upptöku eigna eða réttindasviptingu og í öðru lagi mála þar sem ákærði hefur áður komið fyrir dóm, þ.e. á meðan rannsókn máls stóð, og játað brot sitt þar skýlaust, enda verði ekki dæmd þyngri refsing en sex mánaða fangelsi.
    Í málum þeim sem lokið verður skv. 124. -- 126. gr. er yfirleitt eigi skipaður verjandi nema ákærði óski þess. Hafi ákærði ekki verjanda né sjálfvalinn talsmann fer enginn lokamálflutningur fram, ella á að gefa ákæranda og verjanda kost á því að tjá sig stuttlega um lagaatriði og viðurlög áður en mál er tekið til dóms. Ef refsihámark brots sem ákært er fyrir er hærra en átta ára fangelsi, svo og ef ákærði neitar sök að einhverju leyti eða öllu, fer fram aðalflutningur máls. Aðalflutning máls mundi dómari einnig endranær geta ákveðið, t.d. ef hann dregur í efa að játning ákærða sé sannleikanum samkvæm eða telur að sönnunarfærsla og málflutningur sé æskilegur.
    Um aðalmeðferð máls eru fyrirmæli í 128. -- 130. gr. frv. Sé við útgáfu ákæru ljóst að um aðalmeðferð máls verði að ræða ber ákæranda að láta ákæru fylgja skrá yfir gögn sem fram verði færð af hálfu ákæruvaldsins. Við aðalmeðferð er ákærða skipaður verjandi, hvort sem hann óskar þess eða ekki, nema hann hafi sjálfur valið sér talsmann eða honum verði leyft að flytja mál sitt sjálfur. Ætlast er til að aðalmeðferð fari fram í einni lotu. Reglur um aðalmeðferð eru líkar reglum laga um meðferð einkamála í héraði um aðalmeðferð máls.
    Munnlegum málflutningi í lok aðalmeðferðar á að haga á sama hátt og nú, sbr. 2. mgr. 135. gr. núgildandi laga. Heimild til þess að flytja mál skriflega ef sérstaklega stendur á er á sama veg og nú er skv. gildandi lögum.
    XVI. kafli fjallar um dómsúrlausnir héraðsdómara og kemur í stað XX. kafla gildandi laga. Í 134. gr. er fjallað um ákvörðun dómara og úrskurð. Úrskurður er studdur forsendum en ekki ákvarðanir. Í 135. gr. er fjallað um dóma í minni háttar málum. Þar sem játning liggur fyrir eða mál
er dæmt að ákærða fjarstöddum er ætlast til að dómar séu mjög stuttir.
    XVII. kafli fjallar um ákæru til æðra dóms. Reglum gildandi laga er lítið eitt breytt.
    XVIII. kaflinn fjallar um áfrýjun. Nokkur nýmæli mætti þar nefna. Í fyrsta lagi er í 147. gr. gert ráð fyrir að máli verði áfrýjað með tvennu móti. Í fyrsta lagi má áfrýja máli í heild sinni um: a. sakarmat, þ.e. um úrlausn á því hvort ákærði hafi gerst sekur um það athæfi sem honum er gefið að sök, b. færslu brota til refsiákvæða og um önnur lagaatriði, c. ákvörðun viðurlaga.
    En einnig má áfrýja máli einungis um þau atriði sem í b og c greinir, þ.e. um lagaatriði og viðurlög.
    Þegar um þessa takmörkuðu áfrýjun eina er að ræða er að því stefnt að málsmeðferð fyrir Hæstarétti geti orðið mun umfangsminni og fljótvirkari en ef máli er áfrýjað í heild sinni.
    Hvor aðila getur áfrýjað máli. Er hér raunar um orðalagsmun að ræða frá því sem nú er, en nú áfrýjar ákæruvaldið máli í öllum tilvikum, ýmist af sjálfsdáðum eða eftir kröfu ákærða. Eftir sem áður telst ákæruvaldið sóknaraðili máls fyrir Hæstarétti og gefur út áfrýjunarstefnu, samkvæmt 155. og 156. gr. frv.
    Í 153. gr. er áfrýjunarfrestur ákveðinn fjórar vikur í stað tveggja vikna.
    XIX. kafli fjallar um sakarkostnað. Felld eru niður ákvæði um ferðakostnað dómara, þóknun fyrir skjalaþýðingar og dómtúlkun og að gæsluvarðhalds- og flutningskostnaður ákærða teljist til sakarkostnaðar.
    Í XX. kafla er fjallað um kröfur borgararéttarlegs eðlis. Þessi kafli er að verulegu leyti í samræmi við gildandi lög.
    XXI. kafli fjallar um bætur til handa sakborningi og XXII. kafli fjallar um endurupptöku. Athygli er vakin á 2. mgr. 185. gr. um að ríkissaksóknari geti óskað endurupptöku til hagsbóta fyrir dómfellda. Einnig má benda á ákvæði 2. og 3. mgr. 126. gr. en þar er um sérstaka endurupptökuheimild að ræða þegar mál hefur verið dæmt að sakborningi fjarstöddum.
    XXIII. kafli fjallar að lokum um gildistöku og brottfallin lög. Gert er ráð fyrir að gildistaka frv.

verði 1. júlí 1992 þegar aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdarvalds gengur í gildi.
    Ég hef nú vikið að meginbreytingum er í frv. felast. Í stuttu máli felast þær í því að tryggja sem best réttaröryggi. Jafnframt lúta breytingarnar að auknu hagræði, m.a. með því að gera meðferð minni háttar mála einfaldari. Eðlilegt er að spurt sé hvort breytingarnar auki útgjöld ríkissjóðs. Í stuttu máli skal gerð grein fyrir því.
    Málsmeðferð verður dýrari að því leyti að gert er ráð fyrir að ákæruvaldið mæti nær ætíð fyrir dóm í refsimálum. Þetta þýðir þörf fyrir aukinn mannafla, einkum hjá ríkissaksóknara. Ef ríkissaksóknari nýtti sér heimild til þess að fela lögreglustjórum að fara með mál utan Reykjavíkur yrði viðbótarkostnaður minni.
    Nokkur atriði í frv. leiða til sparnaðar sem er einkum þessi:
    1. Aukin heimild lögreglustjóra til þess að ljúka máli með sektarákvæðum.
    2. Ítarlegri ákvæði um kvaðningu ákærða fyrir dóm og heimild dómara til þess að ljúka máli þótt ákærði mæti ekki í dómi.
    3. Gert er ráð fyrir styttri dómum í einfaldari málum.
    4. Ákvæði um svokallaðan aðalflutning máls ætti að auka hagræði.
    5. Nýjar kæruheimildir ættu að stuðla að fækkun kærumála.
    6. Nýjar reglur um áfrýjun, þ.e. möguleiki á að áfrýja hluta máls, þ.e. varðandi lagaatriði og viðurlög, ættu að leiða til sparnaðar.
    Til viðbótar þessum atriðum mætti nefna að í ráðuneytinu er nú unnið að undirbúningi aðskilnaðar dómsvalds og framkvæmdarvalds sem kemur til framkvæmda 1. júlí 1992. M.a. er stefnt að því að taka tölvur í auknum mæli í notkun í þágu dómstóla sem ætti að leiða til skilvirkari vinnubragða og hagræðingar og jafnframt verksparnaðar.
    Það sem hér hefur verið talið upp og horfir til sparnaðar ætti að verulegu leyti að vega upp á móti auknum kostnaði vegna aukinna verkefna ákæruvaldsins.
    Ég hef, hæstv. forseti, lokið við að mæla fyrir þessu frv. og legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.