Rannsóknir í þágu atvinnuveganna
Þriðjudaginn 06. nóvember 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingu á lögum nr. 64 21. maí 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Frv. þetta er í eðli sínu mjög einfalt. Það gengur út á það að heimila Hafrannsóknastofnun, að fengnu samþykki stjórnar þeirrar stofnunar og sjútvrh., að eiga aðild að rannsóknar - og þróunarfyrirtækjum sem séu hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsóknar- og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.
    Hér er um að ræða frv. sem er sambærilegt við löggjöf sem hefur verið samþykkt að því er varðar Háskóla Íslands, Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
    Það eru að sjálfsögðu mörg verkefni sem Hafrannsóknastofnun getur tekið þátt í með þessum hætti. Stofnunin hefur í vaxandi mæli aukið samstarf sitt við atvinnulífið um ýmsar rannsóknir, svo sem á fiskstofnum og í mörgum öðrum tilvikum.
    Nýlega skilaði sérstök nefnd skýrslu um það með hvaða hætti væri rétt að standa að rannsóknum varðandi eldi sjávarfiska sem er alllangt komið hér á landi þó ljóst sé að við verðum að gera þar verulegt átak ef við eigum ekki að dragast aftur úr öðrum þjóðum. Þessar rannsóknir ganga fyrst og fremst út á það að kanna með betri hætti en hingað til hefur verið gert hvort fyrir því sé grundvöllur að stofna til lúðueldis, þorskeldis, steinbíts- eða hlýraeldis. Hér er um kaldsjávarfiska að ræða sem hafa góð skilyrði hér við land. Þau ánægjulegu tíðindi hafa gerst að Íslendingum hefur tekist að klekja út lúðu. Og þótt þær séu aðeins tvær þá var það sá sami árangur sem Norðmenn náðu 1985, en á síðasta ári tókst þeim að klekja út 50 þús. seiðum.
    Það er einnig ljóst af þeim rannsóknum sem þegar hafa farið fram að mögulegt er að sleppa þorskseiðum og hefur komið í ljós að sá fiskur sem sleppt er veiðist að mestu leyti innan fjögurra km radíusar frá þeim stað sem sleppingin átti sér stað. Benda rannsóknir jafnframt til þess að ef tekst að ala þorskseiði á ódýrari hátt en nú er, en það er því miður allt of dýrt enn, þá muni slíkt eldi geta staðið undir sér í framtíðinni. Þetta er ekki síst áhugavert vegna þess að talið er að þorskstofnar séu margir hér á landi og þeir séu staðbundnir í hinum ýmsu fjörðum. Því er ekki ólíklegt að það megi ala þessa sérstöku stofna á þeim svæðum þaðan sem þeir koma og þannig bæta atvinnu og afkomu sjávarútvegs í framtíðinni.
    Þetta verður að hafa í huga með tilliti til þess að talið er að neysla á eldisfiski muni aukast í heiminum á næstu 20 árum úr 10 millj. tonna í jafnvel 30 millj. tonn. Þjóðir eins og Norðmenn hafa sett sér það markmið að auka eldi á fiski upp í 1 millj. tonna eftir 20 ár. Ef þeim tekst það gæti þar verið um að ræða verðmæti upp á 250 -- 350 milljarða íslenskra króna, sem er langt umfram heildargjaldeyristekjur Íslendinga. Og jafnvel þótt ekki mundi rætast nema brot af því er ljóst að hér getur verið um að ræða þýðingarmikla atvinnustarfsemi í framtíðinni ef rétt er staðið að rannsóknum og menn hlúa að þeim strax í upphafi. En að sjálfsögðu eru þetta mál sem taka langan tíma og árangur skilar sér ekki fyrr en að mörgum árum liðnum.
    Við ættum að hafa lært það varðandi uppbyggingu ýmissa atvinnugreina í landinu að það er rétt að leggja fjármagn í rannsóknir áður en mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Og ef menn geta ekki lagt fjármagn í rannsóknir sem þessar, sem skapa möguleika inn í framtíðina, þá er líka ljóst að við munum dragast aftur úr í samfélagi þjóðanna. Því með þeim eina hætti að nýta alla möguleika sem eru fyrir hendi getum við tryggt góð lífsskilyrði til frambúðar. Þetta er dæmi um verkefni sem Hafrannsóknastofnun vill vinna að í samvinnu við atvinnugreinina og þetta frv. mun m.a. gera henni það kleift þótt nauðsynlegur fjárstuðningur ríkisins þurfi jafnframt að koma til.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu, herra forseti, leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.